Morgunkorn Íslandsbanka

Lítils háttar undirliggjandi viðskiptaafgangur

03.09.2013

nullAfgangur var af undirliggjandi viðskiptajöfnuði við útlönd á öðrum ársfjórðungi, og er það í fyrsta skipti frá árinu 2009 sem afgangur mælist á þessum árstíma. Undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins virðist viðráðanleg, þótt hún sé vissulega við efri mörk þess sem getur talist sjálfbær staða. Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýbirtum tölum Seðlabankans yfir greiðslujöfnuð við útlönd á 2. ársfjórðungi og erlenda stöðu þjóðarbúsins um mitt ár.

Undirliggjandi viðskiptajöfnuður var hagstæður um 0,5 ma.kr. á 2. ársfjórðungi. Er það breyting til hins verra frá 2. fjórðungi, þegar undirliggjandi afgangur var 15,4 ma.kr., en hins vegar töluvert jákvæðari niðurstaða en á sama fjórðungi í fyrra, en þá mældist 22,6 ma.kr. undirliggjandi halli á viðskiptajöfnuði. Með undirliggjandi viðskiptajöfnuði er hér átt við viðskiptajöfnuð að undanskildum reiknuðum þáttatekjum og –gjöldum gömlu bankanna, en þar er um að ræða stærðir að mestu verða afskrifaðar við uppgjör þeirra. Stærðin er mikilvæg þar sem hún segir m.a. til um jafnvægið í gjaldeyrisflæðinu sem markar gengisþróun krónunnar á hverjum tíma.

Afganginn á 2. fjórðungi má þakka 20,1 ma.kr. afgangi af þjónustujöfnuði, sem að verulegu leyti á rætur að rekja til jákvæðrar þróunar í ferðaþjónustu. 2,2 ma.kr. halli var á vöruskiptajöfnuði á fjórðungnum og 17,4 ma.kr. halli var á undirliggjandi þáttatekjujöfnuði.

Útlitið betra en í fyrra

Það sem af er ári nemur undirliggjandi viðskiptaafgangur 16 mö.kr., tæplega 1% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) ársins. Spá Seðlabankans frá ágúst gerir ráð fyrir að afgangurinn muni nema 2,6% af VLF (u.þ.b. 46 mö.kr.) á árinu í heild. Sú spá virðist nokkuð nærri lagi. Búast má við talsverðum undirliggjandi afgangi á 3. ársfjórðungi. Þjónustujöfnuður á væntanlega eftir að skila myndarlegum afgangi vegna mikils vaxtar í ferðaþjónustu, útlitið fyrir vöruskipti er betra en á raunin var á 2. ársfjórðungi, auk þess sem undirliggjandi þáttatekjuhalli er jafnan með minnsta móti á 3. ársfjórðungi. Í fyrra mældist raunar 50,6 ma.kr. afgangur af undirliggjandi jöfnuði á 3. ársfjórðungi, en á árinu í heild nam afgangurinn 6,2 mö.kr.

Undirliggjandi erlend staða svipuð og 2004

Seðlabankinn birti einnig tölur um erlenda stöðu þjóðarbúsins og undirliggjandi erlenda stöðu í lok júní síðastliðins. Þar kemur fram að erlend staða þjóðarbúsins að gömlu bönkunum meðtöldum er enn neikvæð sem nemur 7.885 mö.kr., sem jafngildir 458% af áætlaðri VLF ársins.

Sú tala gefur hins vegar ekki raunhæfa mynd af undirliggjandi erlendri stöðu, þar sem stærstur hluti skulda gömlu bankanna verður afskrifaður við uppgjör þeirra. Að gömlu bönkunum undanskildum var hrein erlend staða þjóðarbúsins í júnílok neikvæð sem nemur 464 mö.kr., eða 27% af VLF. Hins vegar á uppgjör gömlu bankanna og annarra þrotabúa eftir að breyta þeirri mynd talsvert, og metur Seðlabankinn það svo að uppgjör gömlu bankanna muni rýra erlenda stöðu þjóðarbúsins sem nemur 43% af VLF (u.þ.b. 740 ma.kr.), en uppgjör annarra þrotabúa bæti stöðuna um 5% af VLF.

Undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins var samkvæmt því neikvæð í júnílok sem nemur 65% af VLF, eða u.þ.b. 1.120 mö.kr. Seðlabankinn tekur þó fram að talsverð óvissa ríki um endanlega útkomu úr uppgjöri þrotabúanna. Til samanburðar má nefna að hrein erlend staða þjóðarbúsins var neikvæð um 66% af VLR í árslok 2004, en síðan seig allhratt á ógæfuhliðina fram að hruni 2008.

Undirliggjandi myndin er því þannig, líkt og við síðustu birtingu þessara talna, að erlend staða þjóðarbúsins virðist viðráðanleg þótt hún sé nokkuð snúin. Oft er miðað við neikvæða hreina erlenda stöðu upp á 60% af VLF sem neðri mörk fyrir sjálfbæra erlenda stöðu þjóðarbúsins á alþjóðavísu. Er þar horft til þess að hreinar vaxtagreiðslur verði ekki hærri en sem nemur hagvexti, og skuldir í hlutfalli við landsframleiðslu vaxi þá ekki til lengri tíma litið.

Í fjölbreytilegum hópi skuldugra ríkja

nullHá neikvæð erlend staða getur vissulega verið veikleikamerki og fer oft saman við erfiðleika í efnahagslífi viðkomandi hagkerfis. Það er þó ekki einhlítt, og þannig eru lítil, opin hagkerfi þar sem erlend fjárfesting hefur verið mikil á stundum með hátt hlutfall hreinna erlendra skulda án þess að það sé sérstakt vandamál.

Af löndum með háa neikvæða erlenda stöðu um síðustu áramót má nefna ríki í vandræðum á borð við Grikkland (115% af VLF), Írland (108% af VLF) og Spán (91% af VLF). Hins vegar eru Eystrasaltsríkin þrjú með áþekka stöðu og Ísland hvað þetta varðar, og ýmis A-Evrópuríki hafa lakari erlenda stöðu en Ísland án þess að markaðir telji voðann vísan meðal þeirra. Loks má nefna að í Eyjaálfu eru hreinar erlendar skuldir álíka miklar í hlutfalli við VLF og á Íslandi, og á það jafnt við um Ástralíu og Nýja Sjáland. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall