Morgunkorn Íslandsbanka

Viðskiptaafgangur í góðæri er nýlunda

07.01.2019

Viðskiptajöfnuður hefur aldrei á lýðveldistímanum verið hagstæðari en undanfarin ár. Yfirstandandi áratugur sker sig algerlega úr hvað varðar viðvarandi viðskiptaafgang á sama tíma og hagvöxtur hefur verið myndarlegur og raungengi krónu farið hækkandi. Góðar líkur eru á að samspil þessara stærða verði áfram hagfelldara en raunin var undanfarna áratugi.

Seðlabankinn opnaði nýverið gagnavef fyrir hagtölur efnahagsmála á fullveldistímanum. Meðal þess sem þar má finna eru langar tímaraðir fyrir utanríkisviðskipti, hagvöxt og raungengi. Athyglisvert er að bera saman þróun þessara þriggja hagstærða, sem samanlagt gefa allskýra mynd af tengslum hagsveiflunnar og ytra jafnvægis hagkerfisins.

Eins og sjá má sker yfirstandandi áratugur sig algerlega úr hvað varðar utanríkisviðskipti. Frá stríðslokum hefur halli verið reglan og afgangur undantekningin í viðskiptajöfnuði Íslands við útlönd. Á þessu 72 ára tímabili hefur þannig verið viðskiptahalli á 55 árum. Af þeim 17 árum sem þó hefur mælst einhver afgangur af utanríkisviðskiptum eru 6 á yfirstandandi áratug. Afgangurinn hefur þar að auki verið mun myndarlegri að jafnaði undanfarin 5 ár (5,7% af VLF) en hann var nokkru sinni fyrr á tímabilinu.

Halli í hagvexti hefur verið reglan

Undanfarin ár hefur hagvöxtur einnig verið myndarlegur og er það sömuleiðis undantekning frá þeirri reglu íslenskrar hagsögu að vaxtarskeiðum hefur oftast fylgt talsverður viðskiptahalli. Hefur það bæði komið til af miklum innflutningsvexti vegna fjárfestingar, en ekki síður hefur innflutt neysla gjarnan vaxið hratt á uppgangstímum. Þetta tvennt hefur vissulega einnig gerst undanfarin ár en góðu heilli hefur útflutningsvöxtur náð að halda viðskiptajöfnuðinum í horfinu á tímabilinu.

Afgangur í hækkandi raungengi

Þriðji þátturinn þar sem yfirstandandi áratugur hefur algera sérstöðu í nútíma hagsögu Íslands er að viðskiptaafgangurinn hefur enn sem komið er staðið af sér hækkandi raungengi. Þótt Ísland hafi undanfarin 5-6 ár jafnt og þétt orðið dýrara í samanburði við umheiminn, bæði á kvarða verðlags og launakostnaðar,  hefur hækkandi raungengi ekki haldist í hendur við vaxandi viðskiptahalla.
 
Ef við einbeitum okkur að tímabilinu frá 1960, þegar urðu tiltekin þáttaskil í hagstjórn fyrir tilstilli Viðreisnarstjórnarinnar, virðist býsna skýrt að undanfarin ár eru eina tímabilið þar sem umtalsverð hækkun raungengis hefur farið saman við viðvarandi viðskiptaafgang. Reyndar má með góðum vilja greina langtímaleitni til hækkunar á raungenginu á myndinni hér fyrir ofan, sem ætti að samrýmast hefðbundnum áhrifum framleiðniaukningar í útflutningsgreinum á tímabilinu. Rétt er þó að halda til haga að hér er um mjög einfaldaða nálgun á sambandi raungengis og utanríkisviðskipta að ræða.

Vissulega var raungengi býsna lágt í sögulegu ljósi rétt eftir banka- og gengishrunið 2008, auk þess sem dregið hefur úr viðskiptaafgangi síðustu ár á sama tíma og raungengið hefur farið yfir langtímameðaltal sitt. Eftir sem áður sker þetta tímabil sig úr hvað að því leyti að saman hefur farið talsverður hagvöxtur, hækkandi raungengi og myndarlegur viðskiptaafgangur.

Betri tíð með blóm í haga?

Útlit er fyrir áframhaldandi viðskiptaafgang næstu misserin. Í þjóðhagsspá Greiningar sem birt var í lok september síðastliðins var því spáð að afgangurinn myndi nema 2,8% af VLF á þessu ári og 1,7% af VLF árið 2020. Þróunin síðan hefur styrkt okkur í þessari skoðun. Þótt horfur séu á fremur hægum hagvexti í ár teljum við að vöxturinn taki við sér að nýju áður en langt um líður. Þá teljum við einnig að raungengi muni haldast tiltölulega hátt á næstu árum. Því bendir margt til þess að framundan sé hagfelldara samspil ytra jafnvægis og batnandi lífskjara hér á landi en Íslendingar hafa átt að venjast frá lýðveldisstofnun.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall