Fréttir Greiningar

Ganga landsmenn hægar um gleðinnar dyr í ár?

18.04.2018 11:35

Útlit er fyrir að hægt hafi nokkuð á vexti einkaneyslu það sem af er þessu ári miðað við síðasta ár. Vöxtur utan landhelginnar er þó enn allhraður á meðan jafnt og þétt dregur úr neysluvexti innanlands. Einkaneysluvöxtur verður samt sem áður allmyndarlegur í ár að okkar mati þótt hægari kaupmáttaraukning og minni fólksfjölgun leiði til minni vaxtar einkaneyslu í ár en í fyrra.

Samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun nam heildarvelta innlendra greiðslukorta 79,6 mö.kr. í mars. Að teknu tilliti til þróunar verðlags og gengis jókst veltan að raungildi um 7,7% frá sama mánuði í fyrra. Mikill munur var á þróun kortaveltu innanlands og á erlendri grundu. Innlenda veltan jókst um 3,1% á milli ára og hefur ekki vaxið hægar síðan í apríl í fyrra. Mikill vöxtur er hins vegar í erlendri veltu, og bætir í hann fremur en hitt. Nam slíkur vöxtur 30,5% að raunvirði frá sama mánuði í fyrra. 

Einkaneysluvöxtur á útivelli

Hlutur erlendrar kortaveltu einstaklinga hefur aukist jafnt og þétt undanfarin misseri, þótt slík velta sé enn mun minni en innlend velta. Á fyrsta fjórðungi yfirstandandi árs nam erlend kortavelta 16,4% af kortaveltu í heild. Til samanburðar var hlutfall erlendrar veltu af heildarveltu 9,1% á sama tímabili fyrir fimm árum síðan. Að raungildi hefur þetta hlutfall hækkað enn meira á tímabilinu þar sem styrking krónu hefur gert einkaneyslu á erlendri grundu talsvert ódýrari undanfarið. 

Á þessari þróun eru tvær meginskýringar: Í fyrsta lagi hefur erlend netverslun sótt mjög í sig veðrið á síðustu árum hvað neysluútgjöld Íslendinga varðar. Kom t.d. fram í nýlegu viðtali við Elvar Bjarka Helgason hjá Póstinum að erlend netverslun hefði aukist um 60% það sem af er ári frá sama tíma í fyrra. Í öðru lagi hefur ferðagleði Íslendinga aukist umtalsvert upp á síðkastið. Fram kemur í nýlegri frétt frá Ferðamálastofu að brottförum Íslendinga fjölgaði um 20% á fyrsta fjórðungi ársins frá sama tíma í fyrra.

Einkaneysla ein meginstoð hagvaxtar í ár

Þróun kortaveltu rímar við aðra nýlega hagvísa sem benda til þess að nú sé tekið að hægja á vexti einkaneyslu. Má þar nefna Væntingavísitölu Gallup, en gildi hennar á 1. ársfjórðungi var það næstlægsta frá miðju ári 2015. Einnig hefur hægt á vexti kaupmáttar launa frá því hann var hvað hraðastur fyrir rúmu ári síðan. Við teljum að einkaneysluvöxtur verði hægari í ár en í fyrra, þegar hann nam 7,8% að raungildi. Kemur þar bæði til hægari kaupmáttarvöxtur og minni fólksfjölgun, en landsmönnum fjölgaði um tæplega 3% í fyrra samkvæmt tölum Hagstofunnar. Spá okkar fyrir einkaneyslu í ár hljóðar upp á 4,7% raunvöxt. Er það eftir sem áður allmyndarlegur vöxtur, og raunar mun einkaneysla verða einn af megin drifkröftum hagvaxtar á yfirstandandi ári að mati okkar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall