Morgunkorn Íslandsbanka

Áfram hægir á kaupmáttarvexti

21.09.2018

Vöxtur kaupmáttar launa undanfarna 12 mánuði er sá hægasti frá vordögum 2017. Hægari kaupmáttarvöxtur ásamt minni fólksfjölgun helst í hendur við hóflegri vöxt einkaneyslu á seinni helmingi ársins að okkar mati.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands lækkaði launavísitala í ágúst um 0,1% frá fyrri mánuði. Á sama tíma í fyrra hækkaði vísitalan um 0,2% og minnkar því árs hækkunartakturinn um 0,3%. Laun hafa því, skv. launavísitölunni, hækkað um 6,0% undanfarna 12 mánuði.
 
Nokkuð hefur hægt á hækkunartakti launa það sem af er ári. Í árslok 2017 mældist 12 mánaða hækkun launavísitölunnar 6,9%. Á sama tíma hefur verðbólga vaxið úr 1,9% í 2,6%. Kaupmáttur launa vex því talsvert hægar þessa dagana en hann gerði í upphafi árs. Þannig nam 12 mánaða kaupmáttarvöxtur 4,8% í árslok 2017 en miðað við ágústtölurnar var kaupmáttarvöxturinn 3,3%.

Kaupmáttarþróun launa helst talsvert í hendur við þróun einkaneyslu sem vonlegt er. Framan af yfirstandandi áratug var þróun þessara stærða býsna áþekk eins og sést á myndinni. Raunar væri eðlilegt að einkaneysla yxi öllu hraðar en kaupmáttur þar sem fyrrnefnda stærðin ræðst einnig af fólksfjölgun á meðan kaupmáttarþróunin endurspeglar alla jafna neyslugetu á hvern einstakling. 

Eins og sjá má af myndinni hefur dregið úr vexti einkaneyslu undanfarna fjórðunga á sama tíma og hægt hefur á vexti kaupmáttar. Því til viðbótar hefur hægt heldur á fólksfjölgun það sem af er ári miðað við síðasta ár. Landsmönnum fjölgaði um 3,0% frá síðasta fjórðungi ársins 2016 til sama tímabils í fyrra. Á öðrum fjórðungi þessa árs nam fólksfjölgunin hins vegar 2,6% frá sama tíma í fyrra. Líklegt er að áfram hægi á fólksfjölguninni eftir því sem dregur úr spennu á vinnumarkaði. Samanlagt mun því minni kaupmáttaraukning og hægari fólksfjölgun leiða til minni einkaneysluvaxtar á næstunni að mati okkar. Hagvísar frá eftirspurnarhliðinni á borð við Væntingavísitölu Gallup, kortaveltu og innflutning neysluvara segja svipaða sögu. Útlit er því fyrir að einkaneysluvöxtur, sem nam 5,4% á fyrri helmingi yfirstandandi árs, verði talsvert hægari á seinni hluta ársins.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall