Fréttir Greiningar

Þjónustuafgangur stendur í stað þrátt fyrir fjölgun ferðamanna

01.12.2017 13:05

Þrátt fyrir umtalsverða fjölgun ferðamanna á fyrstu þremur fjórðungum ársins var afgangur af þjónustujöfnuði nánast sá sami á þessu tímabili í ár og í fyrra. Ástæðan er annars vegar minni gjaldeyristekjur af hverjum ferðamanni í krónum talið, og hins vegar mikil aukning á neyslu Íslendinga á erlendri grundu. Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd skrapp saman um nærri 30% á þessu tímabili, og er ljóst að viðskiptaafgangur verður talsvert minni í ár en í fyrra.

 

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar var afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd 118 ma.kr. á 3. ársfjórðungi. Er það 5 mö.kr. minni afgangur en á sama tíma í fyrra, sem er athyglisvert í ljósi þess að erlendum ferðamönnum á þessum háannatíma ferðaþjónustunnar fjölgaði um 16% á milli ára samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Ferðaþjónusta var stærsti liðurinn í bæði inn- og útfluttri þjónustu á ársfjórðungnum og skilaði mestum afgangi, tæpum 75 ma.kr.. Afgangur af samgöngum og flutningum nam ríflega 63 ma.kr. Mestur halli var af annarri viðskiptaþjónustu eða rúmir 15 ma.kr.

Ferðamenn spara við sig en Íslendingar neysluglaðir

Á fyrstu 9 mánuðum ársins nam afgangur af þjónustujöfnuði ríflega 220 mö.kr. Er það aukning um einungis 4 ma.kr. frá sama tíma í fyrra, sem hlýtur að sæta nokkrum tíðindum þar sem erlendum ferðamönnum hingað til lands fjölgaði um 28% á þessu tímabili samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu um brottfarir um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Á þessu eru einkum tvær skýringar. 

  • Í fyrsta lagi er greinilegt að hver erlendur ferðamaður skilar minni tekjum í krónum talið í ár en í fyrra. Tölur Hagstofu um gistinætur sýna að heimsóknir ferðamanna eru að jafnaði styttri en áður, auk þess sem margt bendir til þess að ferðamenn spari í auknum mæli við sig neyslu á borð við skoðunarferðir og málsverði á veitingahúsum.
  • Í öðru lagi hafa Íslendingar verið býsna drjúgir við að auka við erlenda neyslu sína. Útgjöld tengd ferðalögum og farþegaflugi jukust um 16% á milli ára, sé miðað við fyrstu 9 mánuði ársins. Þetta rímar við aukna ferðagleði landans, en brottförum Íslendinga um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgaði um 16% á tímabilinu samkvæmt tölum Ferðamálastofu.

 

Verulega dregur úr afgangi af utanríkisviðskiptum

Hagstofan birti einnig í morgun tölur um samanlagðan vöru- og þjónustujöfnuð á fyrstu 9 mánuðum ársins. Á 3. ársfjórðungi var afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum 70 ma.kr., og er það 30 mö.kr. minni afgangur en á sama tíma í fyrra. Á fyrstu þremur fjórðungum ársins var afgangurinn 92 ma.kr., sem jafngildir 28% minni afgangi í krónum talið en á sama tímabili á síðasta ári.

 

Skýringin á minni afgangi liggur í því að á sama tíma og þjónustuafgangur er lítt breyttur milli ára, eins og rakið er hér að ofan, hefur vöruskiptahalli aukist verulega. Halli á vöruskiptum nam rúmum 128 mö.kr. á fyrstu þremur fjórðungum ársins, en á sama tíma í fyrra var vöruskiptahallinn rúmir 88 ma.kr. Aukinn vöruskiptahalli stafar að stærstum hluta af verulegri aukningu í innflutningi neysluvara annars vegar, og samdrætti í útflutningi sjávarafurða hins vegar.

Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í september síðastliðnum gerðum við ráð fyrir að viðskiptaafgangur myndi reynast 4,8% af VLF (jafngildi u.þ.b. 124 ma.kr.) á árinu 2017. Á fyrri helmingi ársins reyndist viðskiptafgangurinn 24 ma.kr. Miðað við framangreindar tölur eru horfur á því að sú spá reynist nærri lagi, en þó gæti afgangurinn orðið eitthvað minni.  Seðlabankinn birtir tölur um viðskiptajöfnuð fyrstu 9 mánaða ársins næstkomandi mánudag. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall