Fréttir Greiningar

Væntingar neytenda dempast

31.05.2018 13:35

Dregið hefur úr væntingum íslenskra neytenda í maí samkvæmt nýbirtri væntingavísitölu Gallup en vísitalan lækkar um 9 stig frá fyrri mánuði og mælist nú 107,1 stig. Þrátt fyrir þessa lækkun er vísitalan enn yfir 100 stiga jafnvægisgildinu sem markar jafnvægið á milli bjartsýni og svartsýni hjá íslenskum neytendum. Því má segja að neytendur séu almennt nokkuð bjartsýnir þrátt fyrir að þeir séu að draga saman seglin hvað væntingar varðar frá fyrri mánuðum þessa árs, en í janúar á þessu ári mældist vísitalan í 121,5 stigum og hefur farið niður á við síðan.

Flestar undirvísitölur lækka

Allar undirvísitölur lækka milli mánaða fyrir utan mat á atvinnuástandi, sem hækkar um 1 stig og stendur í 118,6 stigum. Þrátt fyrir að mat á núverandi ástandi lækki um 3,7 stig frá aprílmánuði stendur liðurinn í 154 stigum sem telst nokkuð hátt. Hins vegar lækka væntingar neytenda til næstu 6 mánaða um 13 stig og mælast í 75,8 stigum og mat á efnahagslífinu lækkar um 15,5 stig og hefur ekki mælst lægra síðan í fyrrasumar og stendur í 97,2 stigum. Það má því segja að ákveðin svartsýni sé á meðal neytenda gagnvart fyrrgreindum tveimur liðum.

Misjafnar væntingar milli kynja

Áhugavert er að skoða væntingavísitöluna eftir kyni og má glögglega sjá að kynin meta stöðuna á ólíkan hátt. Munurinn fer þó eftir stöðu hagsveiflunnar, þar sem hann er töluvert meiri í hagsveiflu en í niðursveiflu. Engin breyting var þar á í þessum mánuði, en væntingar kvenna lækkuðu um 13,7 stig milli mánaða og mælast nú í 95,2 stigum og eru því komnar undir 100 stiga jafnvægisgildið. Væntingar karla lækkuðu einnig en þó töluvert minna eða um 5 stig og stendur vísitalan í 117,1 stigi. Það má því segja að konur séu töluvert svartsýnni varðandi stöðuna en karlar.

Viðhorf eldri og yngri aldurshópanna ólíkt

Þegar væntingarvísitalan er skoðuð útfrá aldri má sjá að yngsti hópurinn, á aldrinum 18-24 ára, lækkar mest milli mánaða en er þó bjartsýnasti hópurinn með 125,5 stig. Elsti hópurinn, 55-80 ára, lækkar um 11,3 stig og stendur í 86,1 stigi og er jafnframt eini aldurshópurinn undir 100 stiga jafnvægisgildinu. Hinir aldurshóparnir mælast á bilinu 108-115 stig. Það lítur því út fyrir að þeir sem eldri eru séu svartsýnni en þeir sem yngri eru.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall