Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 6. nóvember nk.

30.10.2013

Við spáum því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 6. nóvember næstkomandi. Meginforsendur spárinnar eru að  verðbólgan hefur hjaðnað frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi og hefur verðbólguþróunin verið öllu hagfelldari en Seðlabankinn spáði í sinni nýjustu verðbólguspá. Þá hafa verðbólguvæntingar einnig lækkað. Þessu til viðbótar hefur gengi krónunnar verði nokkuð stöðugt frá síðustu vaxtaákvörðun. Einnig hafa raunstýrivextir bankans hækkað með hjöðnun verðbólgunnar.

Mikill kraftur er hins vegar í vinnumarkaðinum og framleiðnivöxtur lítill, sem eykur verðbólguhættu. Einnig er talsverð óvissa tengd kjarasamningum í vetur. Mun vaxtaákvörðunarnefndin eflaust halda inni þeim sterku varnaðarorðum sem hún var með varðandi kjarasamninga í yfirlýsingu sinni vegna vaxtaákvörðunarinnar í byrjun október síðastliðins. Þar sagði hún að verði launahækkanir í samræmi við spá bankans, sem hljóðar upp á 5,5% á milli ársmeðaltala 2013 og 2014, er líklegt að nafnvextir bankans muni að óbreyttu hækka í framhaldinu, sérstaklega ef slakinn í þjóðarbúskapnum heldur áfram að minnka.  

Verðbólgan hefur hjaðnað

nullVerðbólga hefur hjaðnað úr 3,9% niður í 3,6% frá síðustu vaxtaákvörðun. Í síðustu verðbólguspá  Seðlabankans, sem lögð var fram samhliða vaxtaákvörðuninni í ágúst sl., reiknaði bankinn með því að verðbólgan á fjórða ársfjórðungi þessa árs yrði 4,1%. Horfur eru á því að verðbólgan verði nokkuð lægri en það, en við spáum 3,6% verðbólgu á fjórðungnum.

Í síðustu verðbólguspá Seðlabankans kemur fram að hann telur að verðbólgan muni hjaðna þegar kemur fram á næsta ár. Spáir hann því að verðbólgan verði komin niður í 3,0% undir lok þess árs. Að mati bankans verður verðbólgumarkmiðinu hins vegar ekki náð fyrr en á fyrri hluta árs 2016 líkt og áður sagði. Er þetta nokkuð minni verðbólga en við reiknum með, en við spáum því að verðbólgan verði 3,6% yfir næsta ár og nær 4% yfir árið 2015. Verðbólgumarkmiðinu verður því ekki náð á tímabilinu samkvæmt okkar spá. Þess má geta að kerfislægt hefur Seðlabankinn spáð minni verðbólgu en raunin hefur verið í sínum langtímaverðbólguspám.

Seðlabankinn hefur mælt aðhaldsstig peningastefnunnar út frá raunstýrivöxtum. Samkvæmt Seðlabankanum ættu virkir nafnstýrivextir um þessar mundir að vera nálægt einföldu meðaltali innlánsvaxta Seðlabankans og hámarksvaxta innistæðubréfa. Með óbreyttum stýrivöxtum og hjöðnun verðbólgu frá síðustu vaxtaákvörðun hafa raunstýrivextir hækkað úr 1,5% upp í 1,8%, sé miðað við framangreinda vexti og liðna verðbólgu. Aðhaldsstigið hefur því aukist frá síðasta fundi.

Gengi krónunnar nær óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun

nullGengi krónunnar, miðað við viðskiptavegið meðalgengi á innlendum gjaldeyrismarkaði,  er nú nær hið sama og það var á síðasta fundi peningastefnunefndarinnar í októberbyrjun. Hins vegar er gengi krónunnar lægra nú en miðað var við í nýjustu verðbólguspá Seðlabankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í ágúst sl. Var gengisvísitala krónunnar m.v. þrönga viðskiptavog sett þar föst í 215,3 út spátímabilið, en nú stendur hún í 220,2 sem merkir að krónan er nú 2,2% lægri en í spánni. Samhliða vaxtaákvörðuninni nú mun Seðlabankinn birta nýja verðbólguspá, en þar verður miðað við lægra gengi en í síðustu spá. Í þessu felast nokkuð lakari verðbólguhorfur til skemmri tíma en í ágústspánni. Við reiknum þó með því að þessi breytta gengisforsenda muni ekki hafa mikil áhrif á verðbólguspána og þá sérstaklega litið til lengri tíma.

Ný hagvaxtarspá

nullSamhliða vaxtaákvörðuninni 6. nóvember nk. mun Seðlabankinn birta nýja hagvaxtarspá. Síðasta spá bankans, sem birt var í ágúst síðastliðnum, hljóðar upp á 1,9% hagvöxt í ár, 2,8% vöxt á næsta ári og 2,9% á árinu 2015. Í þjóðhagsspá okkar sem birt var nú í október spáum við því að hagvöxturinn verði öllu hægari en Seðlabankinn spáir, en við reiknum með 1,7% hagvexti í ár, 2,6% á næsta ári og 2,7% á árinu 2015. Segja má í ljósi óvissunnar að það sé samt meira blæbrigðamunur á þessum spám en eðlismunur. Í báðum spánnum er reiknað með fremur hægum hagvexti í ár sögulega séð, þó að hann sé góður í samanburði við það sem hefur verið að gerast víða í nálægum ríkjum undanfarið. Í báðum spánum er einnig reiknað með því að hagvöxtur taki við sér á næstu tveim árum.

Við reiknum með því að Seðlabankinn muni í nýrri spá halda sig við svipaðar hagvaxtarhorfur. Hugasnlega munu þeir þó eitthvað slá af hagvextinum yfir spátímabilið. Að öllum líkindum mun bankinn áfram gera ráð fyrir því að slakinn verði horfinn úr efnahagslífinu 2015, en lokasetningin í yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans hefur verið undanfarið að samhliða því að slakinn hverfi úr efnahagslífinu sé eðlilegt að slakinn hverfi einnig úr peningastjórnuninni. Við reiknum með því að sú aðlögun muni eiga sér stað með frekari hækkun stýrivaxta Seðlabankans.  

Hægur framleiðnivöxtur

Kröftugur bati hefur verið á vinnumarkaði í ár. Sé tekið mið af fyrstu níu mánuðum þessa árs hefur atvinnuleysi samkvæmt könnun Hagstofunnar að jafnaði mælst 5,7% samanborið við 6,5% á sama tímabili í fyrra. Á sama tíma hefur fjöldi starfandi farið úr 169.600 í 174.500, og hlutfall starfandi úr 75,8% í 77,0%. Þessi mikla fjölgun starfandi hefur jafnframt leitt til þess að heildarvinnustundum, sem er mælikvarði á ársverk, hefur fjölgað töluvert á milli ára. Hefur heildarvinnustundum í hagkerfinu fjölgað um 3,5% á milli ára, sé tekið mið af fyrstu níu mánuðum ársins. Ekki er annað hægt að segja en að það sé myndarleg aukning milli ára, og sérstaklega í ljósi þess hversu hægur hagvöxturinn hefur verið. Framleiðnivöxtur hefur því verið hægur og hefur það skapað verðbólguþrýsting. Benda þessar tölur til þess að framleiðnivöxturinn sé jafnvel minni en Seðlabankinn var með í verðbólguspá sinni í ágúst og verðbólguhorfur hafa því versnað hvað þetta varðar.   

Allir sammála um óbreytta vexti

Allir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabankans studdu tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta vexti við vaxtaákvörðunina 2. október. Enginn hefði heldur kosið aðra niðurstöðu, en einn nefndarmaður lýsti þó yfir áhyggjum af því hversu þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar væru. Þessi nefndarmaður taldi hins vegar ekki ástæðu til að bregðast við að sinni. Eitthvað virðist vaxtahaukur nefndarinnar því hafa rumskað, en hann hefur kosið með tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta vexti á síðustu fjórum vaxtaákvörðunarfundum nefndarinnar. Á öllum vaxtaákvörðunarfundum sínum á þessu ári hefur nefndin ákveðið að halda vöxtum óbreyttum, en á fundinum í mars sl. vildi vaxtahaukurinn hækka vexti um 0,25 prósentur. Reiknum við með því að allir nefndarmenn verði sammála þeirri tillögu Seðlabankanstjóra á næsta vaxtaákvörðunardegi að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum.

Óbreyttir stýrivextir út árið

Við teljum að vegna þess hve hægur efnahagsbatinn er um þessar mundir, og vegna þess að verðbólgan mun að okkar mati áfram verða svipuð og nú á næstu mánuðum, muni peningastefnunefnd Seðlabankans einnig halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á vaxtaákvörðunarfundi sínum í desember næstkomandi. Við teljum hins vegar að peningastefnunefndin muni hækka stýrivexti bankans á næsta ári þegar hagvöxtur hefur glæðst og komið hefur fram að verðbólgan er þrálátari en felst í núverandi verðbólguspá bankans. Spáum við því að bankinn muni á næsta ári hækka vexti í tvígang um 0,25 prósentur í hvort sinn. Við spáum síðan frekari vaxtahækkun árið 2015, eða um 0,25 prósentur.

Stýrivaxtaspánna má nálgast hér. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall