Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum óbreyttum stýrivöxtum en breyttum tón 12. febrúar nk.

03.02.2014

nullVið spáum því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 12. febrúar næstkomandi. Teljum við hins vegar að tónninn í yfirlýsingu nefndarinnar muni mildast en undanfarið hefur verið þar vaxtahækkunartónn. Reiknum við nú með því að nefndin haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum út þetta ár líkt og raunin var á síðastliðnu ári. Rætist spáin verður þetta lengsta tímabil óbreyttra vaxta bankans um áratuga skeið. Er þetta breyting frá okkar fyrri spá, en þar til nú höfum við verið á því að bankinn myndi hækka stýrivexti sína í ár.   

Margt að leggjast á eitt við að lækka verðbólguna

nullFrá síðasta vaxtaákvörðunarfundi hefur verðbólgan minnkað umtalsvert og bendir flest til þess að verðbólgan á fyrstu fjórðungum þessa árs verði talvert undir síðustu verðbólguspá Seðlabankans. Við reiknum með 2,6% verðbólgu að jafnaði á 1. ársfjórðungi samanborið við 3,3% spá Seðlabankans. Seðlabankinn mun samhliða ákvörðuninni nú birta endurskoðaða þjóðhags- og verðbólguspá, og reiknum við með því að bankinn muni teikna þar nokkuð bjartari verðbólguhorfur en í sinni síðustu spá. Gengi krónunnar hefur styrkst frá síðustu vaxtaákvörðun og er hún nú ríflega 3% sterkari en Seðlabankinn reiknaði með í þeirra síðustu verðbólguspá. Þetta mun hafa áhrif á verðbólguspá bankans til lækkunnar. Einnig hafa hagvaxtarhorfur frekar versnað, þar sem líkur á að þær stóriðjuframkvæmdir sem Seðlabankinn reiknaði með í sinni síðustu hagvaxtarspá verði að veruleika hafa minnkað. Þá kann útflutningur að vaxa nokkuð hægar í ár en fólst í síðustu þjóðhagsspá bankans þar sem loðnuvertíðin hefur verið lakari en væntingar stóðu til. Einnig benda nýgerðir kjarasamningar til þess að launakostnaður á framleidda einingu gæti aukist eitthvað minna á þessu ári en Seðlabankinn reiknaði með í síðustu verðbólguspá sinni. Síðast en ekki sýst hafa raunstýrivextir bankans hækkað talsvert og má segja að á þann mælikvarða sé allur slakinn sem verið hefur í peningastjórnuninni undanfarin ár horfinn.

Verðbólgan undir verðbólgumarkmiðinu í febrúar

Horfur eru á freakari hjöðnun verðbólgunnar á næstu mánuðum. Spáum við því að verðbólgan fari niður í 2,3% í febrúar. Í kjölfarið áætlum við að verðbólgan muni fara upp í 2,5% í mars og 2,6% í apríl. Verðbólgan mun því verða við verðbólgumarkmið Seðlabankans næstu mánuði að okkar mati. Reiknum við með því að sú spá sem Seðlabankinn mun birta samhliða stýrivaxtaákvörðuninni 12. febrúar nk. verði á svipuðum nótum.

Mildari tónn

Í ljósi ofangreinds teljum við líklegt að peningastefnunefndin muni taka upp nýjan tón í yfirlýsingu sinni vegna vaxtaákvörðunarinnar nú. Í stað þess vaxtahækkunartóns sem verið hefur í yfirlýsingum nefndarinnar undanfarið muni hún að okkar mati í yfirlýsingunni sinni nú vera með hlutlausari tón. Mun hún m.a. bera fyrir sig bættum verðbólguhorfum og því að slakinn mun hverfa hægar úr efnahaglífinu næstu misseri en áður var reiknað með.

Eru líkur á vaxtalækkun?

Af ofangreindri upptalningu á því sem átt hefur sér stað frá síðustu vaxtaákvörðun mætti ráða að nefndin myndi hugsanlega lækka vexti nú. Við teljum það hins vegar afar ólíklegt að peningastefnunefndin ákveði að lækka vexti að þessu sinni. Verðbólgan er enn yfir verðbólgumarkmiði bankans og þó að hún hafi minnkað vill Seðlabankinn eflaust sjá verðbólgumarkmiðið í tryggri höfn áður en hann opnar á vaxtalækkun.  Þá ber á það að líta að slakinn í hagkerfinu er á undanhaldi þó að sú þróun kunni að verða nokkuð hægari næsta kastið en bankinn hefur áður reiknað með. Auk þess hefur peningastefnunefndin sýnt það að hún er bæði varfærin og íhaldssöm í ákvörðunum sínum og mun það að okkar mati ekki breytast nú. 

Rými fyrir lægri stýrivexti

nullRaunstýrivextir bankans hafa hins vegar hækkað hratt undanfarið og farið núna á tveim árum úr því að vera neikvæðir um 2,3% í að vera jákvæðir um 2,4%, sé miðað við liðna verðbólgu. Samkvæmt verðbólguspá okkar munu þeir hækka í 3,2% í febrúar. Má segja að á þann mælikvarða sé slakinn horfinn úr peningastjórnuninni, en í yfirlýsingum peningastefnunefndarinnar undanfarið hefur verið sagt að eðlilegt að slakinn hverfi úr peningastjórnuninni samhliða því að slakinn hverfi úr hagkerfinu. Gallinn er hins vegar sá að slakinn er ekki horfinn úr hagkefinu og m.v. þróunina undanfarið er nokkuð lengra í að það eigi sér stað. Því má segja að slakinn hafi horfið óþarflega snögglega úr peningastjórnuninni og að rými sé fyrir lægri stýrivexti nú. 

Teljum við hugsanlegt að nefndin muni í þessu ljósi lækka stýrivexti sína á vataákvörðunardögum sínum í mars eða í maí á þessu ári. Óvissuþættirnir eru þar hins vegar margir og má nefna endanlega niðurstöðu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum aðilum, og gengisþróun krónunnar. Við erum því enn á því að lækkun sé ólíklegri en hitt þ.e. að nefndin haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum út árið.   

Spáum hækkun stýrivaxta á næsta ári

Við spáum því að lækkun verðbólgunnar nú sé tímabundin m.a. vegna þeirra tímabundnu áhrifa sem styrking krónunnar undanfarið hefur á verðbólguþróunina. Undirliggjandi þættir benda til nokkurs verðbólguþrýstings litið til lengri tíma og reiknum við með því að þegar líða tekur á árið muni verðbólgan aukast á ný og fara nokkuð yfir verðbólgumarkmið bankans. 

 
Reiknum við með því að peningastefnunefndin haldi stýrivöxtum óbreyttum út árið en að hún muni hækka stýrivexti sína í tvígang um samtals 0,5 prósentustig á næsta ári. Rökin fyrir þeim hækkunum verða aukin verðbólga og að slakinn sé að hverfa úr efnahagslífinu. Við reiknum síðan með því að nefndin muni með svipuðum rökum bæta einni 0,25 prósentustiga hækkun við á árinu 2016. Verða stýrivextir bankans þá komnir upp í 6,75%. 

Óvissan í spánni

Óvissan í spánni er sú að peningastefnunefndin muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum lengur en við spáum og raunar einnig að nefndin muni ákveða að lækka vexti núna á fyrri hluta þessa árs. Verði af lækkun má búast við því að hækkunartakturinn verði hraðari þegar að honum kemur. Óvissuþáttur spárinnar hefur breyst talsvert undanfarið, þar sem líkur á vaxtahækkun í bráð hafa minnkað umtalsvert og virðast nú hverfandi en þess í stað hafa líkur á vaxtalækkun í bráð aukist. 

Spánna má nálgast hér

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall