Fréttir Greiningar

Óvænt lækkun í húsnæðislið hefur áhrif á verðbólgutölur

29.05.2018 12:26

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,09% í maí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Óvænt lækkun í húsnæðislið vísitölu neysluverðs (VNV) og töluverð lækkun flugfargjalda til útlanda eru helstu ástæður þess að verðbólga hjaðnar úr 2,3% í 2,0%. Einnig lækkaði VNV án húsnæðis um 0,03% í maí og hefur vísitalan því hækkað um 0,2% undanfarna 12 mánuði.

Mæling maímánaðar er undir öllum birtum spám.  Við spáðum 0,2% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,1% – 0,3% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að stærstum hluta í lækkun reiknaðrar húsaleigu um 0,05%, en hún endurspeglar íbúðaverð að mestu. Einnig lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 9,7% (0,13%), en við höfðum spáð hækkun í þeim lið.

 

 

 

Húsnæðisliður, flugfargjöld og fatnaður til lækkunar

Óhætt er að segja að lækkun húsnæðisliðar VNV í maí kom okkur nokkuð á óvart, en liðurinn lækkaði einnig í síðasta mánuði. Húsnæðisliðurinn í heild lækkaði um 0,16% (-0,05% í VNV) en þar vegur þyngst reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar íbúðaverð að mestu, sem lækkaði um 0,4% milli mánaða (-0,08% í VNV). Aftur á móti hækkaði greidd húsaleiga um 0,4% (0,02% í VNV) og viðhald og viðgerðir á húsnæði um 0,4% (0,01% í VNV).

Undirvísitölur Hagstofunnar fyrir markaðsverð íbúðarhúsnæðis sýnir þróunina eftir tegund og staðsetningu húsnæðis. Þar vekur athygli að allir liðir lækkuðu milli mánaða fyrir utan að fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu stóð í stað. Einbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,9% og verð húsnæðis á landsbyggðinni lækkaði um 0,8%. Samkvæmt tölum hagstofunnar hefur íbúðaverð hækkað um 7% undanfarna 12 mánuði og hefur því aðeins dregið úr hækkunartaktinum sem fór hæst síðasta sumar þegar hann var ríflega 24%.

 

 

Liðurinn ferðir og flutningar lækkaði einnig milli mánaða, í heild lækkaði liðurinn um 0,17% (-0,03% í VNV). Flutningar lækkaði um 7,3% (-0,14% í VNV) og flutningar í lofti lækkað um 9,15% (-0,14% í VNV) en við höfðum spáð hækkun í þessum lið.

Helstu liðir sem hækkuðu milli mánaða eru hótel og veitingastaðir um 0,85% (0,04% í VNV) og heimilisbúnaður um 0,94% (0,04% í VNV).

 

Horfur fyrir næstu mánuði

Útlit er fyrir að verðbólga verði enn undir markmiði Seðlabankans næstu mánuðina. Við spáum 0,2% hækkun VNV í júní, 0,2% lækkun í júlí en 0,5% hækkun VNV í ágúst. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,3% í ágústmánuði.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall