Morgunkorn Íslandsbanka

Óbreyttir stýrivextir og heldur meiri haukatónn

13.12.2017

Auknar áhyggjur peningastefnunefndar Seðlabankans af aðhaldi ríkisfjármála á komandi árum og meiri vöxtur innlendrar eftirspurnar en vænst var eru tvær af ástæðum þess að nefndin ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum að sinni. Dregið hefur úr líkum á því að vextirnir verði lækkaðir á allra næstu mánuðum.

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í desember samkvæmt nýbirtri yfirlýsingu. Vextir á 7 daga bundnum innlánum (meginvextir bankans) verða því áfram 4,25%. Framsýn leiðsögn er hlutlaus líkt og verið hefur við undarfarnar vaxtaákvarðanir.

Meiri hagvöxtur í ár en Seðlabankinn spáði

Hagvöxtur verður meiri á yfirstandandi ári en Seðlabankinn spáði í nóvember síðastliðnum að mati peningastefnunefndar. Er þar vísað til nýlega birtra þjóðhagsreikninga Hagstofunnar, sem við höfðum reyndar talið ríma í stórum dráttum við nóvemberspá Seðlabankans. Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina sagði Már Guðmundsson að aukin umsvif opinbera geirans, bæði samneysla og fjárfesting, ættu þarna töluverðan hlut að máli. Hefði slaki í opinberum fjármálum reynst meiri en áður var talið. Már tók fram á kynningarfundinum að ekki væri eingöngu verið að vísa til ríkisfjármála í þessu tilliti, en auk ríkissjóðs falla útgjöld sveitarfélaga og fyrirtækja sem rekin eru fyrir opinberar álögur undir hið opinbera í tölum Hagstofunnar.

Í yfirlýsingunni er bent á að verðbólga hafi verið á bilinu 1,5% - 2,0% um nokkurt skeið, og verðbólguvæntingar séu áfram í samræmi við verðbólgumarkmiðið. Hægari hækkun íbúðaverðs stuðli að minni verðbólgu, en á móti fjari áhrif sterkara gengis krónu fyrr á árinu út. Gjaldeyrismarkaðurinn sé hins vegar í góðu jafnvægi og gengishreyfingar krónu hafi verið litlar frá síðustu vaxtaákvörðun.

Aðhald ríkisfjármála ofarlega á baugi hjá nefndinni

Ljóst er að peningastefnunefndin telur aðhald opinberra fjármála vera einn af megin óvissuþáttum um vaxtaþróun um þessar mundir. Framsýna leiðsögnin í yfirlýsingu nefndarinnar nú hljóðar svo:

Horfur eru á að spenna í þjóðarbúskapnum verði áfram umtalsverð. Það kallar á peningalegt aðhald og meira en ella, slakni á aðhaldi í ríkisfjármálum á næsta ári miðað við það sem gert var ráð fyrir í nóvember. Peningastefnan mun á komandi misserum ráðast af framvindu efnahagsmála, þ.m.t. stefnunni í opinberum fjármálum og niðurstöðu kjarasamninga.

Feitletraði hlutinn er það sem helst má telja til nýmæla í yfirlýsingunni. Frumvarp til fjárlaga verður birt síðdegis á morgun, og verður fróðlegt að bera það saman við frumvarpið sem fyrri ríkisstjórn lagði fram á haustdögum. Ýmsir hafa á síðustu dögum viðrað áhyggjur af því að hið nýja frumvarp muni fela í sér minni afgang af fjárlögum en fyrra frumvarp, og langtímaáætlun um opinber fjármál muni reynast á svipuðum nótum. Ef þetta verður raunin mun það vafalítið leggjast illa í peningastefnunefnd við næstu vaxtaákvarðanir.

Minni líkur á vaxtalækkun á næstunni

Af þeim tóni sem sleginn er í yfirlýsingu peningastefnu- nefndar og kynningarfundi í kjölfarið teljum við líkur hafa minnkað á lækkun vaxta á komandi ársfjórðungum. Það sem helst gæti orðið til þess að stýrivextir lækkuðu til skemmri tíma litið væri annars vegar frekari kólnun á íbúðamarkaði með lítilli eða engri hækkun verðs á komandi mánuðum, og hins vegar ef krónan færi aftur í styrkingarham. Að þessu tvennu slepptu virðist peningastefnunefnd fremur ólíkleg til þess að lækka vexti frekar næsta kastið. Óhagfellt samspil minna aðhalds í opinberum fjármálum, aukins óróa á vinnumarkaði og/eða veikingar krónu gæti á hinn bóginn orðið til þess að stýrivextir hækkuðu á komandi misserum. Við teljum þó enn sem komið er minni líkur en meiri á að síðarnefnda sviðsmyndin raungerist.

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall