Fréttir Greiningar

Spáum 0,5% hækkun VNV í september

13.09.2017 09:38

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,5% í september frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst verðbólga úr 1,7% í 1,8% í september.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma eru svipaðar og í síðustu spá, enda helstu forsendur lítið breyttar. Er nú útlit fyrir að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út þetta ár, en verði síðan að jafnaði rétt um 3,0% út árið 2019.

Útsölulok, húsnæði og eldsneyti til hækkunar

Útsölulok eru árviss áhrifaþáttur VNV í september, og vega þau hvað þyngst til hækkunar í spá okkar að þessu sinni. Við teljum þó að samanlögð verðhækkun á þeim vöruflokkum sem helst fara á útsölur (föt, húsbúnaður, heimilistæki o.þ.h.) verði almennt minni en sem nam verðlækkuninni í útsölunum, og verðlag á slíkum vörum lækki því á heildina litið á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir veikari krónu. Hér er líklegt að áhrifa aukinnar samkeppni gæti, og munu slík áhrif væntanlega áfram vega gegn hærra innkaupsverði erlendra vara vegna veikingar krónu.
 
Verð á fötum og skóm hækkaði óvenju lítið í ágúst sl. miðað við síðustu ár. Við gerum hins vegar ráð fyrir svipaðri hækkun á þessum lið í september og verið hefur undanfarin ár (0,22% áhrif í VNV).Útsölulok í öðrum vöruflokkum leiða að mati okkar til 0,06% hækkunar VNV í september.

Húsnæðisliður VNV hefur verið helsti hækkunarvaldur hennar undanfarin misseri, en nú eru teikn um að heldur sé að draga úr verðþrýstingi á íbúðamarkaði. Við teljum að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, muni hækka um u.þ.b. 1,0% í september (0,17% í VNV) en til samanburðar hækkaði þessi liður að jafnaði um 1,8% í mánuði hverjum á fyrri helmingi ársins. Í heild gerum við ráð fyrir að húsnæðisliðurinn vegi til 0,2% hækkunar VNV í september.

Eldsneyti hefur hækkað nokkuð frá síðustu mælingu Hagstofunnar vegna veikingar krónu og hækkunar á heimsmarkaðsverði (0,03% í VNV). Þá vegur hækkun matvælaverðs einnig til 0,03% hækkunar VNV í september.

Flugfargjöld og gisting til lækkunar

Útlit er fyrir að flugfargjöld lækki nokkuð í september, og er þar um árstíðabundin áhrif að ræða. Könnun okkar bendir þó til minni lækkunar en oft áður í mánuðinum (-0,08% í VNV). Þá gerum við ráð fyrir lækkun á verði hótelgistingar (-0,02% í VNV) nú þegar líður að lokum háannatíma í ferðaþjónustu.

Vaxandi verðbólga á komandi mánuðum

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni heldur aukast næstu mánuðina. Við spáum 0,2% hækkun VNV í október, 0,1% hækkun í nóvember og 0,3% hækkun í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,3% í árslok.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,2% í mánuði hverjum að jafnaði. Það eru þó talsvert hóflegri áhrif en á fyrri helmingi ársins. Áhrif af gengislækkun krónu frá júníbyrjun munu svo koma fram í verðhækkun ýmissa innfluttra vara á komandi mánuðum. Á móti vega þó áhrif aukinnar samkeppni, en enn er nokkur óvissa um hversu sterk þau verða.

Verðbólga nokkuð yfir markmiði næstu ár

Útlit er fyrir fremur hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Við gerum ráð fyrir að gengi krónu verði í stórum dráttum á svipuðum slóðum á spátímanum og það hefur verið að meðaltali það sem af er ári. Þá gerum við ráð fyrir að jafnt og þétt dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs og launa eftir því sem líður á spátímann.

Við teljum að verðbólga aukist nokkuð eftir því sem líður á komandi vetur, en nái jafnvægi undir næsta vor rétt yfir 2,5% verðbólgumarkmiðinu. Áætlum við að verðbólga verði að jafnaði 3,0% á næsta ári. Við spáum svo 2,8% verðbólgu að meðaltali árið 2019.

Verðbólguspá fyrir september

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall