Fréttir Greiningar

Þróun væntinga þrengir að valkostum Seðlabankans

24.08.2018 10:54

Verðbólguvæntingar hafa hækkað talsvert á allflesta mælikvarða undanfarna mánuði. Á sama tíma fara væntingar um komandi tíð í hagkerfinu lækkandi. Þetta setur peningastefnunefnd Seðlabankans í nokkuð snúna stöðu og dregur úr líkum á að vextir verði lækkaðir á komandi misserum þótt um hægist í íslensku efnahagslífi.

Verðbólguvæntingar á fjármálamarkaði eru komnar nokkuð yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma. Þetta kemur fram í nýbirtum niðurstöðum úr könnun Seðlabankans á væntingum markaðsaðila sem framkvæmd var um miðjan mánuðinn. Eru væntingarnar að jafnaði hærri en þær hafa verið síðan á seinni hluta ársins 2016.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar 3,0% verðbólgu eftir 12 mánuði, en í síðustu könnun stóðu 12 mánaða verðbólguvæntingarnar í 2,6%. Þá telja markaðsaðilar að verðbólga verði að jafnaði 2,95% næstu 5 ár (2,65% í maí) og 2,8% næstu 10 ár (2,65% í maí). 

Hvað með trúverðugleikann?

Þótt ekki sé verulegur munur á væntingum og markmiði enn sem komið er hlýtur hækkunarleitnin í væntingum að vera Seðlabankafólki áhyggjuefni. Undanfarið hefur peningastefnunefnd bankans kosið að lesa fremur varlega í umtalsverða hækkun verðbólguálags á skuldabréfamarkaði þar sem væntingakannanir hafa sýnt væntingar nærri 2,5% markmiði Seðlabankans. Í ljósi hinnar nýju könnunar er hins vegar full ástæða fyrir nefndina að hafa vaxandi áhyggjur af því hvort trúverðugleiki peningastefnunnar fari nú minnkandi.

Seðlabankinn hefur haft mikið fyrir því að vinna verðbólgumarkmiðinu aukinn trúverðugleika undanfarin ár og uppskorið árangur þess erfiðis síðustu árin. Slíkur trúverðugleiki er lykilatriði í því að halda aftur af langtíma verðbólguvæntingum þegar skammtímasveiflur verða á verðbólgutaktinum og verðbólguhorfum.

Að sama skapi hefur þeim farið fækkandi á markaði sem telja vexti Seðlabankans of háa. Í nýju könnuninni töldu 4 af hverjum 5 svarendum að taumhald peningastefnunnar væri hæfilegt en í árslok 2017 voru 3 af hverjum 5 á þessari skoðun. Almennt hafa því markaðsaðilar skilning á því aðhaldsstigi sem bankinn hefur viljað viðhalda í peningastefnunni undanfarið.

Væntingar upp og væntingar niður

Það flækir svo málið fyrir Seðlabankafólki að væntingar um horfur í efnahags- og atvinnulífinu hafa lækkað á sama tíma og verðbólguvæntingar hafa hækkað. Væntingavísitala Gallup var að jafnaði  22 stigum lægri á 2. ársfjórðungi 2018 en hún var á síðasta fjórðungi ársins 2017 og skrifast sú lækkun að verulegu leyti á lækkandi væntinga um nánustu framtíð á meðan mat á núverandi stöðu hefur haldist hátt. Sömu þróun má sjá í könnun Seðlabankans og SA á væntingum stjórnenda stærstu fyrirtækja.

Snúnari valkostir Seðlabankans

Valkvöl Seðlabankans í peningastefnunni hefur því í sinni einföldustu mynd farið undanfarið ár frá því að vera á milli þess að halda taumhaldi peningastefnunnar talsverðu til að minnka líkur á ofhitnun í hagkerfinu þrátt fyrir litla verðbólgu, til þess að þurfa að velja á milli þess að hætta á að tapa trúverðugleika á verðbólgumarkmiðinu eða auka um of á kælingu hagkerfisins. Bankinn er því í talsvert snúnari stöðu en hann hefur verið undanfarin misseri. 

Í stýrivaxtaspá okkar sem birtist í síðustu viku töldum við nokkrar líkur á því að vextir kynnu að lækka á komandi ári ef verðbólga héldist hófleg á sama tíma og drægi úr spennu í hagkerfinu. Ofangreind þróun dregur úr líkunum á að þetta verði raunin. Teljum við nú líklegast að stýrivextir verði óbreyttir a.m.k. fram yfir mitt næsta ár og óvissan um þróun þeirra í kjölfarið sé jöfnum höndum til hækkunar eða lækkunar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall