Fréttir Greiningar

Verðbólga hjaðnar í ágúst

30.08.2017 11:30

Lítil hækkun íbúðaverðs og óvenju lítil áhrif útsöluloka eru stærstu ástæður þess að vísitala neysluverðs hækkaði minna í ágústmánuði en vænta mátti. Hægari hækkun íbúðaverðs og áhrif aukinnar samkeppni á verð innfluttra vara gætu orðið til þess að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út yfirstandandi ár.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,25% í ágúst skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 1,7% en var 1,8% í júlí. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,18% í ágúst og miðað við þá vísitölu mælist 3,0% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Það dregur því lítillega saman með verðbólgumælikvörðunum með eða án húsnæðis.

Mæling ágústmánaðar er undir öllum birtum spám.  Við spáðum 0,4% hækkun VNV milli mánaða, en opinberar spár hljóðuðu ýmist upp á 0,4% eða 0,6% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að mestu í minni hækkun húsnæðisverðs og minni áhrifum útsöluloka á fataverð en við spáðum. Á móti hækkaði verð á mat og drykkjarvörum heldur meira en við spáðum.

Hægari hækkun íbúðaverðs dregur úr verðbólguþrýstingi

Reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, hækkaði um 0,5% í ágústmælingu Hagstofunnar á VNV (0,11% áhrif í VNV). Það er minnsta hækkun þessa liðar síðan í apríl 2016, og skýrist þessi litla hækkun nú af 0,3% hækkun verðs á fjölbýli á höfuðborgarsvæði og 0,2% hækkun íbúðaverðs á landsbyggðinni. Hins vegar hækkaði verð sérbýla á höfuðborgarsvæði um 1,5% í ágústmælingu VNV eftir mjög litla hækkun í júlí. Vísbendingar eru um að nú hægi á hækkunartakti íbúðaverðs, og haldi fram sem horfir mun þessi liður hafa minni hækkunaráhrif á VNV en raunin hefur verið undanfarin misseri.

Áhrif vaxandi samkeppni að koma fram?

Þá virðast áhrif útsöluloka á fata- og skóverð hafa verið með allra minnsta móti í ár miðað við síðustu ár. Sá liður hækkaði um 2,4% (0,08% í VNV) að þessu sinni, en undanfarin ár hefur hækkunin verið á bilinu 5,3% - 7,9% í ágústmánuði. Hugsanlegt er að hér sé um tilfærslu milli mánaða að ræða, og að fataverð hækki þeim mun meira í september. Þó gæti eins verið að vaxandi samkeppni á fatamarkaði sé að birtast í þessum tölum þrátt fyrir veikingu krónu frá maílokum. Útsölulok voru væntanlega einnig helsta skýring 3,9% hækkunar á verði húsgagna og heimilisbúnaðar (0,05% í VNV).

Áhrif gengislækkunar krónu frá sumarbyrjun koma fram í ágústtölum Hagstofunnar í ýmsum undirliðum VNV. Má þar nefna eldsneytisverð, sem hækkar um 2,8% milli mánaða (0,08% í VNV) og verð á ávöxtum og grænmeti, sem vegur samanlagt til 0,09% hækkunar VNV í ágúst. Hækkun á eldsneytisverði erlendis hefur þó líklega einnig áhrif á fyrrnefnda liðinn. Hins vegar eru einnig vísbendingar um að ýmsir innfluttir vöruflokkar séu að hækka minna en vænta mátti í kjölfar veikingar krónu, og gætu fyrrnefnd samkeppnisáhrif verið þar að verki.

Af lækkunarliðum í VNV vó 12,6% lækkun flugfargjalda til útlanda langþyngst (-0,19% í VNV). Var þar um að ræða árstíðarbundin áhrif eftir mikla hækkun flugfargjalda í júlímælingu VNV.

Verðbólga undir markmiði út árið?

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aðeins hækka næstu mánuðina. Við spáum 0,4% hækkun VNV í september, 0,2% í október og 0,2% í nóvember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,1% í nóvembermánuði. Horfur eru á að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði út árið 2017.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,2% í mánuði hverjum að jafnaði. Þau áhrif eru þó talsvert minni en var að jafnaði á fyrri helmingi ársins, og gætu jafnvel orðið enn vægari ef lítil hækkun íbúðaverðs í ágústmælingunni gefur tóninn fyrir komandi mánuði. Áhrif útsöluloka munu svo lita septembermælingu VNV. Þá gerum við ráð fyrir nokkurri árstíðarbundinni lækkun flugfargjalda í september. Áhrif af gengislækkun krónu frá júníbyrjun munu svo koma fram í verðhækkun ýmissa innfluttra vara á komandi mánuðum. Eins og fyrr segir gæti sú hækkun þó orðið minni en ætla mætti vegna áhrifa af vaxandi samkeppni á smásölumarkaði.Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall