Fréttir Greiningar

Verðbólga nálgast þolmörk Seðlabankans í árslok

20.12.2018 11:44

Verðbólga hefur aukist um eina prósentu undanfarna þrjá mánuði, og hefur hún ekki mælst meiri en nú í fimm ár. Hlutur innfluttra vara hefur farið vaxandi í verðbólguþrýstingi en dregið hefur úr áhrifum húsnæðisverðs á verðbólgu. Horfur eru á að verðbólga verði áfram yfir 3% næsta kastið en haldist þó undir 4% þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,74% í desember skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 3,7% en var 3,3% í nóvember. Verðbólga nálgast því jafnt og þétt efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins en þess má geta að í ágúst síðastliðnum var verðbólga 2,6% og þar með rétt við 2,5% markmið Seðlabankans. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,94% í desember og m.v. þá vísitölu mælist 2,7% verðbólga undanfarna 12 mánuði.

Mæling desbermánaðar er í efri kantinum miðað við birtar spár  Við spáðum 0,5% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,5% – 0,8% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur m.a. í meiri hækkun bifreiðaverðs og verðs á matvælum en við væntum. Einnig var verðhækkun á ýmsum öðrum innfluttum vörum heldur meiri en við spáðum. Íbúðaverð og flugfargjöld þróuðust hins vegar í takti við væntingar okkar.

Hóflegri hækkunartaktur íbúðaverðs

Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu, hækkaði um 0,2% í desembermælingu VNV. Verulega hefur dregið úr hækkunartakti þessa liðar síðustu mánuði, en til samanburðar hækkaði hann um 0,6% hvern mánuð að jafnaði á fyrri helmingi ársins. Árstaktur í hækkun íbúðaverðs mælist nú 6,9% miðað við tölur Hagstofunnar. Eins og sjá má af myndinni er mikill munur á þróuninni á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu. Hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæði um ríflega 5% á árinu 2018 en íbúðaverð á landsbyggðinni um 14,5% á sama tíma. Það hefur því dregið töluvert saman með íbúðaverði  á þessum tveimur svæðum á árinu sem nú er að líða þótt verð á höfuðborgarsvæðinu sé enn nokkru hærra að jafnaði en gerist og gengur annars staðar.

 Verðbólguþrýstingur þokast frá húsnæði til innflutnings

Með hjaðnandi spennu á íbúðamarkaði og gengislækkun krónu frá septemberbyrjun hefur orðið breyting á samsetningu verðbólgunnar. Húsnæðisliður VNV skýrir nú 1,4% af 3,7% mældri verðbólgu en innfluttar vörur skýra 1,1% verðbólgunnar. Fyrir ári síðan var staðan hins vegar sú að innfluttar vörur höfðu 1,2% verðhjöðnunaráhrif á meðan húsnæðisliðurinn vó til ríflega 3% hækkunar. Í desember hélt húsnæðisliðurinn raunar aftur af hækkun VNV, enda mældist mánaðarhækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis ríflega 0,9% í mánuðinum.

Þeir liðir sem þyngst vógu til hækkunar VNV í desember tengjast ýmist árstíðarsveiflu eða krónunni. Mestu munaði um nærri fjórðungs hækkun á flugfargjöldum (0,29% hækkunaráhrif í VNV) og er þar um árvissa þróun að ræða í aðdraganda jóla. Þá hækkaði bifreiðaverð um 1,7% (0,15% í VNV) og hefur verð á nýjum bílum nú hækkað um tæp 8% frá miðju ári samkvæmt mælingum Hagstofunnar.

Matvælaverð hækkaði um tæplega 1% í desember (0,11% í VNV) og átti hækkunin að miklu leyti rót í hærra verði á brauði, grænmeti og ávöxtum. Hefur verð á mat og drykk hækkað um 3,7% frá miðju ári. Nokkur verðhækkun varð einnig á húsgögnum og heimilisbúnaði (0,06% í VNV), fatnaði (0,03% í VNV) og ýmsum öðrum innfluttum liðum í desember. Þess má þó geta að hækkun margra þessara liða hefur verið fremur hófleg undanfarna mánuði í ljósi ríflega 10% hækkunar á gengi erlendra gjaldmiðla frá miðju ári. Hefur verð á fatnaði til að mynda einungis hækkað um 1,5% og verð á raftækjum um 3,1% undanfarið hálft ár. Mega það teljast jákvæðar fréttir fyrir neytendur og verðbólguhorfur enn sem komið er.

Lægra verð á íslensku bensíndælunni

Umtalsverð lækkun hefur orðið á eldsneytisverði á heimsvísu frá októberbyrjun og nutu íslenskir neytendur góðs af henni í nokkrum mæli samkvæmt desembermælingu VNV. Þannig lækkaði eldsneytisverð um 3,2% í mánuðinum (-0,11% í VNV. Þá lækkaði verð á gistingu um „5 (-0,01% í VNV).

Helst verðbólga innan við þolmörk Seðlabankans?

Útlit er fyrir að verðbólga verði áfram milli 3% og 4% næsta kastið. Við spáum 0,2 lækkun VNV í janúar næstkomandi, 0,6% hækkun í febrúar og 0,4% hækkun VNV í mars. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,4% í mars 2019. 

Í janúar togast líkt og ávallt á verðlækkunaráhrif af útsölum og áhrif vegna hækkunar veitugjalda og opinberra krónutölugjalda á borð við eldsneytis- og áfengisgjald, sem og áramótahækkunar á ýmsum verðskrám. Í febrúar ganga svo útsöluáhrif til baka með tilheyrandi hækkunarþrýstingi á VNV. Flugfargjöld vega til 0,2% lækkunar VNV á 1F 2019, en íbúðaverð til samsvarandi hækkunar á tímabilinu. 
 
Áhrif veikingar krónu frá septemberbyrjun eiga væntanlega eftir að koma fram í nokkrum mæli í næstu verðbólgumælingum Hagstofunnar. Hins vegar hefur hægt á hækkunartakti íbúðaverðs og eldsneytisverð lækkað umtalsvert á erlendum mörkuðum upp á síðkastið. Ef krónan helst sæmilega stöðug á næstunni eru því góðar líkur á að efri þolmörkum verðbólgumarkmiðsins (4%) sé óhætt í bili. Það ræðst svo af þróun á vinnumarkaði þegar líður á veturinn ásamt gengisþróun krónu hvort verðbólga helst innan þolmarkanna þegar fram í sækir. Ef þessir þættir þróast með skaplegum hætti gæti jafnvel dregið úr verðbólguþrýstingi þegar líður á næsta ár.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall