Fréttir Greiningar

Verðbólga hjaðnar í júlí

11.07.2018 10:17

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,2% í júlí frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá verður 12 mánaða verðbólga 2,4% og hjaðnar þar með að nýju niður fyrir 2,5% markmið Seðlabankans.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma eru svipaðar og í síðustu spá. Útlit er fyrir að verðbólga verði að jafnaði um 2,8% í lok árs 2018. Hagstofan birtir VNV fyrir júlí kl. 9.00 þann 23. þessa mánaðar.

Útsöluáhrif talsverð

Útsölur eru nú komnar á fullt skrið og eru áhrif þeirra talsverð á spá okkar fyrir júlí. Við teljum að verðlækkun á fötum og skóm hafi áhrif til 0,40% lækkunar VNV, og að húsgagna- og heimilisbúnaðar-liðurinn hafi áhrif til 0,07% lækkunar.

Hægir á húsnæðisverði

Samkvæmt könnun okkar virðist vera að hægja á hækkun íbúðaverðs og vegur reiknuð húsaleiga til 0,04% lækkunar VNV, en hún endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs. Þar munar mestu að útlit er fyrir nokkra lækkun á verði fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu. Nokkuð er farið að hægja á hækkunartakti íbúðaverðs frá því hann var hvað hraðastur á fyrri helmingi síðasta árs. Við spáum að húsnæðisliðurinn í heild standi í stað frá fyrri mánuði.

Flugfargjöld og eldsneyti til hækkunar

Við spáum því að bæði flugfargjöld og eldsneytisverð hækki frá fyrri mánuði. Flugfargjöld hafa áhrif til 0,2% hækkunar VNV og er þar um árstíðarsveiflu að ræða. Þá hefur eldsneytisverð hækkað nokkuð undanfarna mánuði og teljum við að engin undantekning verði þar á í júlí, en könnun okkar gerir ráð fyrir að eldsneytisverð vegi til 0,03% hækkunar VNV í júlí.

Verðbólga á komandi misserum

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aukast líttillega næstu mánuðina. Við spáum 0,4% hækkun VNV í ágúst, 0,3% hækkun í september og 0,3% hækkun í október. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,5% í októbermánuði. Áhrif útsöluloka munu setja svip sinn á mælingar VNV í ágúst og september en á hinn bóginn gerum við ráð fyrir nokkurri árstíðarbundinni lækkun flugfargjalda í fyrrnefndum mánuðum.

Við teljum að verðbólga verði um 2,8% í lok ársins og verði að meðaltali um 2,9% á árunum 2019 og 2020.

 Verðbólguspá í júlí

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall