Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum óbreyttri VNV í nóvember

14.11.2017

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) verði óbreytt í nóvember frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá verður 12 mánaða verðbólga einnig óbreytt í 1,9% í nóvember.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa lítið breyst á heildina litið frá síðustu spá. Þó lítur nú út fyrir að verðbólga aukist hraðar á næsta ári en í fyrri spá. Að sama skapi hjaðnar hún hraðar að nýju þegar frá líður. Hagstofan birtir VNV fyrir nóvember þann 28. nóv. næstkomandi kl.9:00.

Tíðindalítil mæling? 

Útlit er fyrir að VNV-mæling Hagstofunnar verði fremur bragðdauf í nóvember. Stöðug króna og litlar sviptingar í kostnaðarverði ýmissa vöruflokka leiða líklega til þess að margir undirliðir munu lítið breytast. Það sem helst sætir tíðindum í spá okkar er að útlit er fyrir litla hækkun reiknaðrar húsaleigu, sem að mestu endurspeglar íbúðaverð. Teljum við að þessi liður hækki einungis um 0,2% í mánuðinum (0,04%). 

Á móti hækkun reiknuðu húsaleigunnar vegur lækkun á rafmagnskostnaði notenda OR, sem gekk í gildi um mánaðamótin (-0,04% í VNV). Liðurinn í heild hefur því aðeins áhrif til 0,03% hækkunar VNV, sem kemur til af hækkun greiddrar húsaleigu og auknum viðhaldskostnaði.

Könnun okkar bendir til þess að flugfargjöld lækki verulega í nóvember (-0,14%). Þá vegur verðlækkun á heimilisbúnaði, tækjum og símaþjónustu til lítilsháttar lækkunar í spá okkar.

Á móti er það helst verð á eldsneyti sem hækkar. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um ríflega 20% frá septemberbyrjun, og hefur það leitt til nokkurrar hækkunar á eldsneyti hérlendis. Sú hækkun er þó enn hófleg, en áhrifa hennar mun gæta í nóvember (0,04% í VNV).

Matvöruverð hækkaði talsvert í október, en við gerum ekki ráð fyrir teljandi breytingum á þeim lið nú.

Bætir í verðbólgu næstu mánuði

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aukast næstu mánuðina. Við spáum 0,3% hækkun VNV í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,1% í árslok. Í janúar 2018 spáum við 0,3% lækkun VNV, en 0,7% hækkun í febrúar.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,2% í mánuði hverjum að jafnaði. Það eru þó talsvert minni áhrif en voru framan af yfirstandandi ári. Í desember gerum við ráð fyrir árstíðabundinni hækkun flugfargjalda. í janúar munu að vanda togast á hækkunaráhrif af hækkun opinberra krónutölugjalda og verðskráa annars vegar, og lækkunaráhrif af útsölum hins vegar. Útsölulok munu svo að vanda setja svip sinn á mælingu febrúarmánaðar.

Verðbólga nærri markmiði næstu ár

Útlit er fyrir hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Við gerum ráð fyrir að gengi krónu verði í stórum dráttum á svipuðum slóðum á spátímanum og það hefur verið að jafnaði síðustu mánuði. Þá gerum við ráð fyrir að jafnt og þétt dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs og launa eftir því sem líður á spátímann.

Við teljum að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á fyrri hluta næsta árs, en aukist í kjölfarið og verði 3,0% í árslok 2018. Árið 2019 spáum við 2,8% verðbólgu að jafnaði. Það má því segja að miðað við spá okkar verði verðbólga í næsta nágrenni við markmið Seðlabankans fram til ársloka 2019.

Frávikssviðsmyndir 

Gengi krónu og íbúðaverð eru þeir áhrifaþættir sem munu ráða hvað mestu um verðbólguþróun á komandi misserum. Við gerðum því tvær frávikssviðsmyndir til að varpa ljósi á hvernig verðbólga gæti þróast ef þessir þættir þróast með öðrum hætti en við gerum ráð fyrir. Annars vegar breyttum við forsendu um húsnæðisverð þannig að það hækkaði um 0,2% í mánuði hverjum, þ.e. um u.þ.b. 2,5% á ári, í stað grunnforsendunnar sem sjá má í töflu fremst í spánni. Hins vegar teiknuðum við upp sviðsmynd af áhrifum 10% línulegrar veikingar krónu á hvoru áranna 2018 og 2019. Slík veiking krónu myndi skila gengi hennar á svipaðar slóðir undir lok spátímans og það var fyrir tveimur árum síðan. Vert er að taka fram að ekki var gert ráð fyrir afleiddum áhrifum þessara breytinga á aðra áhrifaþætti spárinnar eins og launakostnað. 

Eins og lesa má af myndinni hér að ofan myndi hæg hækkun íbúðaverðs væntanlega leiða til þess, að öðru óbreyttu, að verðbólga héldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans allt spátímabilið. Hins vegar hefði veruleg veiking krónu í för með sér að verðbólga myndi fljótt fara yfir markmiðið og ná hámarki í ríflega 5% verðbólgu á fyrri helmingi ársins 2019.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall