Fréttir Greiningar

Væntingar neytenda dempast í janúar

30.01.2018 15:01

Væntingavísitala Gallup fyrir janúar var birt í morgun. Vísitalan lækkar um 15 stig milli mánaða og stendur nú í 121,5 stigum. Þrátt fyrir þessa lækkun er vísitalan enn vel yfir 100 stiga jafnvægisgildinu sem markar jafnvægið milli bjartsýni og svartsýni hjá íslenskum neytendum. Því má segja að neytendur séu almennt nokkuð bjartsýnir þrátt fyrir að þeir séu að draga saman seglin hvað væntingar varðar frá desember mælingunni, enda tóku væntingarnar nokkuð stökk upp á við í desember.

Flestar undirvísitölur lækka

Allar undirvísitölur lækka milli mælinga nema ein, mat á núverandi ástandi. Sú vísitala mælist enn há og stendur í 162 stigum. Athyglisvert er að væntingar til aðstæðna í atvinnu- og efnahagsmálum eftir sex mánuði lækka mest milli mælinga, eða um 26 stig og mælist 94,5 stig. Er hún einnig eina undirvísitalan undir 100 stiga jafnvægisgildinu. Eins lækkar mat á efnahagslífinu (-25,0) og mælist 120,5 stig ásamt mati á atvinnuástandinu (-12,6) sem stendur í 123,6 stigum.

Er að draga úr vexti einkaneyslunnar?

Áhugavert er að skoða væntingavísitöluna í samanburði við einkaneyslu því þróun þeirra helst oft í hendur. Eins og sést á myndinni hefur fylgni þessara stærða verið þónokkur. Útlit er fyrir að aðeins sé farið að draga úr vexti einkaneyslu, og bendir þróun væntingavísitölunnar ásamt öðrum hagvísum á borð við kortaveltutölur til þess.      

Væntingar tekjulægsta hópsins hækka

Athyglisvert er að væntingar neytenda með lægstu tekjurnar hækka. Er það eini tekjuhópurinn sem hækkar á milli mánaða (12,0). Sá hópur er auk þess sá næst bjartsýnasti og stendur í 129,8 stigum. Neytendur með hæstu tekjurnar (-14,9) eru þeir bjartsýnustu og mælast í 135,4 stigum. Væntingar neytenda með lægri millitekjur (-22,9) og hærri millitekjur ( -34,0) lækka milli mánaða. Þeir fyrrnefndu standa í 105,7 stigum og þeir síðarnefndu í 103,3 stigum og eru lægstir allra tekjuhópanna.

Þegar væntingavísitalan er skoðuð með tilliti til aldurs eru allir aldurshópar yfir 100 stiga jafnvægisgildinu. Hins vegar lækkar aldurshópurinn 45-54 ára (-32,3) langmest og stendur í 115,1 stigi, næst lægst allra hópa á eftir 18-24 ára sem stendur í 108,8 stigum. Hins vegar eru neytendur á aldrinum 35-44 ára bjartsýnastir og mælast 141,8 stig. 

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall