Fréttir Greiningar

Hægari kaupmáttarvöxtur í fyrra eftir metár 2016

24.01.2018 11:25

 

Kaupmáttur launa jókst mun hægar á Íslandi í fyrra en árið 2016, enda var vöxturinn óvenju hraður á síðarnefnda árinu. Vísbendingar eru um að einkaneysla hafi aukist öllu hraðar en kaupmáttur á síðasta ári, í fyrsta sinn í áratug. Ýmsar skýringar eru þó á þeim mun, og ekki lítur út fyrir að heimilin séu að auka skuldsetta neyslu í viðlíka mæli og raunin var á fyrsta áratug aldarinnar.

Laun í landinu hækkuðu að jafnaði um 0,2% í desember síðastliðnum samkvæmt nýbirtri launavísitölu Hagstofunnar. Yfir árið 2017 í heild hækkaði launavísitalan um 6,9%, samanborið við 9,1% hækkun árið 2016. Framhlaðnir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði sem gerðir voru um miðjan áratuginn og veruleg kjarasamningshækkun stórra hópa opinberra starfsmanna á árinu 2016 skýra þennan mun að stærstum hluta.
 
Þar sem vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,5% í desember lækkaði vísitala kaupmáttar launa um 0,1% í mánuðinum. Á nýliðnu ári jókst kaupmáttur launa hins vegar um 4,8% á þennan kvarða. Það er myndarleg kaupmáttaraukning í sögulegu jafnt sem alþjóðlegu samhengi. Má þar nefna að OECD áætlar að kaupmáttur launa hafi að jafnaði aukist um 0,4% á ári í aðildarlöndum stofnunarinnar árin 2014-2016, og gerir ráð fyrir 0,6% kaupmáttarvexti í OECD-löndum árin 2017-2019.

Talsvert hefur dregið úr kaupmáttaraukningunni hérlendis síðustu ársfjórðunga. Á sama tíma hefur mikill gangur verið í einkaneyslu. Á árinu 2017 í heild jókst kaupmáttur launa að jafnaði um 5,1% eftir 9,5% kaupmáttaraukningu árið 2016, sem er raunar hraðasta aukning kaupmáttar hér á landi svo langt aftur sem tölur Hagstofunnar ná. Við áætlum hins vegar að einkaneysla hafi aukist um 8,0% á síðasta ári að jafnaði. Kortaveltutölur og aðrir hagvísar sem gefa vísbendingar um þróun einkaneyslu benda til að heldur sé farið að draga úr vexti hennar upp á síðkastið, en vöxturinn er þó enn verulegur.

 

Sé áætlun okkar nærri lagi verður því 2017 fyrsta árið frá hinu mikla neysluári 2007 þar sem vöxtur einkaneyslu fer umtalsvert fram úr kaupmáttarvexti. Landsmenn sýndu talsverða ráðdeild frá upphafi áratugarins fram til ársins 2016, og var þá allgott samræmi milli vaxtar kaupmáttar launa annars vegar, og einkaneyslu hins vegar. Þetta breyttist svo á síðasta ári, eins og sjá má á myndinni.

Hafa þarf í huga að einkaneysla er heildar mælikvarði fyrir hagkerfið allt, en kaupmáttur launa endurspeglar meðaltalsþróun fyrir hvern einstakling á vinnumarkaði. Eðlilegt er því að einkaneyslan vaxi hraðar þegar landsmönnum fjölgar, eins og raunin hefur verið hér á landi. Á móti má nefna að Samtök atvinnulífsins hafa bent á að útreikningsaðferð Hagstofunnar á launavísitölu ofmeti hækkun launa í landinu um u.þ.b. 1% á ári.

Í öllu falli er langur vegur frá því að neyslugleði landsmanna sé að keyra fram úr neyslugetunni í viðlíka mæli og var í kring um miðjan síðasta áratug. Skuldsett neysla virðist því ekki vera að aukast í þeim mæli að það sé verulegt áhyggjuefni enn sem komið er. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall