Morgunkorn Íslandsbanka

Verulega dregur úr verðbólgu í júlí

22.07.2016

Verðbólga í júlí er sú minnsta frá því í ársbyrjun 2015. Útlit er fyrir að verðbólgan haldist undir 2,5% markmiði Seðlabankans langt fram eftir næsta ári, en hún hefur nú verið samfleytt undir markmiðinu í tvö og hálft ár. Þessa þróun má fyrst og fremst þakka styrkingu krónu og lágu eldsneytis- og hrávöruverði, en einnig virðast áhrif af hraðri hækkun á innlendum kostnaði koma hægar fram í verðlagi en búast mátti við.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar lækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,32% í júlímánuði frá mánuðinum á undan. Verðbólga mælist nú 1,1% en var 1,6% í júní síðastliðnum. Að húsnæði undanskildu mælist raunar 0,6% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Þessi þróun kom nokkuð á óvart, enda lágu opinberar spár á bilinu frá óbreyttri VNV til 0,2% lækkunar. Þar spáðum við óbreyttri VNV milli mánaða. Frávik mælingar Hagstofunnar frá spá okkar liggur að stærstum hluta í víðtækari útsöluáhrifum, minni hækkun húsnæðisliðar, hóflegri hækkun flugfargjalda og lækkun símakostnaðar.

Útsöluáhrif, eldsneyti og símaþjónusta til lækkunar

Útsölur setja ávallt mark sitt á verðlagsþróun í júlímánuði. Að þessu sinni virðast útsöluáhrifin hafa verið öllu dýpri en áður í varningi á borð við heimilisbúnað, tómstundavörur og snyrtivörur. Verðlækkun á fötum og skóm var hins vegar í samræmi við væntingar okkar. Í heild voru lækkunaráhrif af þeim liðum sem helst tengjast sumarútsölum u.þ.b. 0,7% í VNV í júlí.

Eldsneytisverð lækkaði um 1,0% í júlí (-0,04% í VNV) og tengist það styrkingu krónu og lækkun á heimsmarkaðsverði. Þá lækkaði verð á símaþjónustu um um 1,1% (-0,03% í VNV). Sá liður hefur lækkað um nærri 17% undanfarna 12 mánuði og er verðbólga í dag 0,5% minni en ella vegna þeirrar þróunar. Aukin samkeppni virðist þar hafa veruleg áhrif, en símafyrirtækin hafa verið dugleg að kynna ýmiskonar pakka undanfarið sem fela í sér hagstæðara verð á gagnamagni en áður.

Flugfargjöld, húsnæðisliður og matvara til hækkunar

Á móti ofangreindum liðum vógu ýmsir undirliðir VNV til hækkunar í júlí. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 13,5% í júlí (0,17% í VNV) og er það árstíðarbundin hækkun. Þá hækkaði húsnæðisliður VNV um 0,5% (0,14% í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, um 0,7% (0,10% í VNV). Loks má nefna að matur og drykkur hækkaði um 0,9% (0,14% í VNV). Mestu áhrifin þar voru vegna 2,7% hækkunar á mjólkurvörum (0,07% í VNV). Auk þessi hækkuðu ávextir og sætindi nokkuð í verði í júlí.

Innflutt verðhjöðnun hefur mikil áhrif

Litla verðbólgu um þessar mundir má að miklu leyti þakka innfluttri verðhjöðnun, bæði vegna styrkingar krónu undanfarið ár og hagfelldrar þróunar erlendis á verði innfluttra vara. Gengi krónu var að jafnaði tæplega 12% hærra gagnvart helstu viðskiptamyntum í núverandi mánuði en það var í júlí í fyrra. Munar um minna fyrir verðlagsþróun, þar sem innfluttar vörur vega u.þ.b. þriðjung af VNV. Innfluttar vörur hafa að jafnaði lækkað um rúm 3% í verði undanfarið ár, og hefur það haft áhrif til ríflega 1% lækkunar á VNV. Auk þessa lækkar styrking krónu aðfangakostnað við innlenda vöru og þjónustu og vegur gegn mikilli hækkun innlendra kostnaðarliða á borð við laun. Þá virðist aukin samkeppni í þjónustu á borð við flug til útlanda og síma- og netþjónustu hafa þrýst niður verðlagi í þessum liðum, enda mælist innlend verðbólga án húsnæðis nú aðeins 1,9%. Húsnæðiskostnaður hefur hins vegar hækkað um 6,3% undanfarið ár, og hefði sú hækkun ekki komið til væri verðhjöðnun nú ríkjandi hérlendis.

Sögulega langt stöðugleikaskeið í verðlagi

Útlit er fyrir að verðbólga reynist áfram hófleg hér á landi, enda virðist lítið lát á styrkingu krónu til skemmri tíma. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir að VNV hækki um 0,4% í ágúst, verði óbreytt í september en hækki á ný um 0,1% í október. Verðbólga verður miðað við þá spá 1,4% í október. Í kjölfarið eru horfur á að verðbólgan aukist hægt og sígandi, en hún gæti þó haldist undir 2,5% markmiði Seðlabankans talsvert fram eftir næsta ári. Það eru því horfur á að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiðinu í hátt á fjórða ár samfellt, gefi gengi krónu ekki umtalsvert eftir á komandi misserum. Slíkt væri eindæmi í hagsögu Íslands á lýðveldistímanum, og gæti orðið til þess að auka trú landsmanna á því að unnt sé að halda verðlagi tiltölulega stöðugu hérlendis þrátt fyrir brösuga sögu í þeim efnum síðustu áratugina. 

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall