Fréttir Greiningar

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í september

12.09.2018 09:06

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% í september fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst verðbólga úr 2,6% í 2,8% í september. Verðbólguhorfur til næstu ársfjórðunga hafa að mati okkar versnað nokkuð og óvissa aukist vegna nýlegrar gengisveikingar krónunnar. Útlit er fyrir að verðbólga verði 3,2% í lok þessa árs og verði að jafnaði um 3,5% á árinu 2019.

Útsölulok vega til hækkunar ásamt fleiru

Útsölulok hafa talsverð áhrif til hækkunar á VNV í september líkt og ávallt í þessum mánuði. Verðhækkun á fötum og skóm vegur til 0,17% hækkunar og hærra verð á húsgögnum og heimilisbúnaði til 0,09% hækkunar. Einnig spáum við að verðhækkun á mat- og drykkjarvörum hækki VNV um 0,08%.

 Þróun húsnæðisliðar VNV hefur verið býsna sveiflukennd síðustu mánuði og kom hófleg hækkun hans í ágúst okkur nokkuð á óvart. Við gerum ráð fyrir að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar íbúðaverð að mestu, hækki um 0,4% í september (0,09% í VNV). Í heild gerum við ráð fyrir 0,11% hækkun VNV vegna húsnæðisliðarins. Eldsneytisverð hefur auk þess hækkað nokkuð undanfarnar vikur og teljum við að sú hækkun vegi til 0,04% hækkunar VNV nú. Þá má nefna að árviss hausthækkun á ýmiskonar tómstundum og afþreyingu vegur til 0,05% hækkunar í spá okkar nú.

Haustlækkun á flugfargjöldum

Útlit er fyrir árstíðarbundna lækkun á flugfargjöldum um 17% í september (-0,29% í VNV). Auk þess gerum við ráð fyrir að verðlækkun á síma- og netþjónustu og lægra verð hótelgistingar vegi hvort um sig til 0,01% lækkunar VNV að þessu sinni.

Verðbólga færist í aukana og óvissan magnast

Gengislækkun krónu það sem af er septembermánuði hefur aukið verulega á óvissu um komandi verðbólguþróun eftir fremur stöðugt gengi krónu undanfarið ár. Þegar þessari spá var lokað hafði gengi krónu lækkað í september um ríflega 5% gagnvart helstu viðskiptamyntum að meðaltali. Gangi sú þróun ekki til baka er ljóst að hún mun endurspeglast í hærra vöru- og þjónustuverði á komandi fjórðungum en ella. Áhrifin verða svo vitaskuld sterkari ef framhald verður á gengisveikingunni.
 
Í þessari spá gerum við ráð fyrir að gengi krónu verði svipað næstu misserin og það var þegar spánni var lokað í dagslok 11. september. Áhrif undanfarinna gengisbreytinga fjara því smám saman út í spá okkar eftir því sem líður á næsta ár og verðbólga þokast niður á við að nýju eftir mitt ár 2019. Vart þarf þó að taka fram að eftir umrót síðustu vikna á gjaldeyrismarkaði er engan veginn á vísan að róa með þróun krónu næsta kastið. Forsenda okkar endurspeglar fyrst og fremst þá skoðun að óvissan um komandi gengisþróun er að mati okkar nokkuð jöfn á báða bóga.

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aukast nokkuð næstu mánuðina. Við spáum 0,4% hækkun VNV í október, 0,2% hækkun í nóvember og 0,5% hækkun VNV í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,3% í árslok. 

Í kjölfarið teljum við að verðbólga verði að meðaltali 3,5% árið 2019 og 3,2% árið 2020. Til grundvallar langtímaspánni liggja forsendur um tiltölulega hóflega hækkun launa og húsnæðisverðs, ásamt framangreindum forsendum um gengi krónu. Óvissa um launaþróun er þó fremur á þann veg að laun gætu hækkað meira á næsta ári en hér er spáð, en það mundi auka á verðbólguþrýsting þegar frá líður.

Verðbólguspá september 2018

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall