Morgunkorn Íslandsbanka

Svartsýni neytenda eykst að nýju

29.10.2013

nullÍslenskir neytendur eru almennt fremur svartsýnir á stöðu og horfur í efnahagslífinu. Svartsýni jókst að nýju í október eftir að brúnin lyftist nokkuð á landanum í septembermánuði. Þetta sýnir nýbirt mæling Væntingavísitölu Gallup (VVG) fyrir októbermánuð. Vísitalan mælist nú 67,5 stig, lækkar um rúmlega 6 stig frá septembermánuði og mælist nú 10,5 stigum lægri en fyrir ári síðan. Þetta er raunar næstlægsta mæling VVG frá því í mars 2012. Lækkun vísitölunnar í októbermánuði virðist raunar vera árviss undanfarin 4 ár.

Allar undirvísitölur VVG lækkuðu í októbermánuði. Mest lækkaði mat neytenda á efnahagsástandinu. Fór sú undirvísitala niður um 11 stig, er nú 44,7 stig og hefur ekki verið lægri frá ágústmánuði 2012. Þá vekur einnig athygli að vísitala fyrir væntingar til 6 mánaða lækkar um 5,2 stig og mælist nú 91,5 stig. Er þetta þriðji mánuðurinn í röð sem sú vísitala mælist undir 100 stigum, sem þýðir að meirihluti svarenda telur að ástandið í efnahags- og atvinnumálum verði verra eftir hálft ár en það er nú. Þetta er auk þess næstlægsta gildi 6 mánaða vísitölunnar frá nóvember í fyrra.

Fjárlagasveifla í væntingum?

null  Frá árinu 2010 hefur VVG ávallt lækkað í októbermánuði frá mánuðinum á undan. Fyrir hrun var þetta mynstur hins vegar ekki til staðar. Kann að vera að októberlækkunin síðustu ár tengist því að haustþing tekur til starfa. Umræðan í fjölmiðlum á fyrstu vikum þings hefur frá hruni ekki síst snúist um aðhaldssöm fjárlagafrumvörp, niðurskurð í opinberri þjónustu, fjárskort í heilbrigðiskerfinu og fleira af því tagi, sem varla er til þess fallið að létta á mönnum brúnina. Tvö af þremur undanförnum árum hefur VVG svo raunar hækkað að nýju í nóvember og verður fróðlegt að sjá hvort sú verður einnig raunin nú.

Konur nær ávallt svartsýnni en karlar

 nullAthyglisvert er að skoða VVG sundurgreint eftir kyni svarenda. Nú liggja fyrir 152 mælingar á vísitölunni, en henni var hleypt af stokkunum í mars árið 2001. Á þessum tíma er einungis að finna sex mánuði þar sem væntingar kvenna hafa mælst hærri en væntingar karla. Af þessum sex mælingum eru fimm frá tímabilinu milli september 2010 og september 2011. Á þessu tímabili var atvinnuástandið töluvert verra hjá körlum en konum, enda mikill samdráttur í greinum á borð við byggingariðnað, og er það líkleg skýring á þessum tímabundna viðsnúningi.

Munurinn á kynjunum er raunar með mesta móti þessa dagana. Var hann 35 stig í október og 37 stig í september, og í síðasta mánuði hafði munurinn raunar ekki verið meiri síðan í maí árið 2004. VVG fyrir konur mælist nú 49,4 stig og hefur gildið ekki verið lægra síðan í ágúst árið 2011. Engin augljós skýring virðist á þessum mikla mun milli karla og kvenna þessa dagana, þótt atvinnuleysi kvenna sé raunar nokkru meira en atvinnuleysi karla nú um stundir. Þá væri það verðugt verkefni fyrir sérfræðinga í félagsvísindum að grafast fyrir um orsakir þess að konur virðast kerfisbundið hafa minni væntingar um efnahags- og atvinnulífið en karlar, þótt við látum hjá líða að gera slíkt mat að þessu sinni.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall