Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,4% hækkun neysluverðs í apríl

15.04.2016

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,4% í apríl frá marsmánuði. Verðbólga eykst samkvæmt spánni úr 1,5% í 1,8%. Verðbólga verður því miðað við spána áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa batnað nokkuð frá síðustu spá okkar. Horfur eru á að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram undir lok yfirstandandi árs. Verðbólga mun hins vegar verða nokkuð yfir markmiðinu árin 2017 og 2018. Hagstofan birtir VNV fyrir apríl kl. 09:00 þann 28. apríl næstkomandi.

Húsnæði, matur og eldsneyti hækkar 

Húsnæðisliður VNV er sá þáttur sem langþyngst vegur til hækkunar hennar í spá okkar að þessu sinni. Í heild gerum við ráð fyrir að liðurinn hækki um tæplega 1,1% í apríl (0,31% áhrif í VNV). Er það að langmestu leyti vegna 1,8% hækkunar á reiknaðri húsaleigu (0,28% í VNV), en könnun okkar bendir til þess að hækkun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis muni reynast veruleg í mælingu VNV nú eftir að þessi liður stóð óvænt í stað í síðasta mánuði. 

Myndarleg hækkun launa hjá stærstum hluta launþega á almennum vinnumarkaði á undanförnum mánuðum virðist nú vera að koma fram í vaxandi mæli í innlendu vöruverði. Skýrust eru þau áhrif að þessu sinni í verði matvæla, en matur og drykkjarvörur hækka um nærri 0,6% í spá okkar (0,08% í VNV). Er það að mestu vegna hækkunar á innlendum matvælum á borð á borð við sætindi og brauðmeti.

Eldsneytisverð hefur hækkað um hér um bil 3,0% frá síðustu mælingu samkvæmt könnun okkar (0,10% í VNV) og er það í stórum dráttum í samræmi við þróun á mörkuðum erlendis.

Þeir liðir sem helst vega til lækkunar VNV að þessu sinni eru annars vegar föt og skór (-0,07% í VNV) og hins vegar flutningar í lofti (-0,03% í VNV). Vorútsölur setja að mati okkar svip á fyrrnefnda liðinn, auk þess sem enn virðist rými fyrir fataverslanir að miðla til neytenda verulegri lækkun á innkaupsverði í kjölfar afnáms vörugjalda og styrkingar krónu. Spá okkar fyrir seinni liðinn byggir á athugun á þróun flugfargjalda til útlanda, sem virðast hafa lækkað nokkuð milli mánaða. Aðrir liðir hafa minni áhrif en vega samtals til 0,05% hækkunar VNV að þessu sinni.

Hófleg verðbólga fram undir árslok

Horfur eru á að hækkun VNV á fyrri helmingi ársins nemi samtals 1,4%. Við spáum 0,2% hækkun í maí og 0,3% hækkun í júní. Verðbólga mælist samkvæmt þessu að jafnaði 1,8% á fyrstu sex mánuðum ársins. Við gerum síðan ráð fyrir óbreyttri vísitölu í júlímánuði.Húsnæðisliðurinn vegur þyngst til hækkunar VNV á komandi mánuðum, en þar spáum við 0,7% hækkun í mánuði hverjum líkt og raunin hefur verið að meðaltali undanfarna 12 mánuði. Útsöluáhrif vega svo upp árstíðabundna hækkun flugliðar og aðra hækkunarþætti í júlí. Að öðru leyti talar myndin hér fyrir neðan sínu máli um helstu áhrifaþætti næstu mánaða.

Vaxandi verðbólga á seinni árshelmingi

Á seinni hluta ársins eykst verðbólga jafnt og þétt í spá okkar, og fer verðbólga yfir 2,5% markmið Seðlabankans í lok ársins. Teljum við að verðbólga mælist 2,6% í desember. Á næsta ári er útlit fyrir að verðbólgan verði að jafnaði 3,2% og árið 2018 gerum við ráð fyrir 3,4% meðalverðbólgu. Aukinn verðbólgu-þrýstingur skýrist af áframhaldandi hraðri hækkun á innlendum launakostnaði, viðvarandi raunhækkun á íbúðaverði og því að áhrif innfluttrar verðhjöðnunar fjara út, svo nokkuð sé nefnt.

Styrking krónu myndi skila minni verðbólgu

Krónan er, líkt og jafnan, einn helsti óvissuþátturinn í spá okkar, en við spáum óbreyttu gengi hennar næstu misserin. Til skamms tíma virðast þó meiri líkur á styrkingu hennar en veikingu, enda hefur innflæði gjaldeyris verið viðvarandi síðustu misserin og er nú svo komið að nægt svigrúm virðist vera til að mæta hugsanlegu útflæði vegna aflandskrónaútboðs og erlendrar fjárfestingar innlendra aðila í kjölfar afléttingar hafta.

Frekari styrking krónu myndi leiða til minni verðbólgu en hér er spáð, og má sem dæmi nefna að ef krónan styrkist um 5% til áramóta gefur spálíkan okkar þá niðurstöðu að verðbólga verði 2,0% í árslok og einnig nokkru minni á næsta ári en ella. Frekari styrking krónu gæti þó reynst skammgóður vermir, þar sem frekari hækkun raungengisins grefur að okkar mati á endanum undan samkeppnishæfni þeirra innlendu fyrirtækja sem helst keppa við erlend og eykur að sama skapi hættu á ytra ójafnvægi hagkerfisins og gengisfalli síðar meir. Einnig gæti hækkun launa reynst hraðari næsta kastið en við gerum ráð fyrir, sem vegur þá til aukinnar verðbólgu á næstu misserum.

Verðbólguspá Greiningar

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall