Fréttir Greiningar

Enn siglir krónan lygnan sjó

09.08.2018 10:01

Gengi krónu hefur verið býsna stöðugt undanfarna ársfjórðunga þrátt fyrir að höftum hafi verið aflétt að mestu og Seðlabankinn sjáist ekki lengur á gjaldeyrismarkaði. Þótt flökt hafi aukist yfir hásumarið hefur krónan haldið áfram að sveiflast á tiltölulega þröngu bili og ekki er hægt að sjá skýr merki um leitni hvorki til styrkingar né veikingar.

Samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans um gjaldeyrismarkað í júlímánuði nam heildarvelta á markaði 12,2 mö.kr. Það er innan við þriðjungur af veltunni í sama mánuði í fyrra. Líkleg skýring á þessu er að hver viðskiptabankanna þriggja sem standa að millibankamarkaði með gjaldeyri ásamt Seðlabankanum hafi getað parað saman að verulegu leyti sölu og kaup gjaldeyris hjá viðskiptavinum sínum.

Krónan tekur nýfengnu frelsi með ró

Þótt skammtímasveiflur í gengi krónu hafi aukist í júlí og flökt mælst það mesta frá september 2017 var gengi krónu á mjög svipuðum slóðum í lok mánaðarins og það var í júlíbyrjun. Ekki er að sjá að leitni hafi einkennt gengisþróun síðustu fjórðunga, heldur hefur krónan sveiflast innan u.þ.b. 7% bils hvað varðar meðalgengi gagnvart erlendum gjaldmiðlum frá ágúst síðastliðnum. Hér verður einnig að hafa í huga að Seðlabankinn hefur alfarið haldið sig frá gjaldeyrismarkaði það sem af er ári. Fram á mitt síðasta ár voru inngrip bankans hins vegar verulegur hluti af veltu á markaði, og drógu þau inngrip úr gengisbreytingum sem ella hefðu líklega orðið umtalsvert meiri á því tímabili.

Þessi fremur óvænti stöðugleiki krónu undanfarið er að mati okkar til kominn að miklu leyti vegna samspils þriggja þátta:

  1. Ágætt jafnvægi virðist hafa verið milli inn- og útflæðis gjaldeyris upp á síðkastið. Enn er nokkur afgangur af utanríkisviðskiptum og framan af ári var hreint innflæði vegna fjárfestinga erlendra aðila einnig talsvert. Á móti vegur að innlendir fjárfestar hafa fjárfest í verulegum mæli utan landsteinanna. Fjárfestingarflæðið virðist þar að auki nokkuð næmt fyrir gengishreyfingum krónu. Tímabundin styrking dregur úr áhuga erlendra aðila á innlendum verðbréfakaupum og eykur áhuga innlendra aðila á erlendum fjárfestingum. Veikingarhrina hafur svo gagnstæð áhrif.
  2. Enn eru við lýði töluverð höft á fjármagnshreyfingar milli gjaldmiðla og óbein gjaldeyrisviðskipti hér á landi. Hið svokallaða fjárstreymistæki Seðlabankans leggur til að mynda þungar kvaðir á erlenda aðila sem kynnu að vilja fjárfesta í skuldabréfum í krónum eða leggja fé í krónuinnstæður í innlendum bönkum. Þá eru hvers kyns afleiðuviðskipti eingöngu bundin við áhættuvarnir og takmarkaðir möguleikar því fyrir hendi til spákaupmennsku.
  3. Aukið traust á íslensku þjóðarbúi  vegna stórbættrar erlendrar stöðu, minni skuldsetningar heimila, fyrirtækja og hins opinbera, hækkun lánshæfiseinkunna o.s.frv. eykur á þolinmæði gagnvart skammtímasveiflum og dregur úr líkum á fjármagnsflótta.

Nokkrar spennu gætti meðal ýmissa þátttakenda á gjaldeyrismarkaði um hvort gengi krónu myndi breytast verulega á sumarmánuðum, og þá hvernig. Undanfarin ár hefur tímabilið frá júní fram undir vetrarbyrjun verið líflegt hvað gengishreyfingar varðar, eins og sjá má af myndinni hér að ofan. Nærtækt er að skýra sumarstyrkinguna 2015-2016 með miklu gjaldeyrisinnflæði vegna ört vaxandi ferðaþjónustu, auk þess sem fjármálastofnanir voru á þessum tíma að draga úr gjaldeyrisójöfnuði. Enn sem komið er bendir aftur á móti ekkert sérstaklega til þess að umtalsverðar breytingar verði á gengi krónu fram í vetrarbyrjun í ár, þótt rétt sé að slá þann varnagla að gengishreyfingar gjaldmiðla geta verið hin mestu ólíkindatól og aðstæður á þeim mörkuðum breyst býsna fljótt.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall