Morgunkorn Íslandsbanka

Uppfærður samanburður á verðbólguspám Seðlabankans og Greiningar ÍSB

07.02.2018

Vegna ábendingar um samanburð á verðbólguspám

Í Korni okkar í morgun voru bornar saman verðbólguspá Greiningar og ný verðbólguspá Seðlabankans. Okkur barst ábending um að í spá Seðlabankans væri gert ráð fyrir lækkun efra þreps VSK um næstu áramót. Sú forsenda er ekki lögð til grundvallar í okkar spá, enda liggur ekki fyrir hvort núverandi ríkisstjórn hyggst ráðast í þá skattalækkun um komandi áramót. Því er spá Seðlabankans um verðbólgu án áhrifa óbeinna skatta betur fallin til samanburðar við okkar spá en meginspá bankans, sér í lagi fyrir árið 2019. Miðað við fyrrnefndu spána mun verðbólga verða að jafnaði 2,7% á árinu 2019, en við gerum ráð fyrir 2,8% verðbólgu að jafnaði það ár.

Óbreyttir stýrivextir enn um sinn 

Stýrivextir Seðlabankans verða óbreyttir í 4,25% eftir fyrstu vaxtaákvörðun ársins, sem kynnt var í morgun. Peningastefnunefnd bankans virðist almennt sátt við aðhald peningamála og aðstæður í hagkerfinu, og raunar gætu stýrivextir orðið óbreyttir enn um hríð. Bankinn spáir mjúkri lendingu hagkerfisins og telur að það muni verða í allgóðu jafnvægi út áratuginn á helstu mælikvarða. Helst snúa áhyggjur nefndarinnar, sem oft áður, að komandi kjarasamningum og óvissu um aðhald opinberra fjármála.

Þótt vaxtaákvörðunin hafi verið í samræmi við birtar spár virðist sem tiltölulega mildur tónn peningastefnunefndarinnar hafi komið ýmsum á óvart. Krafa ríkisbréfa hefur lækkað  um 9 – 16 punkta frá opnun skuldabréfamarkaðar þegar þetta er ritað (kl.11) sem bendir til þess að á markaði sé talið ólíklegra en áður að stýrivextir hækki í bráð.

Seðlabankamenn sáttir við stöðuna?

Framvirka leiðsögnin í yfirlýsingu Peningastefnunefndar nú í morgun er hlutlaus. Síðasta málsgrein yfirlýsingarinnar hljóðar þannig:

Hátt raungengi hefur hægt á vexti útflutnings og horfur eru á minnkandi spennu í þjóðarbúskapnum. Eigi að síður er áfram þörf fyrir peningalegt aðhald til að halda aftur af örum vexti innlendrar eftirspurnar, m.a. í ljósi þess að horfur eru á minna aðhaldi í opinberum fjármálum en áður var gert ráð fyrir. Þá ríkir enn óvissa um niðurstöðu kjarasamninga.

Í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar í desember síðastliðnum mátti hins vegar greina heldur harðari tón en verið hafði lengst af síðasta ári. Var þar talað um að meira aðhald þyrfti en ella, ef slakað yrði á aðhaldi í ríkisfjármálum á þessu ári frá fyrri áætlunum. Má því segja að verið sé að hverfa frá þeim tóni að nýju.

Yfirlýsingin nú er einnig tiltölulega stuttorð í ljósi þess að bankinn er að birta nýja þjóðhags- og verðbólguspá. Það gæti bent til þess að nefndinni þyki ekki margt hafa breyst hvað horfur varðar, né sérstök þörf á að benda á nýja óvissu- eða áhrifaþætti. 

Á móti meiri slaka í opinberum fjármálum vegur að mati Seðlabankans að hagvöxtur mun væntanlega reynast hægari árin 2017-2018 en áður var spáð og framleiðslupenna minni. Auk hægari vaxtar koma þar til áhrif af hraðari fjölgun fólks á vinnualdri en áður var talið.

Mjúk lending í kortum Seðlabankans

Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er áætlað að hagvöxtur í fyrra hafi verið 3,4%, og spáð 3,2% hagvexti í ár en 3,0% hagvexti árið 2019. Sambærilegar tölur úr síðustu þjóðhagsspá, sem birt var í nóvember síðastliðnum, eru 3,7% árið 2017, 3,4% árið 2018 og 2,5% árið 2019. Ástæðan fyrir hægari vexti 2017-2018 í nýju spánni er að stórum hluta minni vöxtur útflutnings 2017 og hraðari vöxtur innflutnings 2018. Á móti vegur að nú er spáð meiri vexti samneyslu á spátímanum og vexti fjárfestingar árið 2018 en áður. Í stórum dráttum má segja að þessi þróun sé í svipuðum dúr og sú mynd sem dregin var upp í nýlegri þjóðhagsspá okkar. Þar spáum við 2,3% hagvexti hvort ár 2018-2019 eftir 4,1% hagvöxt á síðasta ári. Þessi þróun lýsir að okkar mati tiltölulega mjúkri lendingu hagkerfisins, og virðist Seðlabankinn deila þeirri skoðun miðað við hina nýju spá.

Viðskiptaafgangur fer minnkandi samkvæmt spá Seðlabankans. Áætlar hann að afgangurinn hafi numið 3,5% af VLF í fyrra en verið 1,9% af VLF í ár og 1,5% af VLF á næsta ári. Þessi þróun eru í takti við spá okkar, þar sem áætlað er að áhrif af háu raungengi haldi áfram að ýta undir innflutning og draga úr útflutningsvexti.

Ágætar verðbólguhorfur samkvæmt Seðlabanka

Ný verðbólguspá Seðlabankans er á svipuðum nótum og síðasta spá hans. Spáir bankinn nú 2,6% verðbólgu að jafnaði í ár, en 2,2% verðbólgu á næsta ári. Er það nokkuð annar taktur en við spáðum í þjóðhagsspá okkar, en þar er gert ráð fyrir 2,3% verðbólgu í ár og 2,8% verðbólgu á næsta ári. Sé hins vegar litið til spár Seðlabankans um verðbólgu án áhrifa óbeinna skatta eru meiri líkindi með spánum, enda hljóðar sú spá upp á 2,5% verðbólgu í ár og 2,7% verðbólgu árið 2019. Eðlilegra er að bera spá okkar fyrir 2019 saman við síðarnefndu spána, þar sem meginspá Seðlabankans gerir ráð fyrir lækkun á efra þrepi VSK um næstu áramót ólíkt okkar spá. Líkt og Seðlabankinn gerum við þó í stórum dráttum ráð fyrir því að verðbólga verði í næsta nágrenni við verðbólgumarkmiðið út áratuginn.

 

Þótt verðbólga hafi aukist nokkuð í janúar hefur peningastefnunefndin ekki af því verulegar áhyggjur miðað við yfirlýsinguna nú. Vísar hún til þess að verðbólguhorfur og verðbólguvæntingar eru í samræmi við verðbólgumarkmiðið, og bendir á að dregið hafi úr verðhækkun húsnæðis á sama tíma og áhrif hærra gengis á verðlag fara dvínandi. Almennt má því segja að nefndin virðist nokkuð sátt við núverandi aðhald peningamála. Ekkert bendir því sérstaklega til þess að stýrivöxtum verði breytt næsta kastið, en líkt og kom fram í stýrivaxtaspá okkar í liðinni viku eru líkur á því að aðstæður gætu skapast fyrir einhverja lækkun vaxta þegar lengra líður á árið.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall