Fréttir Greiningar

Lítið lát á neyslugleði landsmanna

15.05.2018 11:30

Þróun kortaveltu bendir til þess að einkaneysla landsmanna aukist enn allhratt. Þó er heldur að draga úr vexti kortaveltunnar og það, ásamt breyttri neyslusamsetningu, bendir til þess að einkaneysla muni vaxa hægar í ár en í fyrra.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun nam heildarvelta innlendra greiðslukorta tæplega 81 ma.kr. í apríl síðastliðnum. Það jafngildir nærri 15% aukningu í krónum talið frá sama mánuði í fyrra. Raunvöxtur kortaveltunnar milli ára nam tæplega 14% í apríl, sé leiðrétt fyrir verðbólgu- og gengisþróun. Ólíkt því sem jafnan hefur verið undanfarin misseri var lítill munur á vexti innlendrar og erlendrar veltu milli ára, en það skýrist af óvenjulegum grunnáhrifum í apríl í fyrra eins og sjá má af myndinni. Tímasetning páska, sem voru mun fyrr í ár en í fyrra, gæti skýrt þennan mun að töluverðum hluta.
 
Á fyrsta þriðjungi yfirstandandi árs óx kortavelta að raunvirði um ríflega 10% frá sama tímabili í fyrra. Það er heldur hægari vöxtur en var að jafnaði í fyrra, en þá óx veltan að raunvirði um ríflega 11%. Engu að síður er hér um verulegan vöxt að ræða, og gefur hann tóninn um að einkaneysluvöxtur sé enn umtalsverður. 

Fleiri utanlandsferðir, færri bílar?

Vísbendingar eru þó um að vöxturinn kunni að reynast nokkru hægari í ár en í fyrra þegar hann nam 7,8%. Heldur hefur dregið úr vexti kaupmáttar launa og útlit er fyrir að fólksfjölgun verði hægari þetta árið en á því síðasta. Þá má nefna að væntingavísitala Gallup hefur að jafnaði verið öllu lægri það sem af er ári en hún var að meðaltali í fyrra. 

Einnig má benda á að í síðustu mælingu stórkaupavísitölu Gallup kom fram að íslenskir neytendur hugðu síður á bílakaup en í auknum mæli á utanlandsferðir en áður. Bifreiðakaup koma aðeins að takmörkuðum hluta fram í kortaveltutölum en geta vegið talsvert þungt í einkaneysluþróuninni í heild og því kann kortaveltuþróunin nú að gefa nokkuð ýkta mynd af heildarvextinum í einkaneyslu. Við spáðum í janúar tæplega 5% vexti einkaneyslu á yfirstandandi ári sem er ámóta mikill vöxtur og árið 2015.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall