Morgunkorn Íslandsbanka

Óbreyttir stýrivextir í takti við spá

11.05.2016

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í dag í takti við spá okkar og aðrar opinberar spár. Meginvextir bankans, vextir á  sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,75%.

Nær óbreytt framsýn leiðsögn

Framsýna leiðsögnin í yfirlýsingu nefndarinnar er að mestu óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun. Talar nefndin um í yfirlýsingu sinni að alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafi veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt en að það breyti hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni.

Nefndin bætir því þó við í röksemdafærslu sinni fyrir óbreyttum stýrivöxtum að vísbendingar séu nú um að peningastefnan hafi skapað verðbólguvæntingum traustari kjölfestu en áður og stuðlað að því að verðbólga hefur aukist minna en vænta mátti í kjölfar mikilla launahækkana. 

Seðlabankinn spáir enn talsvert meiri verðbólgu en við

Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans verður verðbólga minni á þessu ári en þeir reiknuðu með í sinni síðustu spá sem birt var í febrúar. Hins vegar eykst verðbólga hratt í hinni nýju spá á seinni hluta ársins. Spáir bankinn því að verðbólgan fari yfir verðbólgumarkmið hans á síðasta fjórðungi þessa árs, sem er sama þróun og bankinn spáði í febrúar. Mun verðbólgan samkvæmt spá Selabankans fara fyrr yfir markmið bankans en felst í okkar verðbólguspá, en samkvæmt henni gerist það ekki fyrr en á fyrsta fjórðungi næsta árs. Spá þeirra fyrir meðalverðbólgu 2017 (4,1%) er einnig mun hærri en okkar spá (3,2%).

Hagvaxtarhorfur hafa batnað

Hagvaxtarhorfur hafa aðeins batnað samkvæmt nýrri spá Seðlabankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni nú. Spáir bankinn nú 4,5% hagvexti í ár en spáði áður 4,1%. Einnig spáir hann 4,0% hagvexti á næsta ári en reiknaði áður með 3,4%. Munurinn liggur að stórum hluta í hraðari vexti einkaneyslu bæði árin, sem og meiri vexti fjárfestingar í ár og hagstæðara framlagi utanríkisviðskipta á næsta ári. Telur bankinn að framleiðsluspennan í hagkerfinu næsta kastið verði meiri af þessum sökum, enda vöxturinn yfir framleiðslugetu þjóðarbúsins sem er samkvæmt Seðlabankanum um 3% á ári. 

Eitthvað sigrúm fyrir hækkun nafngengis 

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Seðlabankans hefur jafnvægisraungengi krónunnar hækkað undanfarið. Meginskýringin að mati bankans liggur í því hve ytri jöfnuður þjóðarbúsins hefur batnað með batnandi viðskiptakjörum og kröftugri útflutningsstarfsemi, sérstaklega undanfarin ár með kröftugum vexti útfluttrar þjónustu. Niðurstöður bankans benda því til þess að hækkun raungengis undanfarið megi að töluverðu leyti rekja til aðlögunar raungengis að hærra jafnvægisraungengi, og að hún endurspegli því eðlilega aðlögun þjóðarbúsins að hærra útgjaldastigi en verið hefur undanfarin ár.

Á kynningarfundi í morgun vegna vaxtaákvörðunarinnar kom fram að seðlabankastjóri telur að það sé eitthvað svigrúm fyrir hækkun nafngengisins um þessar mundir, en hversu mikið er óvíst. Að sögn seðlabankastjóra er bankinn að nýta þetta svigrúm nú til að byggja upp gjaldeyrisforða. Mun bankinn halda áfram að fylla á þann tank upp í það sem hann telur sig þurfa til að losa út aflandskrónur og eiga nægilegan gjaldeyrisforða til að skapa traust inn í losun gjaldeyrishafta. Hann benti á að sögulega hefur raungengið farið yfir jafnvægisraungengi í uppsveiflum, en það hefur endurspeglað hagstjórn að hluta. 

Við reiknum með hækkun virkra stýrivaxta undir lok þessa árs

Við reiknum sem fyrr með því að peningastefnunefndin bregðist við aukinni verðbólgu, vaxandi spennu í efnahagslífinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með hækkun virkra stýrivaxta seint á þessu ári og á næsta ári. Spáum við samanlagt 0,75 prósentustiga hækkun virkra stýrivaxta á þessum tíma. 

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall