Morgunkorn Íslandsbanka

Tvö þúsund milljarða króna verðmætaaukning húsnæðiseigenda

14.12.2018

Frá árinu 2010 hefur hækkandi húsnæðisverð aukið eigið fé landsmanna sem bundið er í húsnæðiseign um rúmlega 2.050 milljarða króna umfram verðbólgu á tímabilinu. Til þess að setja þessa fjárhæð í samhengi er hún sambærileg og heildarskuldir allra heimila landsins. Nettó vaxtagjöld að frádregnum vaxtabótum heimilanna vegna íbúðalána nema um 575 milljörðum króna á sama tímabili. Hrein verðmætaaukning heimilanna, að teknu tilliti til verðbóta og vaxtagjalda, nemur því tæplega 1.500 milljörðum króna. Það nemur um það bil 1,4 milljónum króna á hvert heimili, á hverju einasta ári frá árinu 2010. Húsnæðiseigendur hafa því fengið allan fjármagnskostnað margfalt til baka í núverandi uppsveiflu.  

 

Hvað með þá sem ekki eiga húsnæði?

Aðilar í foreldrahúsum eða á leigumarkaðnum hafa að öllu leyti setið eftir þegar kemur að áðurgreindri eiginfjármyndun og auðsöfnun sem fallið hefur í hlut húsnæðiseigenda undanfarin misseri. Þetta eru um 30% landsmanna. Aðilar á leigumarkaði, sem eru um 20% landsmanna, hafa ekki séð hag sinn vænkast líkt og húsnæðiseigendur. Því miður er útlit fyrir að hagur þessara aðila hafi frekar versnað. Bæði leigu- og íbúðaverð hefur hækkað umfram laun í núverandi uppsveiflu. Það er því bæði orðið dýrara að leigja og erfiðara að kaupa. 

 

Aukinn fjárhagslegur aðstöðumunur eigenda og leigjenda

Í ljósi þess að leigjendur eru að mestu leyti ungt fólk og aðilar í lágtekjuhópum hefur staðan í raun versnað meira en almennar vísitölur gefa til kynna. Það er vegna þess að bæði hefur ungt fólk notið minni launahækkana en aðrir hópar samfélagsins og þá hafa einnig smærri eignir, sem unga fólkið sækist iðulega eftir, aldrei verið dýrari. Áðurgreind þróun hefur leitt af sér aukinn fjárhagslegan aðstöðumun húsnæðiseigenda og aðila á leigumarkaði.

 

  

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall