Morgunkorn Íslandsbanka

Peningastefnunefndin taldi rök fyrir lækkun stýrivaxta

16.10.2014

Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra um óbreytta stýrivexti á síðasta fundi peningastefnunefndar sem var 30. september sl. samkvæmt fundargerð sem birt var í gær. Kemur það ekki á óvart, en við ásamt öðrum sem spá opinberlega fyrir um aðgerðir nefndarinnar í peningamálum reiknuðum með óbreyttum stýrivöxtum. Hafa stýrivextir bankans nú verið óbreyttir síðan í nóvember 2012 og hefur verið full samstaða um óbreytta vexti innan nefndarinnar síðan í febrúar á þessu ári, en þá kaus einn meðlimur nefndarinnar á móti tillögu seðlabankastjóra og vildi að stýrivextir bankans yrðu hækkaðir um 0,25 prósentur.   

Tíðindin eru í mildari tón

Öllu mildari tón má greina í fundargerðinni en í yfirlýsingu peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar. Samkvæmt fundargerðinni voru að mati nefndarinnar bæði rök fyrir því að halda vöxtum óbreyttum að þessu sinni og lækka þá.  Er það nýtt að nefndin telji rök fyrir lækkun vaxta, en síðast þegar peningastefnunefndin taldi rök fyrir lækkun var í mars á þessu ári eftir nokkuð hraða hjöðnun verðbólgunnar. Bakkaði nefndin með þann tón strax á næsta fundi sínum sem var í maí, og var þá kominn harðari tónn þar sem nefndin taldi bæði rök fyrir að halda vöxtum óbreyttum og hækka þá. Sami tónn var í fundarmönnum í júní, en í ágúst var ekki annað rætt en óbreyttir vextir.

Rökin fyrir lækkun vaxta nokkur

Helstu rök sem nefndin nefndi fyrir lækkun vaxta nú eru að aðhald peningastefnunnar hefði aukist meira en áður var búist við samfara hraðari hjöðnun verðbólgu. Einnig væru horfur á hagstæðari verðbólguþróun á næstu mánuðum en spáð var í ágúst. Núverandi vextir gætu því verið of háir. Jafnframt benti nefndin á að verðbólguvæntingar hefðu þokast nær markmiði að undanförnu þótt nefndin væri sammála um að það væri áfram áhyggjuefni að þær væru nokkuð yfir verðbólgumarkmiði bankans.

Mun vega þungt í næstu vaxtaákvörðunum

Í ljósi þess að við spáum því að verðbólgan muni lækka frekar á næstunni, raunstýrivextir hækka og aðhaldsstig peningastefnunnar aukast á þann mælikvarða teljum við að rök fyrir lækkun vaxta munu vega allþungt í ákvörðun peningastefnunefndarinnar á næstunni. Næsta vaxtaákvörðun nefndarinnar verður 5. nóvember næstkomandi og samhliða mun bankinn birta nýja verðbólguspá. Teljum við víst að þar komi fram að verðbólguþróunin undanfarið hafi verið hagfelldari en bankinn spáði í sinni síðustu spá í ágúst, og að verðbólguhorfur næstu mánuði hafi batnað frá þeirri spá. 

Spáum óbreyttum stýrivöxtum fram yfir mitt næsta ár

Í fundargerð síðasta fundar peningastefnunefndar kemur fram það mat að verðbólguvæntingar væru yfir markmiði og að þar væru enn rök fyrir að halda vöxtum óbreyttum þrátt fyrir hjöðnun mældrar verðbólgu. Að sama skapi töldu nefndarmenn að kröftugur vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum og vaxandi spenna á vinnumarkaði gæti leitt til aukins verðbólguþrýstings og orðið til þess að hækka þyrfti nafnvexti bankans. Framundan eru kjarasamningar og tímabil þar sem framleiðsluslakinn hverfur úr hagkerfinu, þ.e. ef hagspá okkar og Seðlabankans reynast réttar. Í þessu ljósi teljum við mestar líkur á því að nefndin haldi vöxtum bankans óbreyttum fram á næsta ár. Spáum við að næsta breyting stýrivaxta verði til hækkunar og að sú hækkun komi á seinni helmingi næsta árs. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall