Fréttir Greiningar

Seðlabankinn slær allharðan tón í nóvember

22.11.2018 11:35

Skilaboð peningastefnunefndar Seðlabankans í nýbirtri fundargerð síðasta fundar nefndarinnar virðast nokkuð harðari en tónninn sem var sleginn af stjórnendum bankans eftir vaxtahækkunina í nóvember. Einn nefndarmaður vildi ganga lengra í hækkun vaxta í nóvember en raunin varð. Talsverðar líkur eru á frekari hækkun stýrivaxta á allra næstu mánuðum.

Allir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabankans voru sammála um að hækka vexti við síðustu vaxtaákvörðun þann 7. nóvember síðastliðinn. Einn nefndarmaður vildi hins vegar ganga lengra en hinir í þeim efnum. Greiddi hann atkvæði gegn tillögu Seðlabankastjóra um 0,25 prósentu vaxtahækkun og vildi hækka vextina um 0,50 prósentur. Kemur þetta nokkuð á óvart þar sem tónninn í kynningu Seðlabankastjóra eftir vaxtaákvörðunina var heldur mildari en mátt hefði ætla eftir vaxtahækkun. Þetta er fyrsta vaxtaákvörðun frá desember 2016 þar sem öll atkvæði nefndarmanna falla ekki með tillögu Seðlabankastjóra.

Óbreyttir stýrivextir komu ekki til álita

Ekki kom til umræðu að halda stýrivöxtum óbreyttum í nóvember, heldur snerist umræðan á vaxtaákvörðunarfundinum eingöngu um hversu stór vaxtahækkunarskref ætti að stíga samkvæmt fundargerð fundarins sem birt var nýlega. Í ljósi þess að aukin verðbólga og hækkandi verðbólguvæntingar hefðu lækkað raunstýrivexti umfram það sem æskilegt teldist væri ekki unnt að bíða lengur með að herða taumhald peningastefnunnar.

Rök fyrir 0,5 prósentu vaxtahækkun voru að mati nefndarmanna meðal annars þau „ ...að verðbólguhorfur hefðu versnað töluvert og verðbólguvæntingar hækkað það mikið að 0,25 prósentna hækkun vaxta dygði ekki til, enda yrði taumhald peningastefnunnar áfram minna en það var á októberfundi nefndarinnar þrátt fyrir þessa vaxtahækkun. Þá væru raunvextir bankans afar lágir þegar haft er í huga að spenna er enn í þjóðarbúskapnum.“

Rök fyrir 0,25 prósentu vaxtahækkun voru að mati nefndarmanna einna helst óvissa um hversu hratt myndi draga úr hagvexti og hvernig gengisþróun krónu yrði eftir vaxtahækkun og lækkun á hlutfalli sérstakrar bindiskyldu, sem tilkynnt var um nokkrum dögum fyrir vaxtaákvörðunina í nóvember. Það væri því varlegra að stíga smærra skref nú og sjá svo til hvernig framhaldið yrði.

Önnur vaxtahækkun á aðventunni?

Síðasta vaxtaákvörðun ársins er þann 12. desember næstkomandi. Miðað við þann tón sem sleginn er í fundargerðinni og þróun síðustu vikna teljum við talsverðar líkur á því að vextir verði hækkaðir á ný fyrir áramót, þótt of snemmt sé að kveða upp úr um hvort það verður raunin eða ekki. Ræðst það ekki síst af því hvort gengi krónu lækkar frekar á komandi vikum, hvernig þjóðhagsreikningar fyrir þriðja ársfjórðung munu lita út og niðurstöðu mælingar á VNV í nóvember, sem birt verður í næstu viku. Þróun verðbólguvæntinga og -álags mun einnig hafa áhrif, enda horfir peningastefnunefndin mjög í þróun slíkra mælikvarða og hefur ítrekað minnt á að ef verðbólguvæntingar festast í sessi umfram markmið muni það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall