Morgunkorn Íslandsbanka

Mesta verðhjöðnun án húsnæðis í 50 ár

28.03.2017

Áhrif af styrkingu krónu eru ein helsta ástæða þess að verðbólga hjaðnar nú á nýjan leik og hefur ekki verið minni í hálft ár. Einnig hefur harðnandi samkeppni dempandi áhrif á verðbólguna þessa dagana að okkar mati, en hröð hækkun íbúðaverðs veldur því að hérlendis mælist verðbólga fremur en verðhjöðnun þessa dagana.

 

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,07% í mars skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Mæling marsmánaðar er í hóflegri kantinum  miðað við spár.  Við spáðum 0,2% hækkun VNV milli mánaða, en í heild voru spárnar á bilinu 0,1% - 0,2% hækkun. Verðbólga undanfarna 12 mánuði mælist nú 1,6% en hafði mælst 1,9% samfleytt á þennan kvarða þrjá mánuðina á undan. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um 0,28% í mars og m.v. þá vísitölu mælist 1,7% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Svo mikil hefur verðhjöðnun ekki mælst á þennan kvarða í hálfa öld samkvæmt tölum Hagstofunnar.  

Húsnæðisliður meginrót verðbólgu

Eins og undanfarin misseri er húsnæðisliður VNV meginrót þeirrar verðbólgu sem nú mælist, eins og endurspeglast glögglega í muninum á VNV með og án húsnæðis. Í heild hækkaði liðurinn um tæp 0,9% (0,27% áhrif í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga um tæp 1,7% (0,28% í VNV), sem var í takti við væntingar okkar og þróun síðustu mánaða. Þessi liður, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, hefur nú hækkað um nærri 18% undanfarna 12 mánuði, og hefur einn og sér áhrif til 2,8% verðbólgu á tímabilinu.

Líkt og við bjuggumst við hafa útsölulok talsverð áhrif á VNV, einkanlega í fata- og skólið vísitölunnar. Sá liður hækkar um 7,9% í mars (0,30%), en sú hækkun kemur í kjölfar óvenju lítillar hækkunar (0,7%) á liðnum í febrúar. Sé litið á 1. ársfjórðung í heild hefur verð á fötum og skóm lækkað um 2,1% frá áramótum. Eru ástæðurnar væntanlega bæði gengisstyrking krónu og harðnandi samkeppni í geiranum. Verður fróðlegt að fylgjast með þróun þessa liðar næstu mánuði, enda gætu framangreind áhrif haldið áfram að segja til sín í fata- og skóverði.

Styrking krónu segir til sín

Á móti ofangreindum hækkunarliðum vógu fjölmargir liðir til lækkunar VNV í mars, ekki síst liðir þar sem áhrifa af hraðri gengisstyrkingu krónu á seinni helmingi síðasta árs gætir. Má þar nefna að liðurinn Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækkaði um 2,7% (-0,11% í VNV) í marsmánuði. Vafalaust var 10% meðalverðlækkun á vörum IKEA, sem tilkynnt var í marsbyrjun, stór áhrifaþáttur í þessari þróun en auk þess má ætla að styrking krónu hafi almennt lækkunaráhrif á liðinn.

Verð á mat og drykk lækkaði um rúm 0,9% í marsmánuði (-0,13% í VNV). Lækkun þessa liðar var býsna víðtæk og átti rætur bæði í innfluttum liðum og liðum þar sem innlend framleiðsla er fyrirferðarmest, en sér í lagi lækkaði grænmeti og ávextir verulega í verði (-0,08% í VNV). Þá lækkuðu bifreiðar í verði um 1,6% í mars (-0,09% í VNV), og hefur bifreiðaverð skv. því lækkað um tæplega 5% frá áramótum. Auk þess lækkaði verð á flugfargjöldum um 5,6% (-0,06% í VNV) og eldsneytisverð lækkaði um 2,1% (-0,08% í VNV). Loks má nefna að kostnaður við póst, síma og netnotkun lækkaði um 2,4% (-0,06% í VNV) og hefur sá liður nú lækkað um tæplega 20% undanfarið ár.

Svipuð verðbólga fram á mitt ár

Horfur eru á að verðbólgutakturinn verði svipaður næstu mánuði. Við spáum 0,3% hækkun VNV í apríl, 0,3% hækkun í maí og 0,1% hækkun í júní. Verðbólga mun samkvæmt bráðabirgðaspá okkar mælast 1,5% í júní næstkomandi. 

 

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,16% í mánuði hverjum að jafnaði. Liðurinn Hótel og veitingastaðir vegur einnig nokkuð til hækkunar næstu mánuði, sér í lagi í maí þegar háannatími ferðaþjónustunnar fer í hönd. Þá eigum við von á hækkun flugfargjalda í apríl og júní, en nokkurri lækkun í maí. Einnig má nefna að harðnandi samkeppni á eldsneytismarkaði gæti haft áhrif á eldsneytisverð, og gerum við ráð fyrir nokkurri lækkun þess í júní. Í júnímánuði teljum við auk þess að áhrifa gæti af lækkandi verði matvæla og húsgagna, svo nokkuð sé nefnt. 

Verðbólguhorfur eru því nokkuð bjartar fram eftir yfirstandandi ári, en gengisþróun krónu og verðþróun á íbúðamarkaði mun ráða hvað mestu um þróunina í kjölfarið.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall