Morgunkorn Íslandsbanka

Leiðrétting: Íslensk heimili létta á bensíngjöfinni í kortanotkun

18.12.2018

Komið hefur í ljós að verulegar skekkjur voru í kortaveltutölum Seðlabankans sem nýlegt Korn Greiningar um kortaveltu og einkaneyslu byggðu á. Seðlabankinn hefur nú leiðrétt tölur sínar og breyta hinar leiðréttu tölur myndinni af þróun einkaneyslu umtalsvert. Hér á eftir fylgir túlkun á hinum leiðréttu tölum. Beðist er velvirðingar á þessu.

Hægt hefur á raunvexti kortaveltu heimila undanfarna mánuði og er vöxturinn nú svipaður og hann var fyrir þremur árum síðan. Þróun kortaveltu í heild bendir til þess að íslensk heimili auki öllu hægar við neyslu sína nú um stundir eftir myndarlegan vöxt síðustu misserin. Þótt heimilin stígi þannig ekki beinlínis á bremsuna í útgjöldum þessa dagana er neyslufóturinn því að færast af bensíngjöfinni á kúplinguna.

Samkvæmt nýlegum tölum Seðlabanka Íslands um greiðslumiðlun nam heildarvelta innlendra greiðslukorta 84,9 mö.kr. í nóvember síðastliðnum. Er það 7,4% aukning í krónum talið frá sama mánuði í fyrra. Velta debetkorta jókst um 5,8% á milli ára á meðan 9,0% aukning varð á kreditkortaveltu í nóvember frá sama tíma í fyrra.

Einkaneysluvöxtur á útivelli

Undanfarin ár hefur verið mikill munur á þróun innlendrar og erlendrar kortaveltu íslenskra heimila. Sé innlenda kortaveltan raunvirt með vísitölu neysluverðs án húsnæðis en sú erlenda með gengisvísitölu kemur á daginn að allt fram á haustið 2018 var býsna myndarlegur vöxtur í erlendri kortaveltu á meðan vöxtur í veltu innan landhelginnar hefur verið talsvert hægari síðustu misserin. Þessi ólíka þróun endurspeglar að mati okkar bæði aukinn hlut alþjóðlegrar netverslunar í neyslu landsmanna og einnig vaxandi ferðagleði landans. Hins vegar brá svo við í nóvember að erlend kortavelta minnkaði örlítið að raungildi frá sama tíma 2017. Hefur erlenda veltan ekki minnkað á þann mælikvarða frá árinu 2012.

Samanlagt jókst kortavelta íslenskra heimila um tæplega 3,0% að raunvirði í nóvember frá sama mánuði í fyrra. Talsvert hefur dregið úr vextinum á þennan mælikvarða síðustu mánuði, en hann var að jafnaði  ríflega 10% á fyrri helmingi ársins. 

Hægur einkaneysluvöxtur á lokafjórðungi ársins?

Þróun kortaveltu gefur allsterka vísbendingu um þróun einkaneyslu, þótt til skemmri tíma geti verið talsverður munur þarna á milli líkt og sjá má af myndinni.

Það sem af er lokafjórðungi ársins benda helstu einkaneyslutengdu hagvísar á borð við raunþróun kortaveltu, Væntingavísitölu Gallup og nýskráningar bifreiða til þess að hægt hafi á einkaneysluvexti miðað við fyrri ársfjórðunga. Er líklegt að þetta muni endurspeglast í þjóðhagsreikningum Hagstofunnar fyrir 4F 2018, en þeir verða birtir þann 1. mars næstkomandi. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall