Fréttir Greiningar

Minni viðskiptaafgangur en betri erlend staða þjóðarbúsins

05.12.2017 11:42

Töluvert hefur dregið úr viðskiptaafgangi við útlönd það sem af er ári. Ástæðan er fyrst og fremst sú að litlar breytingar hafa orðið á hreinum tekjum vegna ferðalaga milli landa, á sama tíma og vöruskiptahalli hefur aukist verulega vegna mikils innflutningsvaxtar og lítilsháttar samdráttar í útflutningi. Erlend staða þjóðarbúsins heldur þó áfram að batna, og hefur ekki verið betri í a.m.k hálfa öld. 

 

Viðskiptaafgangur við útlönd var ríflega 68 ma.kr. á 3. fjórðungi ársins samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans. Þrátt fyrir myndarlegan afgang var hann um þriðjungi minni í krónum talið en á sama tíma í fyrra. Afganginn má fyrst og fremst þakka miklum tekjum af ferðaþjónustu, sem leitt hafa til þess myndarlegs afgangs af þjónustuviðskiptum undanfarin ár. Þegar lá fyrir að þjónustuviðskipti skiluðu nærri 118 ma.kr. afgangi á fjórðungnum, en ríflega 47 ma.kr. halli var á vöruskiptum. Aðrir undirliðir breyttu myndinni ekki verulega. Frumþáttatekjur umfram –gjöld reyndust 1,6 ma.kr., en þessi liður endurspeglar að stærstum hluta fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld. Hins vegar voru rekstrarframlög neikvæð um 3,5 ma.kr. 

Ríflega þriðjungi minni viðskiptaafgangur

Viðskiptaafgangur var ríflega 91 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins. Til samanburðar var afgangurinn rúmlega 147 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Líkt og á 3. fjórðungi endurspeglar þessi þróun litlar breytingar á þjónustuafgangi annars vegar, og verulega aukinn vöruskiptahalla hins vegar. Þjónustuafgangur nam 220 mö.kr. á tímabilinu og jókst um 4 ma.kr. á milli ára, á meðan vöruskiptahalli reyndist 128 ma.kr. á fyrstu þremur fjórðungum ársins og jókst um 40 ma.kr. frá fyrra ári.

 

Í þjóðhagsspá okkar, sem út kom í september síðastliðnum, gerðum við ráð fyrir að viðskiptaafgangur myndi reynast tæplega 5% af VLF (120-130 ma.kr.) í ár, samanborið við nærri 8% af VLF í fyrra.  Hinar nýbirtu tölur benda til þess að sú spá reynist nærri lagi, en hugsanlega verði afgangurinn þó eitthvað minni.

Erlendar eignir 125 milljörðum meiri en erlendar skuldir

Seðlabankinn birti einnig tölur um skuldir og eignir þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. Erlendar eignir umfram skuldir reyndust 108 ma.kr., eða sem samsvarar 4,4% af áætlaðri VLF, í lok september síðastliðins. Hreina erlenda staðan batnaði um 125 ma.kr. á 3. ársfjórðungi , en síðustu tölur Seðlabankans höfðu gefið til kynna lítillega neikvæða hreina erlenda stöðu um mitt ár. Erlendar eignir voru 3.307 ma.kr. en erlendar skuldir 3.198 ma.kr. í septemberlok. Vart þarf að fjölyrða um hversu jákvætt það er að erlendar eignir þjóðarbúsins skuli vera orðnar meiri en erlendar skuldir, en síðustu áratugi var hið gagnstæða jafnan uppi á teningnum. 

Jákvæð hrein erlend staða ætti að öðru jöfnu að leiða til þess að fjármagnstekjur frá útlöndum verða að jafnaði meiri en fjármagnsgjöld, eins og raunin hefur verið undanfarna fjórðunga. Framlag þáttatekjujafnaðar til viðskiptajafnaðar verður því jákvætt, en fram á síðustu ár hafði þáttatekjujöfnuðurinn oftast verið dragbítur á viðskiptajöfnuðinn. Með öðrum orðum leiðir hin bætta erlenda staða til þess að raungengið getur að jafnaði verið hærra en ella án þess að á ógæfuhliðina sígi í viðskiptajöfnuði við útlönd.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall