Fréttir Greiningar

Efnahagur í aðflugi: Þjóðhagsspá 2017-2019

27.09.2017 11:34

Undanfarin ár hafa verið tímabil góðæris eftir efnahagslægð í upphafi áratugarins. Við teljum að uppsveiflan hafi náð hámarki á síðasta ári, þegar hagvöxtur nam 7,4%. Útlit er fyrir allmyndarlegan hagvöxt á þessu ári, en að í kjölfarið dragi jafnt og þétt úr vextinum. Við spáum 4,5% hagvexti í ár, 2,8% vexti á næsta ári og 2,3% hagvexti árið 2019.

Aukin umsvif heimilanna verða helsti burðarás vaxtar á spátímanum. Einkaneysla og íbúðafjárfesting tekur þar við af þjónustuútflutningi og fjárfestingu atvinnuvega, þótt fyrrnefndi liðurinn muni raunar vaxa talsvert áfram næstu árin.

Þótt vöxturinn verði hægari en undanfarið ber hann fremur merki aðlögunar að jafnvægisvexti en bakslags. Allgóðar líkur eru á að hin margumtalaða en sjaldséða mjúka lending muni einkenna lok yfirstandandi hagsveiflu á Íslandi í þetta skiptið.

Dregur úr viðskiptaafgangi

Vöxtur þjónustuútflutnings, sér í lagi ferðaþjónustu, hefur skýrt bróðurpart vaxtar í útflutningi síðustu ár. Þannig var aukinn þjónustuútflutningur að baki ríflega 4/5 af þeim tæplega 11% vexti sem mældist í heildarútflutningi á síðasta ári. Útlit er fyrir að ferðaþjónusta beri áfram uppi vöxt útflutnings þrátt fyrir hægari vöxt hennar á spátímanum. Einnig gerum við ráð fyrir nokkrum vexti vöruútflutnings á næstu árum. Útlit er fyrir að draga muni úr vexti bæði út- og innflutnings eftir því sem líður á spátímann. Innflutningur mun  þó vaxa öllu hraðar en útflutningur öll árin. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verður því neikvætt. 

Viðskiptaafgangur hefur verið myndarlegur undanfarin 4 ár. Horfur eru á að afgangurinn minnki eftir því sem líður á spátímann, samhliða minni afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum. Áfram litur þó út fyrir afgang af viðskiptajöfnuði. Gerum við ráð fyrir að afgangurinn nemi tæplega 5% í ár, tæpum 4% á næsta ári og ríflega 3% árið 2019.

Heimilin taka við hagvaxtarboltanum

Fjárfesting hefur vaxið myndarlega undarfarin ár, sér í lagi fjárfesting einkaaðila. 2016 var fyrsta árið frá fjármálakreppunni 2008 þar sem fjárfestingarstigið fór yfir 20% af VLF. Útlit er fyrir að fjárfestingarstigið verði áfram ríflega 1/5 af VLF á spátímanum. Hlutur íbúðafjárfestingar í heildarfjárfestingu stækkar hins vegar á spátímanum, og hlutur atvinnuvegafjárfestingar verður minni.

Spenna á vinnumarkaði hefur vaxið jafnt og þétt síðustu misserin. Atvinnuleysi er nú með því minnsta sem mælst hefur, og atvinnuþátttaka hefur sjaldan verið meiri.Við teljum að atvinnuleysi muni nema 2,7% af vinnuafli í ár, 2,8% á næsta ári og 2,9% á árinu 2019.

Frá ársbyrjun 2012 hefur kaupmátur launa vaxið um 4,7% á ári að jafnaði. Kaupmáttaraukningin náði hámarki á síðasta ári, þegar hún nam 9,5%. Útlit er fyrir hægari hækkun launa á spátímanum en raunin var í fyrra, og þar með talsvert minni aukningu kaupmáttar. Aukning kaupmáttar verður þó að jafnaði ríflega 3% á ári samkvæmt spánni, sem má telja myndarlegt í sögulegu og alþjóðlegu samhengi.  

Stígandi hefur verið í vexti einkaneyslu undanfarin misseri. Hraðari einkaneysla hefur verið studd af mikilli kaupmáttaraukningu, bættri fjárhagsstöðu heimila, vaxandi atvinnuþátttöku og fólksfjölgun, svo nokkuð sé nefnt. 

Við gerum ráð fyrir 8,0% vexti einkaneyslu í ár, 5% vexti á næsta ári og 3% vexti árið 2019. Seinni tvö árin verður vöxtur einkaneyslu í takti við kaupmáttarvöxt að viðbættri fólksfjölgun.

Hóflegar breytingar á gengi, verðbólgu og stýrivöxtum

Við gerum ráð fyrir að gengi krónu verði á svipuðum slóðum á spátímanum að jafnaði það sem af er þessu ári. Viðskiptaafgangur fer minnkandi, vaxtamunur hefur skroppið saman og meira jafnvægi er að komast á fjárfestingaflæði en verið hefur síðustu misserin. Horfur eru því á tiltölulega sterkri krónu á spátímanum. Óvissa um þetta er þó veruleg í ljósi þess hve stutt reynsla er komin á núverandi umhverfi krónu eftir losun hafta.

Við teljum að verðbólga aukist nokkuð eftir því sem líður á komandi vetur, en nái tímabundnu jafnvægi undir næsta vor rétt yfir 2,5% verðbólgumarkmiðinu. Áætlum við að verðbólga verði að jafnaði 3,0% á næsta ári. Við spáum svo 2,8% verðbólgu að meðaltali árið 2019.

Stöðug verðbólga og hóflegar  verðbólguvæntingar hefur gefið Seðlabankanum svigrúm til að lækka stýrivexti þrátt fyrir uppgang í hagkerfinu. Lækkun stýrivaxta á fyrri hluta yfirstandandi árs virðist ekki síst hafa miðað að því að halda raunstýrivöxtum á svipuðum slóðum og þeir voru í ársbyrjun.

Vaxandi verðbólga mun þó leiða til lækkandi raunstýrivaxta á komandi fjórðungum að öðru jöfnu, og teljum við því að virkum stýrivöxtum verði haldið óbreyttum næsta kastið til að herða ekki á lækkun raunvaxtanna. Á seinni hluta spátímans gæti hins vegar skapast svigrúm fyrir einhverja frekari lækkun stýrivaxta.

Þjóðhagsspá 2017-haust

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall