Morgunkorn Íslandsbanka

Væntingar neytenda glæðast

25.02.2014

nullVæntingavísitala Gallup (VVG) hækkaði um tæp 8 stig á milli janúar og febrúar, og mælist hún nú 85,9 stig. Er þetta hæsta gildi vísitölunnar frá því í júní í fyrra, og er vísitalan jafnframt aðeins hærri en hún var í febrúar fyrir ári þegar hún mældist 80,7 stig. Er hér um jákvæða þróun að ræða, en þó er enn nokkuð í land með að hægt sé að segja að íslenskir neytendur geti talist bjartsýnir á ástandið í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar enda þarf VVG að mælast yfir 100 stigin til að svo megi fullyrða. Þetta má sjá í VVG fyrir febrúarmánuð sem Capacent Gallup birti nú í morgun.

... og krónan styrkist

Fyrir hrun var allsterk fylgni milli gengishreyfinga krónu og Væntingavísitölunnar. Fylgnin dofnaði nokkuð í kjölfar hrunsins en þó virðist hún enn vera talsverð. Hækkun vísitölunnar nú gæti því tengst styrkingu krónunnar frá nóvember síðastliðnum, en krónan var að jafnaði rúmlega 5% sterkari gagnvart evru á mælingartímanum en hún var í nóvember. Styrkingu krónu fylgja betri verðbólguhorfur og aukinn kaupmáttur á erlendri grundu, og því rökrétt að ætla að slík þróun létti talsvert brúnina á landsmönnum, sér í lagi þegar hún á sér stað í skammdeginu sem undanfarin ár hefur verið krónunni erfiður tími.

Væntingar um betri tíð

nullAllar undirvísitölur VVG hækka á milli mælinga í janúar og febrúar, að mati á efnahagslífinu undanskildu. Sú vísitala lækkar um tæp 6 stig á milli mánaða og mælist nú 64,4 stig. Mest hækkar mat neytenda á atvinnuástandinu, eða um tæp 15 stig. Mælist sú vísitala nú 92,8 stig sem er hæsta gildi hennar frá því í júní í fyrra. Einnig er ágætis hækkun á vísitölunni sem mælir væntingar neytenda til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði, en sú vísitala hækkar um rúm 12 stig og mælist nú 118,7 stig. Þetta er þriðji mánuðinn í röð sem þessi undirvísitala mælist yfir 100 stig, en í því felst að flestir svarendur telja að ástandið í atvinnu- og efnahagsmálum verði betra að hálfu ári liðnu en það er nú. Vísitalan sem mælir mat á núverandi ástandi hækkar lítillega, eða um 1 stig á milli mánaða, og stendur nú í 36,9 stigum. Til gamans má geta að fyrir hrun þá töldu neytendur núverandi ástand svo gott að það myndi varla batna upp frá þessu. Þannig var gildi vísitölunnar sem mælir mat neytenda á núverandi ástandi ávallt hærra en gildi vísitölunnar sem mælir mat á væntingum til 6 mánaða frá miðju ári 2004 til snemma árs 2008. Allt frá því í apríl 2008 hefur þessu verið öfugt farið.

Svartsýni eykst hjá þeim tekjulægstu og tekjuhæstu

Skipting svara eftir tekjuhópum er nokkuð athyglisverð nú. Þannig lækkar VVG talsvert bæði hjá þeim nulltekjulægstu, þ.e. hjá þeim svarendum sem hafa tekjur undir 250 þúsund krónum á mánuði, og þeim tekjuhæstu, sem hafa tekjur upp á a.m.k. 550 þúsund á mánuði. Mælist VVG hjá fyrrnefnda hópnum 63,5 stig en 91,6 stig hjá þeim síðarnefnda, og nemur lækkun þessara undirvísitalna 9-10 stigum á milli mánaða. Á hinn bóginn glæðast væntingar talsvert hjá millitekju hópunum, þ.e. þeim sem eru með tekjur á bilinu 250-399 þúsund á mánuði og þeim sem eru með tekjur upp á 400-549 þúsund. Mælist VVG hjá  fyrrnefnda tekjuhópnum 79,9 stig en hjá þeim síðarnefndu 76,6 stig.

Dregur verulega úr svartsýni kvenna

nullÓlík þróun var á væntingum hjá konum og körlum í febrúar. Þannig hækkar VVG hjá konum um tæp 20 stig á milli mánaða en lækkar hjá körlum um tæp 3 stig. Samkvæmt þessu virðist því hafa dregið verulega úr svartsýni kvenna á sama tíma og hún hefur aukist lítillega hjá körlum. Þrátt fyrir þessa þróun er VVG kvenna enn talsvert lægri en VVG karla, eða 80,8  stig á móti 91,9 stigum, en munurinn er þó talsvert minni en hann hefur verið á undanförnum mánuðum. Engu að síður er ljóst að konur er enn nokkuð svartsýnni en karlar þessa dagana sem er síður en svo nýtt á nálinni, enda hefur slíkt verið upp á teningnum í 150 mælingum af 156, eða 96% tilvika frá því farið var að birta VVG. Samkvæmt þessu virðast konur kerfisbundið hafa minni væntingar um efnahags- og atvinnulífið en karlar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall