Fréttir Greiningar

Viðskiptaafgangur á fyrri árshelmingi mun minni en í fyrra

05.09.2017 11:20

Viðskiptaafgangur á fyrri helmingi yfirstandandi árs var nærri helmingi minni en á sama tímabili í fyrra. Erlend staða þjóðarbúsins versnaði nokkuð á öðrum ársfjórðungi og var neikvæð um 2,5% um mitt ár. Minni viðskiptaafgangur er ein skýring ólíkrar þróunar krónu í ár frá fyrra ári, og má búast við að viðskiptaafgangur á árinu í heild verði talsvert minni en í fyrra. Áfram er þó útlit fyrir hagstæðan viðskiptajöfnuð á komandi misserum.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans var viðskiptajöfnuður við útlönd hagstæður um 16,3 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi (2F) 2017. Var það u.þ.b. helmingi minni afgangur en á sama fjórðungi fyrir ári síðan. Þegar lá fyrir að þjónustujöfnuður skilaði afgangi upp á 60 ma.kr. á 2F, en vöruskiptahalli var tæpir 46 ma.kr. á sama tíma. Jöfnuður frumþáttatekna, sem að stærstum hluta endurspeglar fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld milli landa, reyndist hagstæður um 6,8 ma.kr. Rekstrarframlög nettó voru neikvæð um 5,1 ma.kr. og jöfnuður fjárframlaga var neikvæður um 0,3 ma.kr. á 2F.

Helmingi minni afgangur á fyrri helmingi ársins

Á fyrri helmingi yfirstandandi árs nam viðskiptaafgangurinn samtals tæplega 24,5 mö.kr. Á sama tímabili 2016 nam afgangurinn hins vegar 46,7 mö.kr., og helmingaðist hann því nokkurn veginn á milli ára. Hefur afgangurinn á fyrri árshelmingi ekki verið minni frá árinu 2014. Minni viðskiptaafgangur milli ára skýrist af vaxandi vöruskiptahalla, minni afgangi þáttatekna og neikvæðari rekstrarframlögum. Vaxandi afgangur af þjónustujöfnuði vegur á móti þessari þróun, en hann hefur þó aukist mun minna milli ára en ætla mætti af mikilli fjölgun ferðamanna. Kemur þar að stærstum hluta til talsverður samdráttur í útgjöldum á hvern ferðamann í krónum talið, samdráttur í öðrum þjónustuútflutningi en ferðaþjónustu og vöxtur í neyslu Íslendinga á erlendri grund.

Erlend staða versnar lítillega 

Erlend staða þjóðarbúsins var neikvæð um 62 ma.kr. í júnílok 2017, sem jafngildir 2,5% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) ársins. Erlendar eignir námu 3.494 mö.kr. en erlendar skuldir 3.556 mö.kr. Meiri neikvæðar virðisbreytingar á erlendum eignum en erlendum skuldum er meginskýring á neikvæðri þróun erlendrar stöðu, en í lok 1F var staðan jákvæð um 80 ma.kr. Rétt er að halda til haga að erlend staða þjóðarbúsins er samt sem áður hagfelldari en hún var lengst af síðustu hálfa öld, og til marks um mun sterkari stöðu hagkerfisins að því leyti en undanfarna áratugi.

Útlit fyrir minnkandi viðskiptaafgang

Útlit er fyrir talsvert minni viðskiptaafgang í ár en í fyrra. Árið 2016 var viðskiptaafgangur tæplega 190 ma.kr., jafngildi 7,8% af VLF, skv. tölum Seðlabankans. Í þjóðhagsspá Greiningar í júlí var áætlað að afgangurinn verði 4,8% af VLF í ár. Ofangreindar tölur Seðlabankans virðast vera í ágætu samræmi við þá spá. Viðskiptajafnaðartölur 3F munu þó varpa mun skýrara ljósi á þróunina, enda kemur bróðurpartur þjónustuafgangs ársins til á þeim fjórðungi. Spá okkar gerir í kjölfarið ráð fyrir viðskiptaafgangi upp á 4,1% af VLF á næsta ári og 3,6% árið 2019.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall