Fréttir Greiningar

Breyttir kraftar á gjaldeyrismarkaði árið 2017

16.04.2018 14:36

Minni viðskiptaafgangur, aukin erlend fjárfesting lífeyrissjóða og annarra fjárfesta, og breytt gjaldeyrisflæði tengt viðskiptabönkum er meðal helstu skýringa á því hvers vegna gengi krónu var nánast óbreytt á síðasta ári eftir mikla styrkingu árið áður þrátt fyrir að verulega drægi úr gjaldeyriskaupum Seðlabankans á milli ára. Gjaldeyrismarkaður hefur verið í allgóðu jafnvægi að undanförnu og hafa skammtímasveiflur verið hóflegar þrátt fyrir losun hafta og sáralítil afskipti Seðlabankans af gjaldeyrismarkaði.

Minna gjaldeyrisinnflæði í fyrra

Í nýútkomnu riti Seðlabankans, Fjármálstöðugleika, er að finna yfirlit yfir áætlað gjaldeyrisflæði á árinu 2017. Bankinn bendir raunar á að veruleg óvissa ríki um ýmsa liði áætlunarinnar í kjölfar losunar hafta, en hann hefur þó betri yfirsýn en aðrir innlendir aðilar yfir þetta flæði. 
 
Viðskiptaafgangur á síðasta ári nam 102 mö.kr. ef frá eru talin áhrif gömlu bankanna og viðskipta með skip og flugvélar. Var það nærri helmingi minni afgangur en árið áður á sama mælikvarða. Hreint innflæði vegna skráðrar nýfjárfestingar jókst hins vegar á milli ára úr 79 mö.kr. í 103 ma.kr., ekki síst vegna kaupa erlendra aðila á hlutafé í Arion banka á vordögum 2017. Þá bætti talsvert í erlendra lántöku innlendra aðila að bönkunum undanskildum. Slík lán námu 24 mö.kr. árið 2017 en höfðu verið 10 ma.kr. árið áður. Loks má nefna að hreint innflæði vegna breytinga á skammtíma viðskiptakröfum og – skuldum nam 5 mö.kr. en hafði verið 10 ma.kr. ári fyrr.

Seðlabankinn dró umtalsvert úr gjaldeyriskaupum í gjaldeyrisforða sinn á síðasta ári miðað við árið 2016, enda hætti bankinn nánast alfarið inngripum á gjaldeyrismarkað um mitt ár 2017. Alls nam hrein forðasöfnun bankans 99 mö.kr. árið 2017 samanborið við 386 ma.kr. árið 2016. Á hinn bóginn juku innlendir lífeyrissjóðir og vörsluaðilar séreignarsparnaðar talsvert við kaup sín á erlendum verðbréfum á milli ára. Nam hreint útflæði vegna þessa 119 mö.kr. á síðasta ári, en hafði verið 68 ma.kr. árið 2016. Erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna vógu því upp innflæði vegna viðskiptaafgangs og gott betur miðað við framangreindar tölur. Útflæði vegna erlendra lána minnkaði úr 60 mö.kr. árið 2016 í 46 ma.kr. á síðasta ári.

Jafnvægi á gjaldeyrisstöðu banka

Veruleg breyting varð á flæði tengdu viðskiptabönkunum á milli ára. Samkvæmt tölum Seðlabankans nam innflæði tengt þeim 181 mö.kr. á árinu 2016 og skýrðu breytingar á gjaldeyrisjöfnuði þeirra 81 ma.kr. af þeirri fjárhæð. Á síðasta ári voru áætluð hrein áhrif vegna breytinga á gjaldeyrisstöðu banka og skyldra aðila gjaldeyrisútflæði sem nam 8 mö.kr. Þessi breyting endurspeglar breyttan gjaldeyrisjöfnuð viðskiptabanka, sem höfðu sumir hverjir átt töluverðar gjaldeyriseignir umfram skuldir í upphafi ársins 2016 en voru almennt nærri jafnvægi í lok þess árs. Þá leiddu ýmsir einskiptisliðir til 29 ma.kr. útflæðis í fyrra, en að sögn Seðlabankans var þar að stærstum hluta um að ræða erlendar fjárfestingar annarra innlendra aðila en lífeyrissjóða. Innflæði vegna slíkra liða hafði hins vegar numið 59 mö.kr. árið 2016 og skýrðist það að mestu af sölu innlendra aðila á erlendum eignum.

Í áætlun Seðlabankans stendur út af 67 ma.kr. útflæði umfram innflæði árið 2017, en árið áður var áætlað innflæði 25 ma.kr. umfram útflæði. Rétt er að ítreka að hér er aðeins um grófa nálgun að ræða, en auk óvissu í ýmsum liðum getur munur innflæðis og útflæðis skýrst af tímamismun í gjaldeyrisflæði  og mótlægum færslum auk skekkju í gengisbreytingum. Framangreindar tölur gefa þó allgóða vísbendingu um helstu krafta sem verið hafa að verki á gjaldeyrismarkaði síðustu ár.

Ágætt jafnvægi eftir haftalosun

Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi nánast alfarið hætt inngripum á gjaldeyrismarkaði og fjármagnshöft hafi verið losuð á fyrri hluta síðasta árs hefur ágætt jafnvægi ríkt á gjaldeyrismarkaðnum síðan í fyrrahaust. Skammtímasveiflur í gengi krónu jukust umtalsvert í kjölfar losunar hafta, en hafa minnkað að nýju. Síðustu vikur hefur flökt krónu verið af svipaðri stærðargráðu og var að jafnaði árið 2016, þrátt fyrir að mun meira frelsi ríki á gjaldeyrismarkaði nú en þá var. Að sama skapi hefur gengi krónu sveiflast á tiltölulega þröngu bili frá ofanverðu síðasta sumri. Þessi þróun er afar jákvæð að mati okkar, þar sem hún eykur traust bæði innlendra á því að gjaldeyrismarkaður í núverandi mynd geti samrýmst gengisstöðugleika eftir tæpan áratug af ströngum gjaldeyrishöftum. 

Fróðlegt verður að fylgjast með gjaldeyrisflæði á markaði á komandi fjórðungum. Hugsanlega gæti dregið eitthvað úr innflæði vegna utanríkisviðskipta og líklegt virðist að lífeyrisssjóðir og aðrir innlendir aðilar munu áfram verða atkvæðamiklir í erlendum verðbréfafjárfestingum. Á móti gæti áfram orðið talsverð fjárfesting inn í landið auk þess sem líklegt er að meira jafnvægi verði milli erlendrar lántöku og afborgana lána. Það er því ekkert sem bendir sérstaklega til þess að veður muni gerast válynd á gjaldeyrismarkaði næsta kastið, þótt rétt sé að hafa í huga að gengi gjaldmiðla er líkt og íslensk veðrátta talsvert ólíkindatól.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall