Morgunkorn Íslandsbanka

Verðbólga sjónarmun undir markmiði Seðlabankans

29.01.2018

 

Óvæntur fjörkippur í íbúðaverði er ein helsta ástæða þess að mæld verðbólga jókst töluvert í janúar.  Verðbólgan mælist nú 2,4% og hefur ekki verið meiri síðan í júlí 2014. Að vanda vógust á útsöluáhrif og áhrif af hækkun gjaldskráa um áramót í janúartölunum. Útlit er fyrir að verðbólga verði áfram við 2,5% markmið Seðlabankans næstu mánuði.

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,09% í janúar skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,4% en var 1,9% í desember. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um 0,57% í janúar og miðað við þá vísitölu mælist 0,9% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Það dregur því áfram saman með verðbólgumælikvörðunum með eða án húsnæðis.

Mæling janúarmánaðar er yfir öllum birtum spám.  Við spáðum 0,6% lækkun VNV milli mánaða. Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur í óvæntri hækkun reiknaðrar húsaleigu, sem endurspeglar íbúðaverð að mestu. Einnig lækkaði ferða- og flutningaliður VNV minna en við spáðum.

Fjörkippur á íbúðamarkaði?

Húsnæðisliður VNV vó þungt til hækkunar hennar í janúar. Liðurinn í heild hækkaði um 1,1% (0,38% hækkunaráhrif í VNV). Mest munar um 0,9% hækkun reiknaðrar húsaleigu (0,19% í VNV) en sá liður byggir að mestu á þróun íbúðaverðs. Greidd húsaleiga hækkaði einnig um 0,9% (0,05% í VNV). Þá hækkuðu veitugjöld um 1,8% (0,07% í VNV) og annað vegna húsnæðis um 4,8% (0,07% í VNV). 

Undirvísitölur Hagstofunnar fyrir markaðsverð íbúðarhúsnæðis sýna býsna ólíka þróun eftir tegund og staðsetningu húsnæðis. Til að mynda lækkaði verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 2,0% á milli mánaða, en verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæði hækkaði hins vegar um 0,6%. Mestu munaði þó um verð á landsbyggðinni sem hækkaði um 5,4% á milli mánaða og hefur ekki hækkað meira í nærri 5 ár. Þessar tölur lýsa þó að stórum hluta flökti milli mánaðarmælinga, og eru í reynd spegilmynd af desembertölum Hagstofunnar. Þar hækkaði verð á sérbýlum á höfuðborgarsvæði um 1,2% á meðan verð fjölbýla á höfuðborgarsvæði lækkaði um 1,3% og verð á landsbyggðinni lækkaði um 3,2%. Flökt í þessum tölum er því mikið þessa dagana, sem gerir túlkun þeirra snúna.

Samkvæmt tölum Hagstofu hækkaði íbúðaverð á landinu um 14,5% undanfarna 12 mánuði. Hefur dregið nokkuð úr árshækkunartaktinum frá síðastliðnu sumri, þegar hann fór hæst í ríflega 24%. Enn er þó um að ræða býsna hraða hækkun íbúðaverðs á þennan kvarða, en líklegt er að talsvert hægi á árshækkuninni á komandi mánuðum þegar stórir hækkunarmánuðir frá síðasta ári hverfa úr 12 mánaða taktinum.

Útsölur og flug vega gegn mat, drykk og eldsneyti í VNV

Að húsnæðisliðnum slepptum vó 3,6% hækkun eldsneytisverðs einna þyngst (0,07%) til hækkunar VNV í janúar. Hækkunin var að stórum hluta vegna hækkunar krónutölugjalda á eldsneyti, en einnig hefur heimsmarkaðsverð á olíu og tengdum afurðum farið hækkandi undanfarna mánuði.

Þá var nokkru dýrara að neyta matar og drykkjar í janúar en í mánuðinum á undan miðað við tölur Hagstofu. Þannig vó hækkun á matvöruverði til 0,06% hækkunar VNV, hækkun á áfengum drykkjum til 0,02% hækkunar og verðhækkun hjá veitingahúsum og mötuneytum til 0,02% hækkunar VNV milli mánaða.
 
Útsölur settu á hinn bóginn mark sitt til lækkunar á janúartölurnar eins og jafnan í upphafi árs. Til að mynda lækkaði verð á fötum og skóm um 10,0% (-0,35% í VNV) og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 5,9% (-0,23% í VNV). Er það svipuð lækkun og var á þessum liðum fyrir ári. Þá lækkuðu sjónvörp, tölvubúnaður og slík tæki um 3,6% (-0,04% í VNV) í janúarmánuði. Lækkun þessara liða verður þó væntanlega skammgóður vermir sem gengur til baka á komandi mánuðum við útsölulok.

Einnig lækkuðu flugfargjöld nú í janúar líkt og oft áður eftir jólavertíð ferðaþjónustunnar. Lækkunin nam 8,5% (-0,11% í VNV) og var hún öllu minni en könnun okkar hafði gefið til kynna.

Verðbólga líklega áfram við markmið

Útlit er fyrir að verðbólga verði áfram við verðbólgumarkmið Seðlabankans næstu mánuðina. Við spáum 0,7% hækkun í febrúar nk.,0,4% hækkun í mars og 0,3% hækkun VNV í apríl. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,5% í apríl næstkomandi.

Húsnæðisliðurinn mun væntanlega ráða miklu um þróun verðbólgu til skemmri tíma litið. Ef íbúðaverð hækkar lítið eða ekki á komandi mánuðum mun það skila minni verðbólgu en við gerum ráð fyrir. Á hinn bóginn er enn talsverður kostnaðarþrýstingur til staðar hjá innlendum framleiðendum, í smásöluverslun og í þjónustu. Þá hefur eldsneytisverð erlendis hækkað talsvert síðustu mánuði og ekki er útséð um hversu mikil heildaráhrif af þeirri hækkun verða hér á landi. Samspil þessara liða ræður að okkar mati hvað mestu um hvort við náum að sigla inn í fimmta ár verðbólgu undir markmiði á komandi mánuðum, eða hvort nú sér fyrir endann á því tímabili.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall