Fréttir Greiningar

Hefur Seðlabankinn svigrúm til vaxtalækkunar í vor?

02.04.2019 13:07

Ekki er víst að verðbólguhorfur séu til muna verri nú en þær voru fyrir fall Wow air. Ef hækkun launa í kjölfar kjarasamninga verður ekki óhófleg á komandi mánuðum eru vaxandi líkur á því að stýrivextir Seðlabankans muni lækka eftir því sem hægir á hjólum efnahagslífsins þetta vorið.

Er frekari veiking krónu endilega í kortunum?

Undanfarna daga hefur sú skoðun verið nokkuð útbreidd að gjaldþrot Wow air undir lok marsmánaðar muni leiða til meiri verðbólgu en ella á komandi fjórðungum. Helsta röksemd fyrir þessari skoðun er sú að tapaðar gjaldeyristekjur muni rýra viðskiptajöfnuðinn í ár það mikið að gengi krónu muni þurfa að gefa verulega eftir til mótvægis.

Fyrstu áhrif á gjaldeyrismarkaði eru þó ekki til þess fallin að hleypa stoðum undir þessa skoðun. Vissulega veiktist gengi krónu allnokkuð strax í kjölfar frétta af rekstrarstöðvun Wow þar til Seðlabankinn greip í taumana með gjaldeyrisinngripi sama dag. Síðan hefur hins vegar færst ró að nýju yfir gjaldeyrismarkað og er gengi krónu nú áþekkt og það var um miðjan janúarmánuð.

Staðreyndin er sú að aðrir kraftar en vöru- og þjónustuviðskipti vega oft á tíðum þyngra í skammtíma þróun gengis krónu. Má þar til að mynda nefna flæði um fjármagnsjöfnuð vegna fjárfestinga til og frá Íslandi. Lauslega má áætla að tapaðar gjaldeyristekjur vegna falls Wow air beint og óbeint gætu hlaupið á bilinu 50-80 ma.kr. í ár. Á móti kemur hins vegar að minni aðföng til öflunar þessara tekna ásamt minni innflutningi vöru og þjónustu vegna minni afleiddra umsvifa í hagkerfinu gætu numið allt að helmingi þessarar upphæðar. Við teljum því að eftir sem áður verði ekki halli af utanríkisviðskiptum í ár, nema þá að samdráttur í ferðaþjónustu verði mjög verulegur og langvinnur.

Lesið Korn Íslandsbanka hér

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall