Fréttir Greiningar

Íslensk heimili stíga á kúplinguna í kortanotkun

18.12.2018 10:40

Kortavelta íslenskra heimila innanlands hefur skroppið saman að raungildi undanfarna mánuði frá sama tímabili í fyrra. Þróun kortaveltu í heild bendir til þess að íslensk heimili auki lítið við neyslu sína nú um stundir eftir myndarlegan vöxt síðustu misserin. Þótt heimilin stígi þannig ekki beinlínis á bremsuna í útgjöldum þessa dagana hefur neyslufóturinn færst af bensíngjöfinni á kúplinguna.

Samkvæmt nýlegum tölum Seðlabanka Íslands um greiðslumiðlun nam heildarvelta innlendra greiðslukorta 79,6 mö.kr. í nóvember síðastliðnum. Er það 0,7% aukning í krónum talið frá sama mánuði í fyrra. Athygli vekur að velta debetkorta minnkaði um ríflega 8% á milli ára á meðan velta kreditkorta jókst um 9% á sama tíma.

Einkaneysluvöxtur á útivelli

Undanfarin ár hefur verið mikill munur á þróun innlendrar og erlendrar kortaveltu íslenskra heimila. Sé innlenda kortaveltan raunvirt með vísitölu neysluverðs án húsnæðis en sú erlenda með gengisvísitölu kemur á daginn að allt fram á haustið 2018 var myndarlegur vöxtur í erlendri kortaveltu á meðan vöxtur í veltu innan landhelginnar hefur verið hægur síðustu misserin. Raunar hefur innlend kortavelta dregist lítillega saman síðustu mánuði á framangreindan kvarða. Þessi ólíka þróun endurspeglar að mati okkar bæði aukinn hlut alþjóðlegrar netverslunar í neyslu landsmanna og einnig vaxandi ferðagleði landans. Hins vegar brá svo við í nóvember að erlend kortavelta minnkaði örlítið að raungildi frá sama tíma 2017. Hefur erlenda veltan ekki minnkað á þann mælikvarða frá árinu 2012.

Samanlagt skrapp kortavelta íslenskra heimila saman um ríflega 3% að raungildi í nóvember síðastliðnum. Hefur ekki mælst meiri samdráttur á þennan mælikvarða í 8 ár, en vert er að hafa í huga að talsverðar sveiflur eru milli einstakra mánaða í kortaveltunni. Þróun síðustu mánaða ber þess þó skýr merki að verulega hefur dregið úr raunvexti kortaveltu íslenskra heimila.

Stendur einkaneysla í stað á lokafjórðungi ársins?

Líkt og við fjölluðum um nýverið kom mæling Hagstofu á einkaneyslu á 3. ársfjórðungi okkur talsvert á óvart. Neysla íslenskra heimila jókst um 5,3% á 3F frá sama fjórðungi í fyrra samkvæmt Hagstofunni á sama tíma og þeir hagvísar sem gleggsta mynd gefa af þróun einkaneyslu bentu til talsvert minni vaxtar. Umfjöllun Hagstofunnar um einkaneysluna í tengslum við framangreindar tölur var stutt og laggóð, og engar sérstakar skýringar er þar að finna á því hver rótin er að þessari ólíku þróun einkaneyslu og hagvísa á borð við kortaveltu á fjórðungnum.

Það sem af er lokafjórðungi ársins benda helstu einkaneyslutengdu hagvísar á borð við raunþróun kortaveltu, Væntingavísitölu Gallup og nýskráningar bifreiða til þess að einkaneysluvöxtur sé lítill sem enginn á tímabilinu. Er þróunin það afgerandi að við teljum að hún hljóti að endurspeglast í tölum Hagstofunnar fyrir 4F 2018, en þær verða birtar þær 1. mars næstkomandi. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall