Morgunkorn Íslandsbanka

Áfram mikil bjartsýni

29.06.2016

Lítil breyting varð á Væntingavísitölu Gallup (VVG) á milli mánaða nú í júní og mælist vísitalan nú 135,7 sig, eða 0,1 stigi hærri en hún mældist í maí sl. Eru Íslendingar þar með áfram bjartsýnir á stöðu og horfur í efnahagslífinu, og hefur gildi vísitölunnar aðeins í 5% tilvika frá upphafi mælinga hennar (mars 2001) mælst hærra. Þetta má sjá í fréttatilkynningu sem Gallup birti í gær um Væntingavísitölu sína.

Allar undirvísitölur vel yfir 100 stigunum

Aðeins mismunandi þróun er á milli undirvísitalna VVG á milli maí og júní, en tvær þeirra hækka og tvær lækka. Mesta breytingin er á vísitölunni fyrir mati á núverandi ástandi sem hækkar um 6,2 stig og mælist nú 147,1 stig. Einnig er nokkur breyting á vístölunni um væntingar til næstu 6 mánaða, en hún lækkar á hinn bóginn um 4,0 stig og mælist 128,1 stig. Fjórða mánuðinn í röð er vísitalan fyrir mat á núverandi ástandi hærri en vísitalan sem mælir 6 mánaða væntingar. Spurningin sem Gallup notar til að mæla væntingarnar tekur mið af mati á núverandi ástandi, en spurt er hvort svarandinn telji að aðstæður í efnahagslífinu muni verða betri, óbreyttar eða verri en þær eru í dag. Er því eðlilegt að þegar talsverður meirihluti neytenda er á því að aðstæður séu almennt góðar séu að sama skapi heldur færri en ella sem telja að þær muni batna enn frekar. Minni breytingar er á hinum tveimur undirvísitölunum, en vísitalan fyrir mat á efnahagslífinu hækkar um 2,8 stig og mælist 138,0 stig og vísitalan fyrir mat á atvinnuástandi lækkar um 0,4 stig og mælist 140,7 stig. Eins og sjá má þá eru allar undirvísitölunnar vel yfir 100 stigunum en þær eru jafnframt langt yfir sínu langtíma meðaltali.

Stórkaupavísitalan hækkar

Samhliða VVG birti Gallup einnig niðurstöður úr ársfjórðungslegum mælingum sínum á fyrirhuguðum stórkaupum neytenda. Sú vísitala hækkar um 3,2 stig nú á öðrum ársfjórðungi á milli mælinga og mælist 66,5 stig. 

Undirvísitölur stórkaupavísitölunnar, sem eru þrjár talsins, þróuðust með aðeins mismunandi hætti á milli mælinga. Má hér fyrst nefna vísitöluna fyrir bifreiðakaup sem hækkaði um 3,3 stig og mælist nú 29,7 stig, sem er talsvert yfir langtímameðaltali hennar (24,5 stig). Rímar sú þróun ágætlega við fregnir af þeirri aukningu sem er í sölu á nýjum fólksbílum þessa dagana. Vísitalan fyrir fyrirhugaðar utanlandsferðir hækkaði um 7 stig á milli mælinga, og mælist hún nú 162,6 stig sem einnig er talsvert yfir langtímameðaltali hennar (145 stig). Rímar það einnig við tölur um brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll, sem sýna verulega fjölgun á utanlandsferðum Íslendinga. 

Að lokum má nefna vísitöluna fyrir húsnæðiskaup, en öfugt við hinar tvær þá lækkaði hún á milli mælinga um 0,8 stig. Sú vísitala mælist nú 7,1 stig, sem er talsvert undir langtímameðaltali hennar (9,5 stig), en í samræmi við meðaltal síðustu ára. Allt frá seinni hluta ársins 2008 hefur vísitalan fyrir húsnæðiskaup verið talsvert lægri að jafnaði en hún var á góðæristímanum 2003-2007. Virðist því sem landsmenn fari hægar í sakirnar nú varðandi húsnæðiskaup en fyrir áratug síðan þrátt fyrir batnandi hag. Gæti þar komið til takmarkaðri aðgangur að lánsfé en þá var, og einnig að neytendur séu reynslunni ríkari þegar kemur að mikilli skuldsetningu vegna íbúðakaupa. 

Bætir í vöxt einkaneyslu

Þróun VVG gefur tilefni til að ætla að einkaneysluvöxtur sé á verulegu flugi þessa dagana, en fylgni vísitölunnar við þróun einkaneyslu hefur sögulega verið talsverð. Rímar mælingin nú, líkt og undanfarnar mælingar, því vel við aðrar hagstærðir er gefa tóninn varðandi þróun einkaneyslu. Við teljum jafnframt allt benda til þess að einkaneysluvöxtur á 2. ársfjórðungi verði enn meiri en sá 7,1% vöxtur sem mældist á 1. ársfjórðungi skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Er sú þróunin í takti við þann tón sem við slógum í þjóðhagsspá okkar sem birt var í byrjun þessa mánaðar, þar sem við reiknum með að verulega bæti í einkaneysluvöxt í ár frá síðasta ári og að hann verði 7,8% samanborið við 4,8% í fyrra skv. bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall