Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,5% hækkun neysluverðs í október

16.10.2018

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,5% í október frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst verðbólga úr 2,7% í 2,8% í október. Verðbólguhorfur til næstu ársfjórðunga hafa að mati okkar versnað lítillega vegna gengisveikingar krónunnar. Útlit er fyrir að verðbólga verði 3,5% í lok þessa árs og verði að jafnaði um 3,5% á árinu 2019. Hagstofan birtir VNV fyrir október þann 29. október næstkomandi.

Kennir margra hækkunargrasa

Segja má að margt smátt geri eitt allstórt í spá okkar fyrir mánaðabreytingu VNV í október. Enginn einn liður vegur til afgerandi hækkunaráhrifa en verðlag virðist vera að þokast nokkuð almennt upp á við. Gengislækkun krónu frá septemberbyrjun er þar mikilvægur áhrifaþáttur, ekki síst á verð matvöru, eldsneytis og annarra liða þar sem lagertími er tiltölulega stuttur.

Við áætlum að verð á mat og drykk muni hækka um 0,9% í október (0,10% áhrif í VNV) og er verðhækkun á innfluttum mat þar helsta ástæðan. Einnig gerum við ráð fyrir 0,08% hækkunaráhrifum frá húsnæðislið VNV. Könnun okkar bendir þó til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu, muni einungis hækka um 0,2% (0,04% í VNV) en því til viðbótar hefur hækkun greiddrar húsaleigu og viðhaldskostnaðar áhrif á þennan lið. 

Eldsneytisverð hefur hækkað um 2,4% frá síðustu mælingu Hagstofu (0,08% í VNV). Veiking krónu og hækkun á heimsmarkaðsverði eldsneytis skýrir þessa hækkun, og er væntanlega einnig snar þáttur í 4% hækkun á flugfargjöldum (0,06%) sem könnun okkar bendir til að hafi orðið frá septembermælingu VNV. Þá áætlum við að hækkun á bifreiðaverði vegi til 0,04% hækkunar VNV.

Einnig teljum við að verð á innfluttum vörum á borð við föt og skó (0,03% í VNV) og húsgögn og heimilisbúnað (0,04% í VNV) muni mælast nokkru hærra í októbermánuði en mánuðinum á undan, og sömu sögu má segja um tómstundavörur ýmiskonar (0,03% í VNV).

Gisting og samskiptatækni til lækkunar

Heldur er tómlegt að litast um í lækkunarbásnum í spá okkar að þessu sinni. Það eru helst gisting (-0,02% í VNV) og póst- og símaþjónusta (-0,01% í VNV) sem vega til þeirrar áttar í októberspánni.

Verðbólga á uppleið á komandi fjórðungum

Gengislækkun krónu um ríflega 8% frá septemberbyrjun hefur breytt skammtíma verðbólguhorfum nokkuð til hins verra. Við teljum að VNV muni hækka um 0,3% í nóvember og 0,5% í desember, en lækka um 0,1% í janúar næstkomandi. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 3,5% í árslok. Í nóvember og desember munu áhrif gengislækkunar krónu lita VNV-þróunina talsvert, en í janúar togast að vanda útsöluáhrif annars vegar, og hækkanir á gjaldskrám og ýmsum opinberum gjöldum hins vegar.
 
Í kjölfarið teljum við að verðbólga áfram verða á svipuðum slóðum fram eftir árinu 2019 en taka að hjaðna hægt og bítandi að nýju á seinni hluta þess árs. Ástæður hjaðnandi verðbólgu á seinni hluta næsta árs eru fyrst og fremst hægari hækkun íbúðaverðs þegar frá líður og stöðug króna, sem við gerum ráð fyrir að sveiflist í námunda við núverandi gildi á spátímanum. 

Ásamt óvissu um stefnu krónunnar á komandi fjórðungum liggur óvissa spárinnar að miklu leyti í tveimur þáttum: Annars vegar gætu laun hækkað hraðar en hér er spáð, sbr. töflu að ofan, en hins vegar gæti dregið meira úr hækkunartakti íbúðaverðs en gert er ráð fyrir í þessari spá.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall