Morgunkorn Íslandsbanka

Einkaneysla vex enn hratt en ferðamannatekjur hægar

16.01.2018

Farið er að draga aðeins úr vexti einkaneyslu eftir hraðan vöxt undanfarin misseri ef marka má þróun kortaveltu. Landsmenn gerðu þó talsvert betur við sig í síðastliðnum jólamánuði en ári fyrr. Vöxturinn er enn allmyndarlegur, sér í lagi á erlendri grundu. Verulega hefur hins vegar hægt á vexti kortaveltu vegna erlendra ferðamanna. Var gjaldeyrisinnflæði vegna kortaveltu helmingi minna á síðasta fjórðungi 2017 en á sama tíma ári fyrr.

Innlend greiðslukort straujuð myndarlega í fyrra

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands um kortaveltu til og með desember 2017 straujuðu landsmenn greiðslukort sín fyrir ríflega 92 ma.kr. í jólamánuðinum. Það jafngildir 6,5% vexti í krónum talið frá sama mánuði árið 2016. Að raunvirði jókst kortavelta um 7,5% í desember á milli ára og hefur vöxturinn ekki verið hægari á þennan kvarða frá febrúar síðastliðnum. Kortavelta innanlands óx um 4,8% á milli ára en velta utan landsteinanna um 23,5%. Síðarnefnda veltan hefur vaxið mun hraðar en innlenda veltan undanfarin misseri eins og sjá má á myndinni. Kemur það bæði til af ört vaxandi ferðagleði landans, en einnig liggur skýringin í aukinni hlutdeild erlendra netverslana í vörukaupum landsmanna.

Einkaneysla jókst um 7,7% að raungildi á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2017 frá sama tímabili árið áður. Hefur vöxturinn ekki verið hraðari í rúman áratug. Þróun kortaveltunnar bendir hins vegar til að vöxturinn milli ára hafi verið heldur hægari á lokafjórðungi ársins. Þannig óx kortavelta landsmanna um 10,8% að raunvirði á 4. fjórðungi síðasta árs, en á fyrstu 3 fjórðungum ársins var vöxturinn hins vegar að jafnaði  11,7%. Það bendir til þess að hámark einkaneysluvaxtarins kunni að vera að baki. Það rímar við þróun kaupmáttar, en kaupmáttarvöxtur varð að jafnaði talsvert hægari á nýliðnu ári en árið á undan. Þótt heimilin geti vissulega haldið áfram að bæta í einkaneyslu sína með aukinni skuldsetningu teljum við að minni kaupmáttarvöxtur muni verða til þess að hægja á einkaneysluvextinum á komandi fjórðungum.

Erlendir ferðamenn halda fastar um kortin

Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi nam 14,3 mö.kr. í desember síðastliðnum. Veltan dróst saman um 4,2% í krónum talið á milli ára og var það annar mánuðurinn í röð sem velta erlendra korta dregst saman á þennan kvarða eftir linnulausan vöxt frá síðasta fjórðungi ársins 2010. 

Vatnaskil urðu í þróun kortaveltu erlendra ferðamanna á síðasta ári, eins og myndin ber með sér. Á árinu í heild jókst slík kortavelta um ríflega 12%. Til samanburðar var vöxturinn rúm 50% árið 2016. Það hefur því hægt talsvert meira á vexti kortaveltunnar en raunin er um fjölgun ferðamanna. Komum ferðamanna fjölgaði um 24% á síðasta ári en um 40% árið 2016. Kortavelta á hvern ferðamann virðist því hafa dregist talsvert saman á milli ára, séu þessar tölur túlkaðar beint. 

 

Þegar tekin er saman þróunin í erlendri kortaveltu Íslendinga annars vegar og veltu erlendra korta hérlendis hins vegar, fæst myndin sem sjá má hér að ofan. Hún lýsir kortaveltujöfnuði til og frá landinu, og gefur ágæta vísbendingu um gjaldeyrisflæði vegna kortanotkunar og þar með verulegan hluta þjónustujafnaðar. Eins og sjá má hefur bætt jafnt og þétt i afgang á kortaveltujöfnuðinum undanfarin ár. Á öðrum og þriðja fjórðungi síðasta árs var kortajöfnuðurinn hins vegar áþekkur og árið á undan, og á lokafjórðungi ársins var afgangurinn aðeins rúmlega helmingurinn af afganginum ári fyrr. Þetta gæti gefið vísbendingu um að hámarkinu sé náð hvað þjónustuafgang varðar og að á yfirstandandi ári verði afgangur af þjónustujöfnuði öllu minni en hann var í fyrra.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall