Fréttir Greiningar

Óbreyttir stýrivextir í 4,5% og hlutlaus tónn

23.08.2017 11:58

Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnti í morgun þá ákvörðun sína að halda stýrivöxtum óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga innstæðum, eru því áfram 4,50% eftir 0,50 prósentu lækkun á öðrum ársfjórðungi. Tónninn í yfirlýsingu nefndarinnar er hlutlaus, og má ráða af yfirlýsingunni að nefndin telji núverandi vaxtastig endurspegla raunvexti sem eru í samræmi við verðbólgumarkmið til meðallangs tíma.

Greinilegt er að peningastefnunefndin horfir talsvert til þeirrar óvæntu gengislækkunar sem einkennt hefur krónuna frá júníbyrjun, eins og vonlegt er. Hins vegar er í yfirlýsingunni bent á að gengi krónu sé enn nærri 8% hærra en á sama tíma í fyrra. Þá hafi bilið á milli verðþróunar innlendra þátta, einkum húsnæðiskostnaðar, og erlendra þátta haldið áfram að aukast síðustu mánuði, sem eykur óvissu um verðbólguhorfur til næsta árs.

Krónan, ferðamannatekjur og húsnæðismarkaður óvissuþættir

Þessi klausa í yfirlýsingunni er athyglisverð:

Hræringar hafa verið á gjaldeyrismarkaði og vísbendingar eru um að breytingar gætu verið framundan í utanríkisviðskiptum og á húsnæðismarkaði. Of snemmt er að fullyrða um umfang og afleiðingar þeirra.

Hér er annars vegar verið að ræða um annars vegar hægari vöxt þjónustuútflutnings og hins vegar hægari hækkun húsnæðisverðs, en nýjustu tölur benda til þess að þróunin geti verið á þennan veg eftir hraðan vöxt undanfarið.  Ólíklegt er  þó að þessir óvissuþættir muni taka skýra stefnu fyrr en líður að árslokum. Það hvetur þá nefndina til að bíða og sjá hvað setur næstu mánuðina að öðru óbreyttu.

Að þessu slepptu virðist nefndin ekki vera á því að lækka stýrivexti frekar á næstunni nema raunvextir hækki á nýjan leik. Til að raunvextir hækki að óbreyttum nafnvöxtum þurfa verðbólguvæntingar, verðbólguálag og/eða 12 mánaða verðbólga að hjaðna að nýju. Það gerist að okkar mati varla næstu mánuði nema krónan styrkist talsvert á nýjan leik.

Jákvæð teikn á lofti

Þótt peningastefnunefndin sjái ekki svigrúm til lækkunar vaxta nú er ýmislegt sem bendir til þess að raunvextir kunni að verða lægri að jafnaði næstu misserin en raunin var undanfarin misseri. Seðlabankinn spáir heldur hægari hagvexti (5,2%) á yfirstandandi ári í nýrri hagspá sinni en spáð var í maí sl. (6,3%), og þar af leiðandi minni framleiðsluspennu til skemmri tíma. Sem fyrr er spáð hægari vexti næstu tvö ár, og er ástæðan fyrst og fremst minni vöxtur þjónustuútflutnings, einkaneyslu og fjármunamyndunar. Verðbólguspá bankans er einnig tiltölulega hófleg þrátt fyrir að spáð sé veikari krónu nú en í síðustu verðbólguspá.  Gerir bankinn nú ráð fyrir 2,6% meðalverðbólgu á næsta ári, og 2,8% verðbólgu árið 2019 að jafnaði.

Þá hafa verðbólguvæntingar og verðbólguálag til lengri tíma haldist tiltölulega stöðug undanfarið þrátt fyrir allsnarpa veikingu krónu. Má segja að peningastefnan hafi staðist fyrsta álagsprófið sem búast mátti við þegar veiking krónu myndi ýta upp skammtíma verðbólguvæntingum. Einnig nefndi aðalhagfræðingur bankans, Þórarinn G. Pétursson, að breytt samkeppnisumhverfi á neytendamörkuðum gæti haft áhrif til minni verðbólgu og lægri verðbólguvæntinga á komandi misserum en áður hefði verið gert ráð fyrir.

Við teljum sem fyrr að vextir verði óbreyttir fram á næsta ár, en að þá kunni að skapast svigrúm til lítilsháttar lækkunar vaxta. Raunvextir munu hins vegar lækka jafnt og þétt fram á mitt næsta ár með vaxandi verðbólgu og hærri verðbólguvæntingum.

Vextir ekki lækkaðir til að losa bindiskyldu

Varðandi bindiskyldu á innflæði vegna fjárfestingar í skuldabréfum og innlánum lýsti Seðlabankastjóri því yfir að afnám bindiskyldunnar væri ekki sjálfstæð ástæða til lækkunar vaxta, öfugt við það sem ýmsir hefðu haldið fram undanfarið. Opinber stefna væri að núllstilla tækið þegar aðstæður gera það kleift. Hins vegar yrði bindiskylda minnkuð í skrefum sem tækju tillit til aðstæðna og þá ekki síst þróunar lengri tíma vaxtamismunar við útlönd. Þá þyrfti að líta til þess að enn væri lokaskrefið í losun hafta eftir sem m.a. tekur til eftirstandandi aflandskróna. Mikilvægt væri að hafa tímasvið og röð viðburða í huga hvað þetta varðar – vextir verða ekki lækkaðir til að vinda ofan af fjárstreymistækinu heldur verða þær ákvarðanir teknar með hliðsjón af verðbólgumarkmiði sem gæti svo haft áhrif á stillingu tækisins. Fjárstreymistækið er undir venjulegum kringumstæðum ekki virkt og er þriðja víglínan á eftir hagstjórn og venjulegum varúðartækum.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall