Fréttir Greiningar

Talsvert minni vöruskiptahalli það sem af er ári

10.04.2018 09:52

Þriðjungi minni halli er af vöruskiptum það sem af er ári en var á sama tíma fyrir ári síðan. Muninn skýrist af stærstum hluta af mun meiri útflutningi sjávarafurða á fyrsta fjórðungi þessa árs en var á sama tíma í fyrra, enda var sjómannaverkfall á fyrstu vikum þess árs. Útlit er fyrir svipaðan vöruskiptahalla í ár og á síðasta ári, en líkt og þá mun myndarlegur afgangur af þjónustuviðskiptum þó skila sér í afgangi af utanríkisviðskiptum í heild.

Sjómannaverkfall setur mark sitt á tölurnar

Samkvæmt nýlegum bráðabirgðatölum Hagstofunnar var halli á vöruskiptum í marsmánuði  8,2 ma.kr. Er það aðeins um helmingur af hallanum í sama mánuði fyrir ári, en hann var 15,9 ma.kr. Vöruútflutningur í mars nam 48,9 mö.kr. og jókst um tæplega 9,2 ma.kr. á milli ára en innflutningur vara nam 57,1 ma.kr. og jókst um tæplega 1,5 ma.kr. frá sama tíma í fyrra. Stærsta skýring aukins útflutnings í mars liggur í 6,5 ma.kr. útflutningi á öðrum vörum og má gera því skóna að þarna sé um að ræða sölu á stórum atvinnutækjum á borð við skip eða flugvélar. Þá jókst útflutningur sjávarafurða um 2,3 ma.kr. á milli ára enda var sjómannaverkfalli tiltölulega nýlokið á þessum tíma í fyrra og setti það vafalítið mark sitt á útflutningstölur þá.

Á fyrsta ársfjórðungi 2018 nam vöruskiptahalli 24,9 mö.kr., sem er 12,4 ma.kr. minni halli en var á fyrsta fjórðungi síðasta árs. Fyrrnefnt sjómannaverkfall, sem stóð frá seinni hluta desembermánaðar 2016 fram í seinni hluta febrúar 2017, er ein helsta skýring minni vöruskiptahalla á milli ára. Útflutningur sjávarafurða jókst um tæpan helming á milli ára, en hann nam 54,6 mö.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2018. Einnig óx verðmæti útfluttra iðnaðarvara um nærri 10 ma.kr., mælt á gengi hvors árs. Að jafnaði var gengi krónu svipað á þessum tímabilum. Álverð var hins vegar u.þ.b. fimmtungi hærra að jafnaði á fyrsta fjórðungi 2018 en á sama tíma í fyrra. Gæti það skýrt aukið útflutningsverðmæti iðnaðarvara að verulegu leyti. Alls nam útflutningur ríflega 143 mö.kr. á tímabilinu og jókst um tæpan þriðjung í krónum talið á milli ára.

Vöruinnflutningur á fyrsta fjórðungi ársins nam 168 mö.kr. og jókst í krónum talið um rúm 15% á milli ára. Aukningin var nokkuð jöfn í öllum helstu undirflokkum innflutnings, nema hvað óvenju mikið var flutt inn af eldsneyti í janúarmánuði í ár.

Áfram útlit fyrir viðskiptaafgang

Þótt árið fari töluvert betur af stað hvað vöruskipti varðar en síðasta ár skýrist munurinn nær alfarið af óreglulegum þáttum á borð við sjómannaverkfall í fyrra og myndarlegan útflutning stórra atvinnutækja í ár. Útlit er fyrir að halli á vöruskiptum verði verulegur í ár líkt og í fyrra. Vöruinnflutningur mun væntanlega aukast samfara aukinni einkaneyslu og vaxandi fjárfestingu í innviðum og íbúðarhúsnæði. Þá eru ekki horfur á verulegum vexti vöruútflutnings. Helst má þar nefna vaxandi fiskútflutning samfara auknum botnfiskkvóta og útflutning á afurðum kísilvers PCC sem gangsett verður í þessum mánuði.

Í þjóðhagsspá okkar sem gefin var út í janúarmánuði áætluðum við að halli á vöruskiptum myndi nema u.þ.b. 180 mö.kr. í ár. Það er svipaður halli og var á vöruskiptum á síðasta ári. Hins vegar eru horfur á að þjónustuviðskipti muni skila myndarlegum afgangi í ár likt og síðustu ár. Teljum við að viðskiptaafgangur muni nema tæpum 100 mö.kr. í ár, sem samsvarar u.þ.b. 3,5% af vergri landsframleiðslu í spá okkar. 

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall