Fréttir Greiningar

Sætisbökin upp: Uppfærð þjóðhagsspá 2017-2019

01.02.2018 11:43

Undanfarin ár hafa verið tímabil góðæris eftir djúpa efnahagslægð í lok síðasta áratugar. Uppsveiflan náði hámarki árið 2016 þegar hagvöxtur nam 7,2%.  Við áætlum að hagvöxtur í fyrra hafi verið 4,1%. Fyrir yfirstandandi ár spáum við 2,3% hagvexti, og sama hagvexti árið 2019.

Segja má að heimilin dragi hagvaxtarvagninn að stórum hluta á spátímanum.. Einkaneysla og íbúðafjárfesting hefur í því efni tekið við af þjónustuútflutningi og fjárfestingu atvinnuvega. Fyrrnefndi liðurinn mun þó vaxa talsvert áfram næstu árin.

Hagvöxtur á síðasta ári var í takti við meðal hagvöxt á heimsvísu miðað við áætlun okkar. Útlit er fyrir að hagvöxtur hér á landi árin 2018 og 2019 verði nokkuð undir hagvexti í heiminum öllum, en í takti við meðalvöxt í þróuðum ríkjum, ef mið er tekið af nýrri hagspá AGS. 

Viðskiptaafgangur fer minnkandi

Aukinn þjónustuútflutningur, að stærstum hluta vegna tilkomu ferðaþjónustu sem helsta útflutningsatvinnuvegar Íslands, hefur verið burðarásinn í auknum útflutningstekjum undanfarin ár. Þannig var aukinn þjónustuútflutningur að baki ¾ af heildarvexti útflutnings árin 2012-2016.

Útlit er fyrir að ferðaþjónusta beri áfram uppi vöxt útflutnings. Við áætlum að ríflega 4/5 útflutningsvaxtar komi til af auknum þjónustuútflutningi. Þó gerum við ráð fyrir nokkrum vexti vöruútflutnings á næstu árum. Vegur þar þyngst vaxandi útflutningur sjávarafurða vegna aukins kvóta í þorski og fleiri botnfisktegundum. 

Á innflutningshliðinni hefur hins vegar vöxtur vöruinnflutnings skýrt 2/3 heildarvaxtar undanfarin ár. Aftur á móti eru horfur á að framlag vöru- og þjónustuinnflutnings til heildarvaxtar verði tiltölulega svipað á spátímanum.

Útlit er fyrir að vöxtur bæði út- og innflutnings verði talsvert hægari í ár og næsta ár en verið hefur. Innflutningur mun þó vaxa öllu hraðar en útflutningur bæði árin. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verður því neikvætt. 
Viðskiptaafgangur hefur verið myndarlegur undanfarin 5 ár. Árið 2016 mældist afgangurinn 7,7% af VLF, sem er mesti afgangur frá lýðveldisstofnun. Viðvarandi viðskiptaafgangur hefur átt drjúgan þátt í að bæta erlenda stöðu þjóðarbúsins, og er nú svo komið að erlendar eignir eru nokkru meiri en erlendar skuldir.

Við áætlum að viðskiptaafgangur hafi numið ríflega 100 mö.kr., sem samsvarar rúmum 4% af VLF, í fyrra. Við spáum því að viðskiptaafgangur muni nema 3,5% af VLF í ár, og 2,3% árið 2019. Gangi það eftir mun næsta ár verða sjöunda árið samfellt þar sem umtalsverður afgangur er af viðskiptajöfnuði. Ekkert bendir heldur sérstaklega til þess að jöfnuðurinn snúist til viðskiptahalla á allra næstu árum, a.m.k. svo lengi sem raungengið hækkar ekki verulega frá núverandi gildum eða viðskiptakjör versna umtalsvert.

Íbúðafjárfesting og einkaneysla drifkraftar vaxtar

Fjárfesting hefur vaxið verulega síðustu ár, sér í lagi fjárfesting einkaaðila. 2016 var fyrsta árið frá fjármálakreppunni 2008 þar sem fjárfestingarstigið fór yfir 20% af VLF. Oft er miðað við það hlutfall sem eðlilegt fjárfestingarstig í þróuðu hagkerfi.

Útlit er fyrir að fjárfestingarstigið verði áfram ríflega 1/5 af VLF á spátímanum. Hlutur íbúðafjárfestingar og opinberrar fjárfestingar í heildarfjárfestingu stækkar hins vegar á spátímanum, og hlutur atvinnuvegafjárfestingar verður minni.

Við áætlum að vöxtur fjárfestingar hafi numið um 11,5% á síðasta ári. Horfur eru á lítilsháttar samdrætti í heildarfjárfestingu í ár vegna minni fjárfestingar atvinnuvega, ekki síst tengt ferðaþjónustu. Fjárfesting vex að nýju um 5,0% næsta ár samkvæmt spá okkar. Þar vegur aukin íbúðafjárfesting þyngst.

Mikill gangur hefur verið á íbúðamarkaði undanfarin ár. Raunverð íbúða hefur hækkað hratt, sér í lagi á síðasta ári þegar raunverðið var að jafnaði rúmlega 17% hærra en árið 2016.

Ör vöxtur kaupmáttar launa, fólksfjölgun, lýðfræðilegar breytingar í átt að fleiri og smærri fjölskyldueiningum, skortur á framboði nýrra íbúða og hagstæð lánsfjármögnun eru meðal helstu skýringa á þessari þróun. Á síðasta ári var raunverðshækkunin hins vegar mun hraðari en sem nemur kaupmáttarvexti eftir allgóða fylgni þessara stærða árin áður.

Á seinni hluta síðasta árs tók að hægja á hækkunartakti íbúðaverðs, og teljum við að sú þróun haldi áfram á spátímanum. Ástæðurnar eru m.a. hægari kaupmáttarvöxtur, minni áhrif a ferðaþjónustu á framboð jafnt sem eftirspurn, og meira framboð á nýju íbúðarhúsnæði í kjölfar hratt vaxandi íbúðafjárfestingar.

Íbúðafjárfesting óx um 30,5% á síðasta ári m.v. áætlun okkar. Við teljum að íbúðafjárfesting muni  áfram vaxa talsvert á spátímanum. Við spáum 8% vexti í ár og 17,5% vexti árið 2019. Hér er þó um öllu minni vöxt að ræða en við spáðum áður, og því eru minni líkur á því en fyrr að framboð á íbúðarhúsnæði verði að fullu komið í samræmi við eftirspurn í lok spátímans.

Spenna á vinnumarkaði náði hámarki á síðasta ári að mati okkar. Atvinnuleysi árið 2017 mældist 2,8% að jafnaði m.v. könnun Hagstofunnar, og hefur það ekki verið lægra í áratug. Aftur á móti dró heldur úr atvinnuþátttöku í fyrra eftir metár hvað hana varðar 2016. Atvinnuþátttaka hér á landi er þó enn með því hæsta sem gerist meðal landa heims. 

Íslenskur vinnumarkaður hefur reynst býsna sveigjanlegur í seinni tíð. Vinnuaflsfrekar vaxtargreinar eiga fremur auðvelt með að bæta við sig innfluttu vinnuafli, og atvinnuþátttaka hópa á borð við námsfólk og fólk á lokaspretti starfsævinnar hefur fylgt hagsveiflunni. Vinnuaflsskortur og launaskrið hefur því reynst minna en ætla mætti.

Með hægari vexti í mannaflsfrekum geirum á borð við ferðaþjónustu og byggingariðnað er líklegt að þrýstingur á vinnumarkaði hjaðni nokkuð á komandi fjórðungum. Atvinnuleysi mun því væntanlega aukast aðeins á sama tíma og hækkun launa verður hægari en verið hefur.

Við spáum 3,0% atvinnuleysi í ár og 3,2% atvinnuleysi að jafnaði árið 2019. Spá okkar fyrir launaþróun hljóðar upp á 5,7% hækkun að jafnaði í ár, og 4,8% hækkun launa á næsta ári.

Kaupmáttur launa hefur aukist hröðum skrefum síðustu ár. Frá árinu 2012 hefur kaupmáttur launa vaxið um 5,1% á ári að jafnaði. Kaupmáttaraukningin náði hámarki árið 2016, þegar hún nam 9,5%. Í fyrra dró nokkuð úr vexti kaupmáttar, og nam hann þá 5,1%.

Útlit er fyrir hægari hækkun launa á spátímanum en síðustu ár, og þar með talsvert minni kaupmáttaraukningu. Við gerum ráð fyrir 3,3% aukningu kaupmáttar launa í ár, og 1,9% kaupmáttaraukningu árið 2019.

Mikill vöxtur einkaneyslu síðustu ár hefur verið studdur af hraðri kaupmáttaraukningu, bættri fjárhagsstöðu heimila, vaxandi atvinnuþátttöku og fólksfjölgun, svo nokkuð sé nefnt. 

Við teljum að einkaneysluvöxturinn hafi náð hámarki árið 2017 með 7,5% vexti frá fyrra ári. Vöxtur einkaneyslu í fyrra var því talsvert meiri en vöxtur kaupmáttar, í fyrsta sinn í þessari uppsveiflu.

Við gerum ráð fyrir 4,7% vexti einkaneyslu í ár og 3,0% vexti árið 2019. Hægari vöxtur einkaneyslu er í samræmi við minni kaupmáttaraukningu, hægari fólksfjölgun, hóflegri hækkun eignaverðs og lítilsháttar aukningu atvinnuleysis.

Sterk króna, hófleg verðbólga og lækkandi raunstýrivextir

Þrátt fyrir afnám hafta á flestar fjármagnshreyfingar milli landa og fátíð inngrip Seðlabankans á gjaldeyris-markaði var gengi krónu tiltölulega stöðugt á seinni helmingi síðasta árs eftir talsverðar sveiflur á fyrri helmingi ársins. Er það bæði til marks um vel heppnað haftaafnám og einnig vísbending um allgott jafnvægi í gjaldeyrisflæði til og frá landinu.

Við gerum ráð fyrir að gengi krónu verði á svipuðum slóðum á spátímanum og það var að jafnaði í fyrra. Viðskiptaafgangur fer minnkandi, vaxtamunur hefur skroppið saman og áfram munu innlendir fagfjárfestar bæta við sig erlendum eignum. Á móti hefur Seðlabankinn hætt umfangsmiklum gjaldeyriskaupum og traust á Íslands aukist undanfarið á ýmsa mælikvarða.

Útlit er fyrir að raungengi krónunnar verði áfram hátt. Viðskiptakjör verða líklega áfram fremur hagstæð, bætt erlend staða þjóðarbúsins styður við hærra raungengi til frambúðar, og allmyndarlegur hagvöxtur leiðir einnig að öðru jöfnu til hærra raungengis.

Verðbólga hefur verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá febrúar 2014. Eru það vatnaskil í árangri bankans í stjórnun peningamála, því fyrir þennan tíma hafði verðbólga að jafnaði verið talsvert yfir markmiðinu frá því það var sett á vorið 2001.

Þessi góði árangur hefur leitt til þess að væntingar um hóflega verðbólgu hafa jafnt og þétt fest sig í sessi, og nú um stundir vænta innlendir aðilar að jafnaði þess að verðbólga verði áfram í grennd við verðbólgumarkmiðið. 

Verðbólga hefur verið að stærstum hluta drifin af hraðri hækkun íbúðaverðs. Innlendur kostnaðarþrýstingur hefur þó einnig verið til staðar, en á móti hefur vegið styrking krónu og innflutt verðhjöðnun.

Þegar draga tók úr áhrifum styrkingar krónu á seinni  huta síðasta árs tók að sama skapi að hægja á hækkun íbúðaverðs. Einnig hefur aukin samkeppni á smásölumarkaði haldið aftur af verðbólgu undanfarna fjórðunga.
Útlit er fyrir fremur hóflega verðbólgu hérlendis út spátímann svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Þá gerum við ráð fyrir að jafnt og þétt dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs og launa eftir því sem líður á spátímann.

Við teljum að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á 3. fjórðungi ársins, en aukist nokkuð í kjölfarið og verði 2,8% í árslok 2018. Árið 2019 spáum við 2,8% verðbólgu að jafnaði. Það má því segja að miðað við spá okkar verði verðbólga að jafnaði í næsta nágrenni við markmið Seðlabankans fram til ársloka 2019.

Stöðug verðbólga og hóflegar  verðbólguvæntingar hefur gefið Seðlabankanum svigrúm til að lækka stýrivexti þrátt fyrir spennu í hagkerfinu. Bankinn lækkaði vexti um 0,75 prósentur á árinu 2017. Vextirnir eru nú 4,25% og hafa ekki verið lægri síðan á 1F 2012.

Vaxandi verðbólga mun leiða til lækkandi raunstýrivaxta á komandi fjórðungum að öðru jöfnu. Þó gæti Seðlabankinn viljað herða á lækkun raunstýrivaxtanna með því að lækka nafnvexti hóflega á spátímanum. Nafnstýrivextir gætu því lækkað um hálfa prósentu fyrir lok spátímans samkvæmt spá okkar.

Langtímavextir hafa farið lækkandi á Íslandi undanfarna áratugi, sé horft til lengri tíma leitni. Er það keimlík þróun og hefur átt sér stað almennt meðal þróaðra ríkja, þótt vextir hafi að jafnaði verið talsvert hærri hérlendis en gengur og gerist almennt. 

Til dæmis voru raunvextir á mælikvarða langtíma verðtryggðra skuldabréfa að jafnaði 6,0% árin 1990-2000, 4,6% á árunum 2001-2010 en 2,8% frá árinu 2011.

Við gerum ráð fyrir að langtímavextir haldi áfram að lækka á spátímanum. Ef miðað er við kröfu ríkisbréfa gerum við ráð fyrir að langtíma nafnvextir verði í grennd við 4,5% og raunvextir nærri 1,7% á seinni helmingi ársins 2019. 

Á sama tíma er spáð nokkurri hækkun vaxta í helstu viðskiptamyntum, þótt útlit er fyrir að þeir verði enn lágir í sögulegu ljósi næstu misserin.

Vaxtamunur við útlönd mun því halda áfram að minnka jafnt og þétt þótt við teljum að nokkur vaxtamunur verði til staðar út spátímann.

Uppfærð þjóðhagsspá 2017 - 2019

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall