Fréttir Greiningar

Lesendur Kornsins vænta minni vaxtar

17.10.2018 14:36

Í aðdraganda útgáfu á þjóðhagsspá okkar í september sendum við út stutta viðhorfskönnun til lesenda Kornsins til þess að kanna mat þeirra á stöðu og horfum í íslensku efnahagslífi. Er þetta í annað skipti sem við gerum slíka könnun. Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 14. – 24. september. Tæplega 300 svör bárust, sem samsvara tæpum þriðjungi áskrifenda Kornsins. Rétt er að taka fram að um óformlega könnun er að ræða og svarendur endurspegla fyrst og fremst lesendahóp okkar fremur en landsmenn almennt. 

Svör lesenda Kornsins benda til þess að þeir telji nýlegar hagspár of bjartsýnar um vöxt á næsta ári. Taka ber fram að hagspá okkar var óbirt þegar könnunin var gerð, en í henni er spáð 1,5% hagvexti á árinu 2019.

Svarendur í könnun okkar telja flestir að aðstæður í hagkerfinu séu góðar, en að þær muni annað hvort standa í stað eða versna á komandi misserum. Virðist það ríma allvel við nýlegar mælingar á Væntingavísitölu Gallup og könnunar Gallup meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins, en þar hefur komið fram vaxandi svartsýni á skammtímahorfur í hagkerfinu.

Borið saman við könnun okkar í fyrra hefur þeim fjölgað um 8 prósentur sem telja að staðan muni versna á komandi ári en þeim sem telja hana munu batna hefur fækkað um 3 prósentur.

Aðspurðir um horfur í sínu fyrirtæki virtust flestir lesendur Kornsins á því að staðan myndi ekki breytast verulega á komandi misserum. Þó eru heldur fleiri á því að staða síns fyrirtækis muni vænkast en að hún muni versna á næstu 12 mánuðum.

Vænta veikari krónu, meiri verðbólgu og hærri vaxta

En hvað með krónuna? Lesendur Kornsins virðast almennt vera á því að gengi hennar eigi frekar eftir að lækka en hitt fram á næsta haust, þótt fremur fáir búist við mikilli gengisveikingu. Rétt er að taka fram að þegar könnunin var gerð var talsverð sveifla á gengi krónu, þar sem hún veiktist framan af septembermánuði en styrktist á ný um það leyti sem könnuninni var hleypt af stokkunum. Síðan könnunin var gerð hefur gengi krónu lækkað á nýjan leik þótt mikið vatn eigi vissulega eftir að renna til sjávar fram að september á komandi ári.

Flestir svarendur í könnun okkar eru á því að stýrivextir muni hækka á komandi 12 mánaða tímabili. Til samanburðar væntu flestir svarendur þess fyrir ári síðan að stýrivextir yrðu svipaðir fram á haustið 2018.

Versnandi skammtíma verðbólguhorfur eru líkleg skýring á hærri vaxtavæntingum. Flestir svarendur gera nú ráð fyrir að verðbólga verði yfir 3% að ári liðnu.  Aðeins 1% svarenda telja að verðbólga verði undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans á þeim tímapunkti.

Minnkandi bjartsýni bremsar vöxt

Aðspurðir um helstu áhættuþætti í íslenska hagkerfinu  nefndu ríflega 8 af hverjum 10 svarendum yfirvofandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Ferðaþjónustan og gengi krónu er einnig mörgum áhyggjuefni, svo og þróun alþjóðamála. Óhætt er að taka undir að þetta séu ein helstu áhyggjuefnin hvað varðar hagkerfið um þessar mundir. Hafa nýjustu fréttir af kröfum SGS og VR síst orðið til þess að draga úr þeim áhyggjum.

Helstu áskoranir að mati lesenda eru í svipuðum dúr: Kjaramálin, krónan og verðbólgan. Segja má að þetta þrennt endurspegli svo fjórða liðinn sem nefndur er, þ.e. að viðhalda þeim stöðugleika sem einkennt hefur efnahagslífið í stórum dráttum síðustu misserin. Taka ber fram að þessi spurning var opin, og engir sérstakir svarmöguleikar nefndir til sögunnar.

Á heildina litið virðast skoðanir lesenda Kornsins áþekkar þeirri mynd sem dregin er upp í nýlegri þjóðhagsspá okkar. Lækkandi væntingar eru sterkur áhrifaþáttur á þann hóflega vöxt innlendrar eftirspurnar sem við gerum ráð fyrir á næsta ári, sér í lagi hvað varðar þróun einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingar. Við gerum svo ráð fyrir að meira líf færist í tuskurnar árið 2020, en fróðlegt verður að heyra hljóðið í lesendum hvað það varðar á komandi hausti.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall