Fréttir Greiningar

Er að draga úr spennu á vinnumarkaði?

10.08.2018 10:40

Allskýr merki eru um að spenna fari minnkandi á vinnumarkaði. Hægari fjölgun heildarvinnustunda bendir til þess að hægt hafi á hagvexti á öðrum ársfjórðungi og að hagvöxtur mælist almennt nokkru minni þetta ár en í fyrra.

Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar um vinnumarkað á 2F 2018 voru ríflega 198 þúsund manns á aldrinum 16-74 ára starfandi á íslenskum vinnumarkaði á tímabilinu. Jafngildir það 80% af mannfjölda á þessu aldursbili. Þetta hlutfall fór hæst á 2F í tæplega 82% fyrir tveimur árum, en hefur lækkað ár frá ári síðan.


 
Atvinnuleysi mældist 3,6% af mannfjölda samkvæmt könnun Hagstofunnar á 2F. Eins og sjá má af myndinni virðist atvinnuleysishlutfallið hafa náð tímabundnu jafnvægi undanfarin ár eftir hraða lækkun árin 2012-2016.

Vísbending um hægari hagvöxt

Þróun heildarvinnustunda á vinnumarkaði er góð vísbending um hvert stefnir á framboðshlið hagkerfisins. Alls fjölgaði vinnustundum um 0,8% á 2F 2018 frá sama tíma árið áður. Starfandi fjölgaði um 1,3% á milli ára en aftur á móti fækkaði vikulegum vinnustundum að jafnaði um 0,5%.

Þróun heildarvinnustunda að viðbættum framleiðnivexti vinnuafls endurspeglar hagvaxtarþróun. Hafi framleiðni á íslenskum vinnumarkaði ekki vaxið þeim mun meira á 2F hefur hagvöxtur á tímabilinu verið fremur hóflegur.

Samandregið má lesa út úr vinnumarkaðsgögnum Hagstofunnar að vinnumarkaður sé að færast nær einhvers konar jafnvægi eftir hraða fjölgun starfa og vaxandi spennu á markaðinum á fyrri helmingi áratugarins. Enn er atvinnuþátttaka á Íslandi þó með því hæsta sem gerist í þróuðum ríkum og atvinnuástand í raun með besta móti.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall