Morgunkorn Íslandsbanka

Lengsta tímabil óbreyttra stýrivaxta frá 2004

06.11.2013

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í morgun að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum líkt og undanfarið, og er það í takti við okkar spár og annarra. Nefndin hefur nú haldið vöxtum bankans óbreyttum síðan í nóvember í fyrra. Er þetta lengsta samfellda tímabil óbreyttra stýrivaxta bankans síðan 2004.   

Langtíma verðbólguhorfur svipaðar og áður

nullSeðlabankinn er nú öllu bjartsýnni á verðbólguþróunina næsta kastið en hann var í sinni síðustu verðbólguspá sem birt var í ágúst sl. Spáir bankinn nú 3,8% verðbólgu á þessum fjórðungi en reiknaði með 4,1% áður. Langtímahorfur fyrir verðbólgu í spá bankans eru hins vegar svipaðar og áður. Reiknar bankinn með því að verðbólgumarkmið bankans verði í höfn undir lok árs 2016. Er bankinn áfram umtalsvert bjartsýnni á verðbólguhorfur til lengri tíma en við, en Seðlabankinn hefur haft tilhneigingu til að vanspá verðbólgunni litið til lengri tíma. Er spá bankans til lengri tíma einnig nokkuð undir verðbólguvæntingum almennt.  

Meiri hagvöxtur í ár en rýrari næstu tvö ár

nullSeðlabankinn spáir meiri hagvexti í ár en í sinni síðustu spá sem birt var í ágúst sl.  Spáir bankinn nú 2,3% hagvexti í ár en reiknaði áður með 1,9% vexti. Hækkunin er að hluta til komin vegna þess að hagvöxtur síðastliðins árs var endurskoðaður til lækkunar úr 1,6% í 1,4% eftir að þeir birtu spána í ágúst. Einnig var hagvöxturinn á fyrri helmingi þessa árs umfram það sem Seðlabankinn spáði í ágúst. Hagvöxturinn mældist þá 2,2% en Seðlabankinn reiknaði með að hagvöxtur væri enginn á því tímabili.

Hagvaxtarhorfur til næstu tveggja ára eru í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans hins vegar nokkuð lakari en í spá bankans í ágúst. Á næsta ári spáir bankinn 2,6% hagvexti í stað 2,8% áður, og árið 2015 er búist við 2,8% hagvexti í stað 2,9% áður. Horfur fyrir spátímabilið eru því áþekkar því sem var í þeirra síðustu spá í ágúst. Þetta er framhald á þróun sem sést hefur í þeim spám sem bankinn hefur gefið út í ár fyrir næstu tvö ár. Þannig spáði bankinn því í febrúar sl. að hagvöxturinn á næsta ári yrði 3,7% og hefur bankinn því endurskoðað hagvaxtarhorfunar fyrir 2014 niður um 1,1 prósentustig frá þeim tíma. Á sama tíma spáði bankinn 3,9% hagvexti árið 2015, sem er einnig 1,1 prósentustigi meiri hagvöxtur en hann gerir nú ráð fyrir að verði á því ári. Eru þetta umtalsverðar breytingar í hagvaxtarhorfum á skömmum tíma.  

Áfram gera þeir ráð fyrir því að framleiðsluslakinn verði horfinn úr hagkerfinu seinni hluta árs 2015. Segir peningastefnunefndin í yfirlýsingu sinni vegna vaxtákvörðunarinnar nú, líkt og hún hefur gert ítrekað í yfirlýsingu sínum á þessu ári, að eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig.  Hagvaxtarspá þeirra er mjög keimlík þeirri hagvaxtarspá sem við birtum í byrjun síðastliðins mánaðar og reiknum við þannig einnig með því að slakinn verði horfinn úr þjóðarbúskapnum á árinu 2015. Ólíkt Seðlabankanum teljum við hins vegar að raunstýrivextir bankans muni ekki hækka með hjöðnun verðbólgunnar fram að þeim tíma heldur að bankinn muni hækka stýrivexti sína til að taka slakann úr peningastjórnuninni á næstu tveim árum. Spáum við tveimur stýrivaxtahækkunum á næsta ári um samtals 0,5 prósentur og einni 0,25 prósentna hækkun árið 2015. 

Gulrót fyrir aðila vinnumarkaðarins

Varðandi stýrivaxtaþróunina næsta kastið er það óvissan í kjarasamningum sem skiptir mestu máli að mati peningastefnunefndarinnar. Skýrir nefndin tón sinn enn frekar frá síðustu vaxtaákvörðun, og ljóst að hún er að reyna að skapa gulrót fyrir aðila nullvinnumarkaðarins þannig að líklegra sé að þeir lendi samningum í takti við verðbólgumarkmið bankans. Segir í yfirlýsingu nefndarinnar að verði launahækkanir í samræmi við spá bankans, sem hljóðar upp á 5,5% hækkun launa á milli áranna 2013 og 2014, þá er líklegt að nafnvextir bankans muni að óbreyttu hækka í framhaldinu, sérstaklega ef slakinn í þjóðabúskapnum heldur áfram að minnka. Bætir nefndin síðan við að verði launahækkanir umfram spá bankans aukast líkur á vaxtahækkun enn frekar. Í ljósi núverandi verðbólguvæntinga fyrirtækjastjórnenda og almennings reiknum við með 5,5% hækkun launa í okkar spá og m.a. í því ljósi teljum við að Seðlabankinn muni hækka vexti sína á næsta ári.

Bjartsýni í gengisforsendu Seðlabankans

Annar stór óvissuþáttur í þróun verðbólgunnar næsta kastið er gengi krónunnar. Bendir peningastefnunefndin á að viðskiptakjör Íslands hafi versnað á undanförnum misserum og hefur það rýrt viðskiptaafgang og sett þrýsting á gengi krónunnar. Segir nefndin að litið fram á við sé óvissa um áhrif þungrar greiðslubyrðar erlendra lána, uppgjöra búa fallinna banka og losunar fjármagnshafta á gengisþróun. Bankinn gengur út frá því í verðbólguspá sinni að viðskiptavegin gengisvístala krónunnar verði 215,6 út spátímabilið. Þetta er nær 2% sterkari króna en hún er nú. Teljum við,  í ljósi ofangreindra þátta sem bankinn efnir að geti sett þrýsting á krónuna næstu misseri og ár, að gengisforsenda bankans sé bjartsýn. Spáum við lækkun krónunnar á spátímabilinu og skýrir það að hluta af hverju við spáum meiri verðbólgu en Seðlabankinn.  

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall