Morgunkorn Íslandsbanka

Peningastefnunefndin opnar á vaxtalækkun

19.03.2014

nullPeningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum, sem er í takti við okkar spá og annarra. Vaxtalækkunartónn er kominn í nefndina til skemmri tíma, og er það í takti við væntingar okkar og þau orð sem Seðlabankastjóri hefur látið falla frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi um hugsanleg næstu skref í peningastjórnuninni. Í yfirlýsingu nefndarinnar, sem birt var í morgun, segir að það fari eftir þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga næstu mánuði hvort skapast gæti tilefni til lækkunar nafnvaxta. Verði af lækkun teljum við að hækkunarferillinn, þegar að honum kemur, gæti orðið brattari fyrir vikið.  

Rökin fyrir vaxtalækkunartóninum

Nefndin tiltekur nokkra þætti sem hafa bætt verðbólguhorfur frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi og renna þannig stoðum undir hinn nýja vaxtalækkunartón. Nefnir hún minni verðbólgu en spáð var í febrúar, sterkari krónu og minni launahækkanir. Nefndin bendir á jákvæð merki af vinnumarkaði og segir að launakostnaður á ársverk hafi hækkað töluvert minna á síðustu tveimur árum en fyrri tölur bentu til.

Áhugavert er að nefndin fjallar um tölur um aukinn hagvöxt með þessum hætti fremur en að þær tölur bendi til að slakinn sé að hverfa fyrr úr hagkerfinu og að þannig þurfi raunstýrivextir að hækka fyrr. Það er þó í takti við áherslu nefndarinnar undanfarið á tölur af framboðshlið hagkerfisins, sér í lagi tölur sem hafa sýnt allhraðan vöxt heildar vinnustunda síðustu misserin.

Áfram vaxtahækkunartónn litið til lengri tíma

Áfram er nefndin með vaxtahækkunartón litið til lengri tíma og segir að litið lengra fram í tímann munu raunvextir m.v. spá Seðlabankans þurfa að hækka frekar. Í hve miklum mæli það gerist með hækkun nafnvaxta mun eins og áður ráðast af þróun verðbólgunnar.

nullVið erum þeirrar skoðunar að lækkun verðbólgunnar nú sé tímabundin, m.a. vegna þeirrar tímabundnu áhrifa sem styrking krónunnar undanfarið hefur á verðbólguþróunina. Undirliggjandi þættir benda til nokkurs verðbólguþrýstings litið til lengri tíma og reiknum við með því að þegar kemur fram á næsta ár muni verðbólgan aukast á ný og fara nokkuð yfir verðbólgumarkmið bankans. Reiknum við með því að peningastefnunefndin haldi stýrivöxtum óbreyttum út árið en að hún muni hækka stýrivexti sína í tvígang um samtals 0,5 prósentustig á næsta ári. Rökin fyrir þeim hækkunum verða aukin verðbólga og að slakinn sé að hverfa úr efnahagslífinu. Við reiknum síðan með því að nefndin muni með svipuðum rökum bæta einni 0,25 prósentustiga hækkun við á árinu 2016. Verða stýrivextir bankans þá komnir upp í 6,75%.

Auknar líkur á vaxtalækkun í maí

Óvissan í síðustu stýrivaxtaspá var m.a. sú að peningastefnunefndin myndi lækka stýrivexti bankans litið til skemmri tíma. Í ljósi yfirlýsingarinnar peningastefnunefndarinnar í morgun teljum við að líkur hafi aukist á vaxtalækkun í maí næstkomandi. Fer niðurstaðan þar þó að miklu leyti eftir þróun verðbólgunnar, verðbólguvæntinga og gengis krónunnar. Verðbólguvæntingar hafa lækkað nokkuð, hvort sem litið er á nýjustu mælingu á verðbólguvæntingum stjórnenda fyrirtækja eða verðbólguálag á skuldabréfamarkaði, en líklega vill peningastefnunefndin sjá frekari lækkun verðbólguvæntinga ásamt því að verðbólga haldist við markmið áður en ráðist er í vaxtalækkun í maí.

Töluverð viðbrögð á skuldabréfamarkaði

Töluverð viðbrögð urðu á skuldabréfamarkaði við vaxtaákvörðuninni og yfirlýsingum tengdum henni í morgun. Þegar þetta er ritað (kl.12:00) hefur krafa lengri flokka óverðtryggðra ríkisbréfa lækkað um 4 – 7 punkta frá opnun í morgun. Krafa verðtryggðra bréfa með ríkisábyrgð hefur hins vegar hækkað um 4 – 11 punkta á sama tíma. Verðbólguálag á markaði hefur því lækkað nokkuð það sem af er degi. Miðað við vaxtaferla ríkisbréfa og íbúðabréfa er verðbólguálag til 5 ára nú 3,2%, en verðbólguálag til 7 ára er 3,4%. Í upphafi marsmánaðar var álagið 3,5% til 5 ára og 3,7% til 7 ára. Velta hefur verið lífleg og nemur hún 7,1 ma.kr. í óverðtryggðum bréfum en 3,2 mö.kr. í verðtryggðum pappírum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall