Morgunkorn Íslandsbanka

Er hækkunartaktur íbúðaverðs að ná jafnvægi?

19.07.2018

Allgott samræmi virðist komið að nýju á milli þróunar íbúðaverðs og kaupmáttar, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu. Verulega hefur hægt á verðhækkun fjölbýla undanfarið ár en meiri gangur virðist enn í sérbýlum hvað verðhækkun varðar.
 
Þjóðskrá Íslands birti nýverið vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir júní. Vísitalan hækkaði um 0,8% frá fyrri mánuði. Sérbýli hækkaði í verði um 1,7% milli mánaða en fjölbýli um 0,6%. Er júní annar mánuðurinn í röð þar sem sérbýli hækkar mun meira en fjölbýli á þennan mælikvarða.

12 mánaða taktur vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæði hefur tekið mikla sveiflu undanfarin misseri eftir tiltölulega stöðuga hækkun árin 2012-2015. Á framangreindu tímabili hækkaði vísitalan um tæplega 8% á ári að jafnaði. Á vordögum færðist svo meira líf í tuskurnar og árstakturinn náði hámarki í 23,5% fyrir rúmu ári síðan. Frá miðju ári 2017 hefur hins vegar dregið jafnt og þétt úr árstakti hækkunar íbúðaverðs. Í júní var árstakturinn 5,2% sem er næstminnsta árshækkun í fimm ár.

Talsverður munur er hins vegar á hækkunartakti fjölbýla og sérbýla á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana. Í júní hafði verð sérbýla hækkað um 9,3% undangengna 12 mánuði, en verð fjölbýla hækkað um 3,7% á sama tíma.

Kunnuglegt samhengi birtist á ný

Sögulega hefur verið allsterkt samband á milli þróunar raunverðs íbúða annars vegar og kaupmáttar launa hins vegar. Þetta samband rofnaði með nokkrum látum þegar hæst hóaði í hækkun íbúðaverðs. Nú virðist hins vegar fylgni þessara hagvísa hafa aukist á nýjan leik ef marka má nýjustu mælingar. Þannig nam 12 mánaða kaupmáttaraukning, m.v. vísitölu kaupmáttar launa sem Hagstofan birtir, 4,2% í maí síðastliðnum. Á sama tíma nam raunhækkun íbúðaverðs 2,6% sé miðað við vísitölu neysluverðs (VNV), en 4,1% sé miðað við VNV án húsnæðis. Gæti þetta verið vísbending um að íbúðamarkaður sé að færast nær einhvers konar jafnvægi eftir sveiflur síðustu fjórðunga.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall